Nýlega bárust fréttir af því að íslensk rekstrarfélög væru með lánsfjármögnun erlendis frá til skoðunar.  Nú má vera að mismunandi skoðanir séu á því hvort það sé æskilegt eða ekki – en það er áhugavert að skoða hvað má lesa út úr lögum um tekjuskatt um skoðanir löggjafans.

Lengst af þurfti ekki að skoða lánveitingar erlendis frá til innlendra aðila í þessu samhengi þar sem að Ísland lagði engan skatt á vaxtagreiðslur til erlendra lánveitenda.  Var það í samræmi við það sem almennt gerist í norður hluta Evrópu.  Hér breyttist þetta árið 2009 þegar kynntur var til sögunnar tekjuskattur sem lagðist á vaxtatekjur erlendra aðila, að nafninu til, og upprunnar voru hér á landi, skatthlutfallið var 20%.

Árið 2009, og árin næst þar á eftir, voru líkast til ekki þau ár sem íslensk rekstrarfélög áttu hvað greiðastan aðgang að erlendu lánsfé og því reyndi ekki eins mikið á þessa breytingu í upphafi eins og verið hefði undir öðrum kringumstæðum.  Því kom vandinn við það að leggja skatt á vaxtatekjur erlendra aðila að nafninu til kannski ekki að fullu í ljós í upphafi.

Vandinn er hins vegar sá að nær undantekningarlaust gerir hinn erlendi lánveitandi þá kröfu við gerð lánasamninga við innlenda lántaka að ef einhver slíkur skattur er lagður á af hálfu Íslands þá þurfi lántaki að greiða eins mikið aukalega af lánum sínum sem þörf krefur svo lánveitandi beri ekkert af skattkostnaðinum.  Í hnotskurn er krafan sú að sá sem raunverulega ber skattinn er hinn innlendi lántaki.

Það hvort þessi krafa nær fram að ganga ræðst aðallega af tvennu.  Samningsstöðu annars vegar og hins vegar því hvort lánveitandi geti yfir höfuð samið á annan veg við innlendan lántaka.  Í raun er staðan sú að mótmæli íslenskra lántaka við svona ákvæðum ná ekki fram að ganga.  Annars vegar er samningsstaðan alla jafn sú að ekki er raunhæft að mótmæla.  Hins vegar er það svo að lánveitandi gæti hreinlega ekki fallist á mótmælin þó hann af einhverjum ástæðum vildi.

Ástæða þessa er að vaxtamunur erlendra banka er líkast til á bilinu 1 – 3,5% (hér er miðað við upplýsingar frá Seðlabanka Íslands – Fjármálastöðugleiki 2017 -2, bls. 53, mynd VIII-15).  Ef við gefum okkur að fyrir hverja 100 í vaxtatekjur sé kostnaður lánveitanda 95 þá eru nettó tekjur hans 5% af mótteknum vöxtum.  Skatturinn er lagður á brúttó vexti þ.a. ef hann er lagður á þessar sömu tekjur þá þyrfti lánveitandi að greiða 20 í skatt á meðan nettó tekjur eru 5.  Þetta þýðir raunskattlagningu upp á 400%.  Líkast til þarf lánveitandi ekki að reikna lengi til að komast að þeirri niðurstöðu að ekki verður við þannig skattlagningu búið – sem leiðir til þess að krafa um að íslenskur lántaki beri skattinn verður ófrávíkjanleg.  Það er rétt að nefna að auðvitað getur sú staða verið uppi að nettó tekjur lánveitanda séu svo gríðar miklar að þær nægðu fyrir skattinum en tölurnar eru settar fram til að sýna hve mikill hagnaðurinn þarf að vera svo það væri tilfellið.  Þó kostnaður erlends lánveitanda væri ekki nema 70 fyrir hverja 100 í vexti þá næmi skattlagning með ofangreindum hætti um 66,7% af nettó tekjum.

Afleiðing þessa er sú að innlendur lántaki ber alltaf skattinn í raun samkvæmt gerðum lánasamningum. Ef skatturinn er 20% þýðir það í grófum dráttum að fjármagnskostnaður innlenda lántakans eykst um ríflega samsvarandi hlutfall.

Eru einhverjar lausnir?

Í upphafi gerði löggjafinn sér grein fyrir vandamálinu að einhverju marki.  Þannig voru ákveðnar vaxtagreiðslur undanþegnar skattlagningunni.  Það voru vextir greiddir af Seðlabanka Íslands, vextir greiddir erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum og öðrum opinberum aðilum sem voru undanþegnir skatti í heimaríkjum sínum. Miðað við þessar undanþágur kynni einhverjum að detta í hug að þau sem skrifuðu hefðu meiri áhuga á hagsmunum hins opinbera en virkni markaðarins. Að auki var bent á í lagatextanum að tvísköttunarsamningar gætu komið í veg fyrir skattlagningu.

