*

miðvikudagur, 22. september 2021
Týr
17. maí 2020 09:08

Sérhagsmunir — ekki almannahagsmunir

Kjörorð Viðreisnar eru hláleg meðan fortíð formannsins hefur ekki verið gerð upp, né fjármál og siðferði flokksins.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er formaður Viðreisnar.
Haraldur Jónasson

Þröstur Emilsson, framámaður í Viðreisn og frambjóðandi í 3. sæti í Hafnarfirði í síðustu kosningum, var í fyrri viku fundinn sekur um fjárdrátt frá ADHD-samtökunum, en í ljós kom að hann hafði sem framkvæmdastjóri þeirra veitt Viðreisn fjárstyrk! Flokkurinn hefur nú endurgreitt styrkinn. Það er óskiljanlegt að Viðreisn hafi veitt styrk samtakanna viðtöku. Hvaða stjórnmálaflokki öðrum dytti í hug að taka við fjárstyrk frá sjúklingasamtökum?

                                                                        ***

Á dögunum féll svo annar fjárdráttardómur, hluti Sæmarksmálsins, einnar umfangsmestu skattalagarannsóknar Íslandssögunnar, en þar var Bylgja Hauksdóttir dæmd og sektuð um 178 milljónir króna, fyrir að hafa komið sér hjá því að greiða um 89 milljónir króna til samfélagsins, en þar af var vangoldið útsvar um 26,5 milljónir króna.

Bylgja er eiginkona Söru Daggar Svanhildardóttur, oddvita Garðabæjarlistans og áhrifakonu í Viðreisn, sem m.a. hefur gagnrýnt lágt útsvar í Garðabæ! Sara er auðvitað ekki sek um neitt, en þarna ræðir um heimilishaldið hjá henni, sem vekur spurningar um pólitíska ábyrgð og hreinskilni.

                                                                        ***

Áður hefur verið fundið að fjárreiðum Viðreisnar, sem kom sér hjá því að fara að lögum um fjármál stjórnmálaflokka með því að skrá sig ekki sem slíkan fyrr en kortér fyrir kosningar þó félagið hafi þá starfað árum saman. Síðar kom á daginn að flokkurinn þáði styrk frá félagi í skattaskjóli.

Viðreisn er eini flokkurinn sem hefur þegið tvöfalt hámarksframlag í styrk á umdeilanlegri lagaforsendu og eins var deilt um lögmæti 2,4 milljóna króna styrkja, sem fjárfestirinn Helgi Magnússon veitti flokknum persónulega og í gegnum félög honum tengd, en hámark leyfilegra styrkja frá hverjum og einum á að vera 400.000 kr.

                                                                        ***

Viðreisn þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum hvað varðar fjármál og siðferði, en varla er mikil von til þess meðan Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er þar í forystu með sína óuppgerðu fortíð. Og enn hlálegra að kjörorð flokksins eru „Almannahagsmunir - ekki sérhagsmunir"!

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.