*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Huginn og muninn
13. febrúar 2021 10:03

Á síðu 5, 27, 30, 31, 32, 35 ...

Í spillingarskýrslunni umtöluðu er töluverðu púðri eytt í umfjöllun um hina „nýju stjórnarskrá".

Þorvaldur Gylfason hlaut glimmrandi kosningu til Stjórnlagaþings.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Fyrir viku birti Viðskiptablaðið frétt af spillingarvísitölu Transparency International, sem vakti þónokkra athygli. Ísland féll um nokkur sæti á milli ára og Íslandsdeild samtakanna dró þá ályktun að fall Íslands væri „mikið áhyggjuefni og stjórnvöld sem og almenningur ættu að huga alvarlega að því hvað gæti valdið þessari þróun og hvernig er hægt að bæta úr stöðunni“. Hröfnunum þykir þetta áhugaverð nálgun þegar haft er í huga að munurinn á milli ára var ekki tölfræðilega marktækur.

Það sem vakti ekki síst athygli var að ein stofnun af sjö, sem leggur mat á spillingu hérlendis, hefur í gegnum árin gefið áberandi lægstu einkunnina og þannig haft töluverð áhrif á spillingarvísitöluna. Stigagjöf þessarar stofnunar, sem nefnist Bertelsmann Foundation, byggist á skýrslu sem nefnist „Sustainable Governance Indicators (SGI).“ Skýrslan hefur um árabil verið unnin af prófessorunum Þorvaldi Gylfasyni og Grétari Þór Eyþórssyni.

Þegar kosið var til Stjórnlagaþings haustið 2010 hlaut Þorvaldur yfirburðakosningu en kosningaþátttaka var 36%. Hefur Þorvaldur í gegnum árin skrifað fjölda greina um stjórnarskrármálin og gagnrýnt stjórnvöld fyrir að fara ekki að vilja þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu um „nýja stjórnarskrá“, sem reyndar var ráðgefandi. Um mitt síðasta ár skrifaði hann meðal annars grein í Stundina þar sem segir: „Ósætti um frumvarpið á Alþingi eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012 vitnar ekki um skort á breiðri samstöðu heldur um einbeittan brotavilja og virðingarleysi þingmanna gagnvart fólkinu í landinu …“

Hröfnunum þykir skýrsluhöfundurinn taka ansi sterkt til orða. Velta þeir því jafnframt fyrir sér hvort þessar vangaveltur prófessorsins séu farnar trufla um of vinnu hans við SGI-skýrsluna. Í þeirri nýjustu, sem telur 60 blaðsíður, er fjallað um nýju stjórnarskrána á síðu 5, 27, 30, 31, 32, 35, 40, 45, 46 og 52.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.