Það er vissulega svo að tvísköttunarsamningar geta breytt stöðunni.  Jafnframt er það þannig að OECD hefur fyrir löngu áttað sig á vandamálinu sem lýst er hér að ofan.  Því gerir samningsfyrirmynd OECD að tvísköttunarsamningum ekki ráð fyrir neinni skattlagningu greiðslulands á vöxtum greiddum frá lántaka í einu ríki til lánveitanda í öðru.  Vandinn er hins vegar sá að slíkir samningar eru ekki alltaf fyrir hendi, stundum eiga þeir ekki við þó þeir séu fyrir hendi og í enn öðrum tilvikum hefur Ísland vikið frá fyrirmynd OECD þannig að ákveðnir samningar koma ekki í veg fyrir skattlagninguna.

Eins og augljóst mátti vera í upphafi hefur þetta valdið ýmsum vandamálum í framkvæmd og annaðhvort komið í veg fyrir gerð lánasamninga eða aukið kostnað innlendra aðila sem geta fengið lán erlendis frá.

Löggjafinn hefur brugðist við einhverjum af þeim vandamálum.  Mjög fljótlega eftir innleiðingu skattlagningarinnar var skatthlutfallið lækkað úr 20 í 10% (raunskattlagningu m.v. forsendur að ofan um 5 í nettó tekjur fer þá í 200%), vaxtagreiðslur ríkissjóðs sjálfs voru undanþegnar (sem segir allt sem segja þarf um samningsstöðuna og það hve vandinn er óyfirstíganlegur), tiltekin skuldabréfaútgáfa fjármálafyrirtækja og orkufyrirtækja var undanþegin sem og útgáfa til lúkningu slitameðferðar banka.

Þannig hefur verið reynt að bæta úr vandanum en aðeins gagnvart ákveðnum aðilum. Í grunninn bara gagnvart ríkinu sjálfu, orkufyrirtækjum þess og fjármálafyrirtækjum.  Í raun er hins vegar ekki hægt að leysa vandann í þeim skilningi að kostnaður vegna skattlagningarinnar verði borin af erlendum lánveitendum af ofangreindum ástæðum.  Það var meira að segja þannig að þegar Ísland lagði ekki skatt á vaxtagreiðslur úr landi þá voru samt ákvæði í lánasamningum um að slíkur skattur yrði borin af lántaka í raun ef til hans kæmi.

Af þessum orsökum er því haldið fram hér að skattlagning á vaxtagreiðslum úr landi verður alltaf í raun borin af innlendum lántökum.  Það er engin leið að breyta því – önnur en sú að hætta að skattleggja slíkar greiðslur með þeim hætti sem gert er. Spurningin er einfaldlega hvort löggjafinn telur það æskilegt að skattleggja sérstaklega innlenda aðila sem eiga færi á því að leita lánsfjár erlendis frá.

Hver er staðan í dag?

Í dag er það svo að skattlagningin sem kynnt var til sögunnar árið 2009 er enn fyrir hendi með þeim afleiðingum sem hér hefur verið lýst og með þeim takmörkuðu undanþágum sem nefndar hafa verið.  Skatthlutfallið hefur hins vegar breyst, upphaflega var það 20% en fljótlega fært niður í 10%.  Hins vegar bar svo við undir lok síðasta árs þegar innlendur fjármagnsskattur var hækkaður um 10% úr 20 í 22% þá var sá skattur sem hér er til umræðu hækkaður um 20% eða úr 10% í 12%.

Nú kann undirritaður ekki að skýra þessa nýjustu breytingu.  En óneitanlega bendir hún til þess að löggjafinn hafi svarað ofangreindri spurningu játandi – hann vill skattleggja sérstaklega innlenda aðila sem fá lán erlendis frá. Að auki hafi hann ákveðið að ástæða sé til að bæta hraustlega í þá aukningu fjármagnskostnaðar innlendra lántaka sem af skattinum leiðir undir þeim formerkjum að verið sé að skattleggja erlenda aðila – en þau formerki standast enga skoðun og raunin því önnur.

Að lokum er rétt að nefna það til sögunnar að það sem hér er rætt er langt frá því að vera vandamál bundið við Ísland þó Ísland ákveði hvernig lausnin eigi að vera.  Þannig hefur nýlega verið kveðinn upp dómur hjá Evrópudómstólnum (C-18/15) þar sem komist var að því að brúttó skattlagning vaxtatekna erlendra aðila öfugt við nettó skattlagningu innlendra aðila væri ekki í samræmi við fjórfrelsisákvæði innan ESB – líkast til yrði sama niðurstaða á grundvelli EES samningsins sem Ísland er bundið af.

Höfundur er lögmaður og einn eigenda LOGOS.