Lamandi hönd ríkisvaldsins kemur víða við. Viðskiptablaðið fjallaði í síðasta mánuði um leigubílamarkaðinn og þar komu ótrúleg og óskiljanleg tíðindi fram. Reyndar kom sú frétt þeim ekki á óvart sem þurfa að nýta sér þjónustu leigubíla. Óðinn veltir fyrir sér hvað útlendingum finnist um þetta sósíalistasker sem við búum á þar sem ekki er hægt að fá leigubíl, rauðvínsflaskan er á margföldu verði heimalandsins - hvað þá vodkaflaskan - og leigubílar einhverjir þeir dýrustu í heimi. Þökk sé hinu opinbera.

Í fréttinni í mars segir:

Allt of fáir leigubílar eru til taks á höfuðborgarsvæðinu að sögn Guðmundar Barkar Thorarensen, framkvæmdastjóra leigubílastöðvarinnar BSR. Hann segir skortinn sérlega slæman nú þegar öllum sóttvarnatakmörkunum hafi verið aflétt. Töluvert brottfall hafi átt sér stað innan stéttarinnar eftir að Covid heimsfaraldurinn skall á, enda hafi faraldurinn valdið hruni í eftirspurn eftir þjónustu leigubíla. Hann segir suma þeirra bílstjóra sem þurftu frá að hverfa ekki hafa skilað sér til baka.

„Brottfallið úr stéttinni var ábyggilega um 30% og þegar fólk er búið að vera í hálfgerðu atvinnuleysi í marga mánuði í röð er það því miður staðreynd að ákveðinn hluti af þeim hópi nær sér ekki af stað á ný."

Guðmundur segir þó að bera hafi farið á skortinum löngu fyrir faraldurinn. Akstur leigubíla er leyfisskyldur og bendir hann á að útgefnum leyfum hafi ekki fjölgað að neinu ráði í á þriðja áratug þrátt fyrir að íbúum og ferðamönnum hafi fjölgað verulega.

* * *

Niðurstaða framkvæmdastjórans er sú að það þurfi að fjölga leigubílum um 100-200. Óðinn telur þetta vera vanmat og raunveruleg þörf á markaðnum sé mun meiri. Einnig segja leigubílstjórar sjálfir að fækkunin sé mun meiri. Til að mynda sé hún úr 60 bílum á BSR fyrir Covid-19 en sé núna í kringum 35. Það er nær helmingi en þriðjungi.

* * *

Leigubílastöðvar festar í sessi

Nú hefur Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra lagt fram frumvarp um leigubíla. Þar eru hugmyndir bóndans, einyrkjans, ráðandi. Þótt fjöldi leyfa verði ótakmarkaður þá verða strangar reglur um veitingu leyfanna og þær verða bundnar við bíl. Þar með eykst hagkvæmnin ekki en líklega eru leigubílar á Íslandi þeir dýrustu í heimi, ef ekki í alheiminum.

En hver er skilyrðin samkvæmt frumvarpinu? Þau eru þessi:

1. Hefur lögheimili innan Evrópska efnahagssvæðisins og starfsstöð hér á landi sem er virk og traust. Frá þeirri starfsstöð skal starfseminni vera stjórnað og þar skulu öll grunnviðskiptaskjöl er varða reksturinn vera geymd og aðgengileg.

2. Hefur viðeigandi starfshæfni eins og nánar skal kveðið á um í reglugerð. Í viðeigandi starfshæfni felst m.a. að viðkomandi hafi fullnægjandi ökuréttindi, hafi setið tilskilin námskeið um leigubifreiðaakstur, rekstur, bókhald, skattskil o.fl. og staðist próf.

3. Hefur gott orðspor. Við mat á góðu orðspori ber að líta til þess hvort viðkomandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni hans til að starfa sem leigubifreiðastjóri eða sem gefur til kynna að viðkomandi njóti ekki nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfanum. Hafi brot verið smávægilegt eða fimm ár liðin frá uppkvaðningu dóms eða frá viðurlagaákvörðun er heimilt að veita leyfi. Hafi brot verið stórfellt og varðað XXIII. kafla almennra hegningarlaga skal ekki veita leyfi fyrr en að tíu árum liðnum frá uppkvaðningu dóms. Hafi brotið varðað við XXII. kafla almennra hegningarlaga skal ekki veita leyfi. Samgöngustofu er heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá um það hvort umsækjandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um að tiltekin brot eða tilteknir brotaflokkar skuli ekki hafa áhrif á mat á góðu orðspori.

4. Er fjár síns ráðandi og ekki í vanskilum við opinbera aðila vegna opinberra gjalda.

5. Hefur náð 21 árs aldri og haft ökuréttindi fyrir B-flokk í minnst þrjú ár.

6. Er einn skráður eigandi eða umráðamaður fólksbifreiðar sem skráð er hér á landi, tryggð viðeigandi ökutækjatryggingu og viðkomandi hyggst nýta til reksturs leigubifreiðar.

* * *

Má fljúga farþegaflugvél en ekki aka leigubíl

Nú er vitanlega svo að rétt er að gera kröfur til leigubílstjóra rétt eins og annarra þeirra sem stjórna bifreiðum. En hvernig er þetta í samanburði við aðrar starfsstéttir?

