*

laugardagur, 15. maí 2021
Leiðari
23. apríl 2021 11:04

Silkihanskar Samgöngustofu

Ríkisendurskoðun gerir fjölda athugasemda við eftirlit með Wow air. Viðbrögð við þeirri gagnrýni eru ekki mjög traustvekjandi.

Haraldur Guðjónsson

Nafn flugfélagsins Wow air skaut aftur upp kollinum í fjölmiðlum í síðustu viku þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar lak í fjölmiðla. Yfirskrift skýrslunnar er „Fall Wow air hf. – Aðkoma Samgöngustofu og Isavia ohf.“

Ýmislegt merkilegt kemur fram í skýrslunni. Sem dæmi þá er sagt að upplýsingar um erfiða fjárhagsstöðu Wow hafi borist í maí árið 2018. Þá aflaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið upplýsinga um framkvæmd eftirlits Samgöngustofu og að mati ráðuneytisins var eftirlitinu ábótavant. Það sem er enn verra er að nauðsynlegar breytingar á eftirlitinu höfðu ekki náð fram að ganga í ágúst. Þá sendi ráðuneytið frá sér leiðbeiningar og í byrjun september fyrirmæli til Samgöngustofu um að gera ítarlegt mat á fjárhagsstöðu Wow.

Svörin frá Samgöngustofu voru að þá þegar væri stofnunin að vinna að slíku mati þó í reynd hafi „svo ekki verið með formlegum hætti,“ eins og segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það var ekki fyrr en 21. september, tveimur vikum eftir að ráðuneytið sendi fyrirmælin, að Samgöngustofa tilkynnti flugfélaginu að eftirlit væri hafið.

„Ótækt er að stofnun veiti ráðuneyti sínu svo misvísandi upplýsingar ekki síst þegar ástandið var jafn viðkvæmt og raun bar vitni,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það sem er ekki síður merkilegt er að í skýrslunni segir að „Samgöngustofa virðist í einhverjum tilfellum hafa haft viðskiptalega hagsmuni félagsins að leiðarljósi í ákvörðunartöku fram yfir þau viðmið og sjónarmið sem gilda um eftirlit og aðhald.“ Þetta er grafalvarlegt mál.

Athygli vekur að í skýrslunni segir að upplýsingar um erfiða fjárhagsstöðu Wow hafi borist í maí árið 2018. Í raun má gagnrýna ráðuneytið fyrir að hafa ekki ýtt á eftir Samgöngustofu fyrr en fjórum mánuðum seinna, sér í lagi þegar það taldi eftirlitinu vera ábótavant.

Raunar hefðu stjórnvöld átt að bregðast við enn fyrr því haustið 2017 voru blikur á lofti. Strax í árslok þess árs fór að bera á auknum vanskilum Wow air við Isavia og jukust þau hratt á fyrri hluta ársins 2018. Í janúar 2018 birti Viðskiptablaðið frétt þar sem greint var frá því að Títan, fjárfestingafélag Skúla Mogensen, hefði breytt milljarða láni til Wow air í hlutafé. Þótti þetta fréttnæmt, þar sem félagið hafði tveimur mánuðum áður tilkynnt að fjármögnun væri tryggð út árið 2019. Skuldbreytingin samræmdist ekki tilkynningunni. Stjórnvöld vissu strax árið 2017 að eitthvað væri að enda hóf sérstök ráðherranefnd að fylgjast með gangi mála hjá Wow veturinn 2017/2018.

Fyrstu viðbrögð stjórnvalda við fréttum úr skýrslu Ríkisendurskoðunar voru sérstök. Daginn eftir að ítarlegar fréttir um málið höfðu birst bað Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um að fá að taka til máls um fundarstjórn forseta á Alþingi. Var hann ómyrkur í máli en ekki vegna inntaks skýrslunnar heldur vegna þess að henni hafði verið lekið í fjölmiðla. Umræða um skýrsluna sjálfa var síðan ekki tekin fyrr en hún hafði verið formlega birt og trúnaði af henni aflétt, sem er hjákátlegt því á þeim tímapunkti var búið að fjalla um flest öll efnisatriði skýrslunnar í fjölmiðlum.

Þegar ráðherra loks tjáði sig um skýrsluna sagði hann athugasemdir Ríkisendurskoðunar vegna aðkomu Samgöngustofu að málinu sláandi. Hann bætti því við að stofnunin hefði ráðist í breytingar og ætti nú að vera tilbúin til að sinna fjárhagslegu eftirliti flugfélaga. Hann bæri því traust til hennar í dag.

Annað merkilegt kom fram í máli ráðherra en það var að atburðarásin í kringum Wow hefði átt þátt í því að ákveðið var að auglýsa stöðu forstjóra Samgöngustofu lausa árið 2019 en þá hafði Þórólfur Árnason gegnt henni í fimm ár. Þórólfur sótti um en Jón Gunnar Jónsson, iðnaðar- og vélaverkfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Actavis, var ráðinn.

Jón Gunnar tjáði sig um skýrsluna í vikunni. Sagði hann mestu skipta að Samgöngustofa hefði staðið sig í að sinna flugöryggismálum. Erfitt er að mótmæla mikilvægi þess en gagnrýnin sneri samt aðallega að fjárhagslegu eftirliti stofnunarinnar. Varðandi þann punkt sagði Jón Gunnar að afturköllun flugrekstrarleyfis vegna fjárhagsvandræða orkaði tvímælis, sér í lagi ef félög hefðu lagt fram raunhæfa áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu. Hér má alveg velta upp spurningunni hvað teljist raunhæf áætlun og hvað ekki. Hver lagði mat á það?

Eins og greint hefur verið frá hér þá segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar að Samgöngustofa virðist í einhverjum tilfellum hafa haft viðskiptalega hagsmuni félagsins að leiðarljósi í ákvörðunartöku sinni. Þegar Jón Gunnar var spurður út í þetta svaraði hann: „Það er alls ekki.“

Þessi viðbrögð og afneitun forstjórans eru ekki traustvekjandi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.