Seinna í þessum mánuði verður Sjálfstæðisflokkurinn 94 ára, það er ekki endilega hár aldur fyrir stjórnmálaflokk í samnburði við nágrannalönd okkar en á Íslandi er það bara Framsóknarflokkurinn sem stendur okkur Sjálfstæðismönnum á sporði í langlífi. Langlífið sjálft er þó ekki markmið á sjálfu sér ef tilgangurinn, grunngildin og stefnan er ekki til staðar.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður voru aðalstefnumál hans tvö, annars vegar fullt sjálfstæði og hins vegar „að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis, með hagsmuni allra stjetta fyrir augum.”

Til viðbótar verður að nefna hið ósagða grunngildi, að reka hið opinbera með ábyrgum hætti. Sem hefur verið meginstefnumál flokksins öll 94 árin.

Ábyrgur rekstur ásamt frelsinu hefur verið meginþráðurinn í stefnu hægrimanna á Íslandi í tæpa öld.  Það er rétt að viðurkenna að það hefur mismikill kraftur verið lagður í baráttuna fyrir atvinnu- og einstaklingsfrelsi á þessum hundrað árum. Sérstaklega þegar mælikvarðar nútímans eru hafðir til viðmiðunar. Þegar ungt fólk með Eimreiðarhópinn í farabroddi steig fram fyrir rúmum 40 árum er þó óhætt að segja að baráttan fyrir frelsinu hafi byrjað af alvöru, að öllum sem á undan gengu ólöstuðum.

Fegurðin í frelsinu er ekki síst sú, að það er óstýrilátt og smýgur þangað sem þess er þörf.

Sú bylgja sótti aðallega hugmyndir sínar til Bretlands og Bandaríkjanna þar sem frelsið var lausnarorð gegn stöðnuðum efnahag og óhagkvæmum opinberum rekstri. Fegurðin í frelsinu er ekki síst sú, að það er óstýrilátt og smýgur þangað sem þess er þörf. Þannig hafa á þessum 40 árum orðið stórkostlegar breytingar í einstaklingsfrelsi og umburðarlyndi. Fólk sem áður var í felum stígur nú fram og fær að lifa í sátt við sig sjálft. Það er ómetanlegt.

Það var rifjað hér upp í Viðskiptablaðinu fyrir um mánuði hvernig hægri flokkurinn í Kanada missti tilgang sinn og tilverurétt fyrir 30 árum. Fór úr því að vera með hreinan meirihluta á þingi í að hafa einungis tvo þingmenn. Umskipti sem urðu í einum kosningum. Það er öfgakennt dæmi um flokk sem missti tiltrú kjósenda sinna og fór gegn grunngildum sínum. Ef stjórnmálaflokkar gæta ekki að grunngildum sínum getur molnað hratt undan þeim.

Óþolið og fordómarnir

Hægri menn í Bandaríkjunum hafa því miður yfirgefið hugmyndina um minni ríkisafskipti og frelsi, nema í skotvopnaeign. Þar leggja þeir fram frumvörp og tillögur sem allar ganga út á forræðishyggju og stríð við sístækkandi minnihlutahópa sem samanlagt mynda bráðum meirihluta, n.k. menningarstríð við tímann.

Breskir íhaldsmenn feta sig inn á svipaða braut nema í skotvopnamálum. Fyrra leiðtogakjör síðasta árs snerist upp í metingskeppni í rembu og óþoli gagnvart transfólki, gegn frelsi einstaklingsins. Það sem hægri menn í Bretlandi og Bandaríkjunum eiga líka sameiginlegt um þessar mundir er lélegur árangur í kosningum.

Íhaldsflokkurinn missti 1.000 sveitarstjórnarmenn í kosningum síðustu viku og fyrir hálfu ári sneru repúblikanar sterkri stöðu í vonda með naumum sigri í einni deild, en ósigrum í öldungadeild og ríkisstjórakosningum. Óþolið og fordómarnir eiga sér, sem betur fer, ekki meirihlutafylgi.

Halda þarf í grunngildin

Frá upphafi skilgreindu sjálfstæðismenn sig ekki fyrst og fremst sem íhald, heldur sem frjálshyggju- og umbótaafl. Talsmenn breytinga. Þar liggur stór munur á hægra fólki hér og í enskumælandi löndum. Hér hefur íhaldið alltaf átt heimili beggja vegna pólitíska ássins.

Sjálfstæðisflokkinn vantar sex ár í hundrað og til að hann fari ekki sömu leið og hægri flokkurinn í Kanada fór fyrir 30 árum þarf hann að halda í grunngildi sín um umbætur og einstaklings- og atvinnufrelsi. Hann þarf að taka rekstur hins opinbera föstum tökum og standa á móti stöðugum kröfum um aukna útþennslu. Hann þarf líka halda áfram á þeirri braut sem ungt fólk með Davíð Oddsson og Hannes Hólmstein Gissurarson í farabroddi vörðuðu fyrir rúmum 40 árum, braut í átt að meira einstaklings- og atvinnufrelsi fyrir alla.

Greinin birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á fimmtudaginn, 11. maí.