Í samræmi við nýtingarstefnu stjórnvalda staðfesti sjávarútvegsráðherra í liðinni viku veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar fyrir komandi ár. Það er vel. Landssamband smábátaeigenda (LS) vildi hins vegar fá verulega aukningu. Þorskkvótann vildi LS upp í tæp 312 þúsund tonn, en hin vísindaleg ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar gaf 258 þúsund tonna ársafla. Krafa LS var því um ríflega 20% aukningu umfram nýtingarstefnu.

Þessi afstaða LS er umhugsunarverð, hvort heldur litið er til samfélagslegrar ábyrgðar eða aðgangs að erlendum mörkuðum. Íslenskur sjávarútvegur hefur lagt ríka áherslu á ábyrgar fiskveiðar. Grundvallarforsenda þeirra er að fylgja nýtingarstefnu sem byggi á vísindalegri ráðgjöf um hversu mikið má veiða, þannig að auðlindinni sé viðhaldið til langrar framtíðar.

Á vef Ábyrgra fiskveiða, sjálfseignarstofnun sem LS á aðild að, segir þannig orðrétt: „Árið 2007 var yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga gefin út, en hana undirrituðu sjávarútvegsráðherra, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, fiskistofustjóri og formaður Fiskifélags Íslands, en verkefnið um ábyrgar veiðar hefur frá upphafi verið unnið á vettvangi Fiskifélagsins. Yfirlýsingin var svar við kröfum markaða um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og hafði þann tilgang að upplýsa kaupendur um hvernig stjórnun fiskveiða er háttað á Íslandi og að stjórnunin væri byggð á bestu vísindalegri þekkingu.“

Vegna afstöðu LS, um að víkja að verulegu leyti frá ábyrgri nýtingarstefnu, vakna áleitnar spurningar. Vill LS setja þann árangur sem náðst hefur við að kynna sjálfbærar veiðar við Ísland í uppnám? Þá má jafnframt spyrja hvort LS ætli sér að standa undir ábyrgð ef sveigt er framhjá vísindalegri ráðgjöf? Smábátasjómenn eru upp til hópa skynsamir. Þeim er því vitanlega morgunljóst að frávik frá nýtingarstefnu er óráð. Ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og staðfesting ráðherra fela í sér ríflega 5% aukningu í þorskafla. Aukningin er staðfesting þess að við erum á réttri braut. Sígandi lukka er best.

Höfundur er framkvæmdastjóri SFS.