Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga sem ætlað er að innleiða reglugerð frá Evrópusambandinu um bætt verðbréfauppgjör og um verðbréfamiðstöðvar, sk. CSDR reglugerð. Verðbréfamiðstöðvar sjá um rafræna útgáfu verðbréfa og hafa umsjón með miðlægri vörslu þeirra. Í því felst meðal annars að hafa eftirlit með heilindum útgáfunnar, þar sem tryggja þarf örugga og rétta réttindaskráningu eigenda. Verðbréfamiðstöðvar gegna þar með mikilvægu hlutverki við að viðhalda tiltrú fjárfesta.

Nasdaq verðbréfamiðstöð fagnar því að ofangreind reglugerð verði innleidd í íslenskan rétt en ljóst er að hún mun hafa í för með sér mikla réttarbót fyrir íslenskan fjármálamarkað. CSDR , sem tók gildi í Evrópusambandinu 17. september 2014, er fyrsta samræmda löggjöfin innan EES sem tekur til reksturs verðbréfamiðstöðva og verðbréfauppgjörs en reglugerðinni er ætlað að auka skilvirkni og öryggi í uppgjöri verðbréfaviðskipta innan Evrópu. Starfsumgjörð verðbréfamiðstöðva er gjörbreytt í kjölfar CSDR en öllum verðbréfamiðstöðvum innan EES er skylt að sækja um nýtt starfsleyfi á grundvelli löggjafarinnar. Þá eru gerðar viðamiklar kröfur um tæknilega framkvæmd verðbréfauppgjörs sem uppfyllir alþjóðlega staðla.

CSDR er einnig ætlað að skapa samræmda umgjörð fyrir samkeppni milli verðbréfamiðstöðva innan EES á jafnræðisgrunni. Með þetta í huga hefur CSDR reglugerðin verið sett með hámarkssamræmingu reglna um verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar innan EES fyrir augum. CSDR inniheldur m.a. ítarleg ákvæði um leyfisveitingar og eftirlit með verðbréfamiðstöðvum. Þá eru gerðar umfangsmiklar rekstrar- og skipulagskröfur til verðbréfamiðstöðva en þessar reglur eru mun ítarlegri og ganga lengra en núgildandi lög um verðbréfamiðstöðvar.

Nasdaq leggur mikla áherslu á að þess verði gætt að inn í frumvarpsdrögin rati engar séríslenskar reglur sem eru til þess fallnar að fara gegn markmiði CSDR um hámarkssamræmingu og aukna samkeppni verðbréfamiðstöðva á jafnræðisgrundvelli innan EES. Séríslenskar reglur er gilda munu um starfsemi verðbréfamiðstöðva hér á landi eru til þess fallnar að skapa aðgangshindranir og fæla erlendar verðbréfamiðstöðvar frá því að hefja hér starfsemi eða bjóða þjónustu yfir landamæri. CSDR reglugerðin á að ná fram hámarkssamræmingu innan Evrópu og því er lítið svigrúm fyrir séríslenskar lausnir.

Ljóst er að innleiðing CSDR mun hafa mikil áhrif á starfsemi verðbréfamiðstöðva, en Nasdaq verðbréfamiðstöð þarf að taka upp nýtt verðbréfauppgjörskerfi og gera yfirhalningu á stjórnarháttaog rekstrarumgjörð til samræmis við löggjöfina. Því fylgja einnig miklar breytingar á verkferlum og tæknilegri umgjörð hjá fjármálafyrirtækjum sem eru þátttakendur í uppgjöri verðbréfaviðskipta í kerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar. Innviðabreytingin sem Nasdaq er að undirbúa mun þannig fela í sér mestu breytingu og innviðaskipti á íslenskum verðbréfamarkaði í nærri 20 ár og hafa í för með sér miklar framfarir í uppgjöri og umsýslu verðbréfa.

Í þeirri vinnu hefur Nasdaq verðbréfamiðstöð nýtt sér alla þá þekkingu og reynslu sem er til staðar innan Nasdaq samsteypunnar, en verðbréfamiðstöð Nasdaq í Evrópu, Nasdaq CSD SE , var fyrsta verðbréfamiðstöðin í Evrópu til að hljóta nýtt starfsleyfi á grundvelli CSDR . Á grundvelli CSDR er nú unnið að því að Nasdaq verðbréfamiðstöð verði sameinuð Nasdaq CSD SE . Fyrirséð er að samruni félaganna muni veita verðbréfamiðstöðinni tækifæri til að útvíkka þjónustuframboð sitt og taka beinan þátt í uppbyggingu sameinaðrar verðbréfamiðstöðvar Nasdaq í Evrópu. Með verkefninu vill Nasdaq verðbréfamiðstöð einnig skapa hagfelldari aðstæður fyrir þátttöku erlendra fjárfesta á íslenskum verðbréfamarkaði, en staðbundið verklag í tengslum við uppgjör verðbréfaviðskipta hefur hingað til skapað ákveðnar hindranir sem hamlað hafa aðkomu erlendra fjárfesta að verðbréfaviðskiptum hér á landi.

Nasdaq verðbréfamiðstöð hlakkar til að takast á við nýjar áskoranir sem fylgja CSDR og vinna náið með viðskiptavinum sínum og öðrum hagsmunaaðilum að því að grípa þau miklu tækifæri sem fylgja aukinni alþjóðavæðingu íslensks verðbréfamarkaðar.

Höfundur, Árnína Steinunn Kristjánsdóttir, er yfirlögfræðingur hjá Nasdaq á Íslandi.