Til að fá einkaflugmannsréttindi þá þarf viðkomandi að vera orðinn 17 ára gamall. Engar reglur eru um lágmarksaldur atvinnuflugmanna. Þeir þurfa hins vegar að uppfylla ýmsar kröfur. Fræðilega séð getur einstaklingur orðið atvinnuflugmaður á átjánda ári þó það sé raunhæfara á því nítjánda.

Því getur einstaklingur flogið farþegaflugvél með mörg hundruð manns fyrir tvítugt en ekki ekið leigubíl á götum Reykjavíkur.

* * *

Er þetta eitthvert grín?

Annað skilyrði fyrir því að verða leigubílstjóri er að hann hafi starfsstöð hér á landi og hún sé „virk og traust. Frá þeirri starfsstöð skal starfseminni vera stjórnað og þar skulu öll grunnviðskiptaskjöl er varða reksturinn vera geymd og aðgengileg." Er þetta eitthvert grín? Þetta er leigubílstjóri en ekki ráðuneytisstjóri.

Þarna er innviðaráðherrann að gæta þess að stöðvarfyrirkomulagið sem hefur verið við lýði á Íslandi haldist áfram og þarna kemur hann í veg fyrir að menn sleppi símadömunum og feita forstjóranum og noti app, eins og allar siðaðar þjóðir gera í dag. Þarna er innviðaráðherrann að viðhalda háum viðskiptakostnaði engum til gagns - nema kannski feita forstjóranum.

Þá eru gerðar kröfur til leigubílstjóra að þeir hafi þekkingu á íslenskum skattarétti með því að sitja tilskilin námskeið í rekstri, bókhaldi og skattskilum. Skattskil leigubílstjóra eru afar einföld en Óðinn efast um að nokkur leigubílstjóri á Íslandi sjái um þau sjálf. Ekkert frekar en langflestir iðnaðarmenn, verkfræðingar, lögfræðingar, kennarar og svo mætti endalaust telja.

Þetta ákvæði er aðeins sett til að torvelda mönnum að gerast leigubílstjórar og hugsanlega sett til torvelda þeim sem eru af erlendu bergi brotnir til að komast inn í stéttina.

* * *

Orðsporið mikilvæga

Eitt matskenndasta ákvæði frumvarpsins er um gott orðspor. Það eru líklega fáar starfsstéttir í landinu sem þurfa að búa við svo strangar reglur um orðspor ef þetta ákvæði verður óbreytt að lögum. Í dag er nútímatækni þannig að auðvelt er að rekja ferðir leigubílstjóra alla daginn, alltaf.

Þeir sem brjóta gegn hegningarlögum eiga að hljóta refsingu en samfélagið á líka að gera þeim kleift að bæta sig og verða að nýju gegnir þjóðfélagsþegnar. Gæti innviðaráðherrann til dæmis ekki fengið leyfi til að aka leigubifreið vegna ummæla sinna um framkvæmdastjóra Bændahallarinnar.

Þetta ákvæði er alltof strangt. Hjá farveitunni Uber gefa viðskiptavinir bílstjórum einkunn og öfugt. Þeir sem eftir koma sjá þessa einkunn. Það er mikilvægasti vitnisburðurinn um bílstjórann.

Í dag er samsvarandi ákvæði að finna í 5. gr. laga um leigubifreiðar:

Hefur ekki verið dæmdur til refsivistar eða framið alvarlegt eða ítrekað brot á lögum og reglugerðum sem um starfsgreinina gilda. Hafi brot verið smávægilegt eða langt er um liðið frá því að brot var framið getur umsækjandi þó öðlast leyfi samkvæmt lögunum.

Þetta ákvæði er mun einfaldara og minna matskennt. En þarna er ekkert meðalhóf. Það eru mörg dæmi um menn sem hafa vegna misnotkunar á ávana og fíkniefnum framið afbrot og verið dæmdir til refsivistar. Þessir menn hafa hins vegar náð bata, eignast fjölskyldur og orðið fyrirmyndarborgara. Þeim er m.a. treyst til að vinna með börnum og unglingum sem er sjálfsagt og eðlilegt. En þeir mega í dag ekki keyra leigubíl!

Leigubílstjórar eru líklega eina starfsstéttin í landinu sem ekki má stofna um rekstur sinn sérstakt félag og vera með starfsmenn. Óðinn hefur aldrei séð nokkur rök sem styðja það bann. Á hinn bóginn er einmitt skynsamlegt að það sé heimilt svo hægt sé að mæta eftirspurn eftir þjónustunni sem er afar sveiflukennd.

* * *

Hrákasmíði

Þetta frumvarp innviðaráðherra er hrákasmíði. Það er hvorki í takt við nútímann né munu þessar breytingar bæta þjónustu og val þeirra sem vilja og þurfa nýta sér þjónustu leigubíla.

Óðinn kannaði hversu gamlir yngstu geimfararnir voru þegar þeir fóru út fyrir himinhvolfið. Sá var 18 ára. En hann hefði ekki mátt aka leigubíl í Reykjavík.

Framsóknarflokkurinn hefur verið eitt mesta afturhaldsapparat í íslenskum stjórnmálum í meira en öld en við getum verið þakklát fyrir það að þeir vilja leyfa ÁTVR að hafa opið á sunnudögum.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .