*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Óðinn
27. október 2021 07:14

Símastrengir og sæstrengir

Það væri óskandi að umræðan um efnahagsmál á Íslandi væri á hærra plani. Þá myndi þjóðinni farnast betur, svo miklu betur.

Síminn hyggst selja Mílu sem rekur kopar- og ljósleiðarakerfi sem nær til flestra heimila og fyrirtækja á Íslandi. Væntanlegur kaupandi er sjóður í stýringu hjá franska sjóðastýringafélaginu Ardian France SA. Sumir hafa gríðarlegar áhyggjur af þessari sölu þar sem verið er að selja innviði. Óðinn deilir þessum áhyggjum ekki.

* * *

Alþýðusamband Íslands sendi frá sér ályktun fyrir viku og varaði eindregið við sölunni.

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands varar sterklega við sölu á grunnneti íslenska símakerfisins úr landi. Innviðir fjarskiptakerfisins eru dæmi um starfsemi sem í eðli sínu ber helstu einkenni náttúrulegrar einokunar þar sem mikill kostnaður við að setja upp slíkt kerfi kemur í veg fyrir samkeppni. Slík einokun getur verið mjög kostnaðarsöm fyrir almenning, fyrirtæki og opinbera aðila þar sem ákvarðanir um verðhækkanir eru teknar einhliða og neytendur eiga ekki í önnur hús að venda. Áhrifin geta oft margfaldast í tilfelli dreifðari byggða."

* * *

Í fyrsta lagi er vert að benda Alþýðusambandinu á að það er ómögulegt að selja þetta grunnnet úr landi. Það er bundið í jörðu og fer hvorki lönd né strönd.

Í öðru lagi þá hefur löggjafinn og ríkisvaldið gríðarleg völd á þessum markaði. Löggjafinn getur sett verðhækkunum miklar skorður og sett rekstrinum þung skilyrði til hagsbóta fyrir neytendur. Þetta hefur löggjafinn til dæmis gert við hitaveitur sem hafa að jafnaði einokunarstöðu á sínu svæði. Stjórnvöld hafa að auki ýmiskonar tæki til að minnka arðsemi félags sem þessa, til dæmis með álögum og sköttum - þó slíkar leiðir séu með nokkrum takmörkunum.

Óðinn hefði skilið mun betur ef fyrirtækið væri einmitt ekki eigandi svokallaðra innviða, að hægt væri að flytja starfsemina úr landi og skjólstæðingar Alþýðusambandsins myndu missa vinnuna.

* * *

Heimóttalegir alþjóðasinnar

Kostulegast er þó að hlusta á málflutning þeirra sem telja sig alþjóðasinna. Í stefnuskrá Viðreisnar fyrir nýafstaðnar kosningar segir:

Ísland á að taka þátt í alþjóðasamstarfi til að efla mannréttindi, jafnrétti, frjáls og réttlát viðskipti og stuðla þannig að friði. Með þeim hætti eflum við menningu og hag Íslands og þjóða er styðja hliðstætt gildismat. Ísland á heima í samfélagi Evrópuþjóða.

Hvert er inntakið. Er það ekki einmitt að evrópsk fyrirtæki geti komið til Íslands og tekið þátt í viðskiptalífinu? Og íslensk fyrirtæki geti farið til Evrópu og gert hið sama? Eða er þetta bara enn ein froðan sem Viðreisn býður upp á, líkt og tenging krónu við evru?

* * *

Óli með´etta

Ólafur Ragnar Grímsson kom umræðu um sæstreng aftur af stað á dögunum. Tilefnið var ráðstefnan Hringborð norðurslóða, þar sem forsetinn fyrrverandi er í forsvari. Ólafur benti á að Grænlendingar hyggist virkja fallvötnin og framleiða rafmagn. Ein leiðin til að koma raforkunni í verð væri í gegnum sæstreng, líkt og Norðmenn gera.

* * *

Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, var spurður um þetta í Ríkisútvarpinu í síðustu viku. Hann sagði flokkinn ekki hafa verið hrifinn af því að leggja rafstreng til Evrópu, því fylgi kostir og gallar, til dæmis ef sú staða kæmi upp að orku vantaði hér mögulega vegna náttúruhamfara. Þá svaraði Sigurður Ingi:

„Við hins vegar viljum fyrst og fremst tryggja að atvinnuuppbyggingin verði hér. Það sem við höfum verið að horfa á síðustu misserin og kannski svolítið inn í næstu framtíð er að við gætum farið að framleiða hér rafeldsneyti eins og vetni og þannig flutt úr orkuna. En þá með þessari auknu verðmætasköpun hér á Íslandi og mér finnst það nú vera áhugaverðari leið til að byrja með, hvað svo sem gerist í einhverri mjög fjarlægri framtíð, ég skal ekki úttala mig um það."

Í sömu frétt Ríkisútvarpsins var Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, einnig spurð um hennar afstöðu.

„Það hefur ekki verið ríkur vilji til þess á Alþingi Íslendinga að ráðast í slíka framkvæmd, að selja orku um rafstreng, en hins vegar held ég að það sé vilji til þess að við nýtum innlenda orkugjafa til þess að ráðast í orkuskipti á Íslandi."

* * *

Það verður að segjast að umræðan um náttúruauðlindir Íslands er á köflum kostuleg. Formaður Framsóknarflokksins er tilbúinn að selja orkuna úr landi í formi vetnis en ekki í gegnum sæstreng.

Helsti forystumaður í íslenskum stjórnmálum, að sögn, lítur til vilja Alþingis en hefur enga sérstaka skoðun á málinu sjálfur. Á sama tíma skiptir engu máli hversu mikill arðurinn er af orkuauðlindinni að mati þessara tveggja stjórnmálaforingja.

Rétt er að fara varlega í að ræða hugsanlegan hagnað af sölu í gegnum sæstreng, en þegar Landsvirkjun fjallaði hvað mest um lagningu sæstrengs þá var hagnaðurinn á ári talinn geta numið 50-100 milljörðum króna.

* * *

Erlend stóriðja

Ekki má gleyma því heldur að stóriðjan á Íslandi er eða hefur verið nánast öll í eigu erlendra aðila. Álver, kísilver og járnblendi. Reyndar er það svo að nánast öll fyrirtæki sem nýta íslenskar auðlindir með einhverjum ágóða eru erlend, utan hefðbundinna sjávarútvegsfyrirtækja og Bláa lónsins. Má þar sérstaklega nefna fiskeldi sem er að stærstum hluta í eigu norskra stórfyrirtækja.

Það er því engin efnisleg rök gegn lagningu sæstrengs ef sú leið skilar mestum arði.

Það eru tveir hópar manna sem eru andvígir því að kostir sæstrengs til Evrópu sé kannaður. Annars vegar stjórnmálamenn sem ekki virðast skilja mikilvægi og hagnaðarvon landsmanna og hins vegar þeir sem hafa hagsmuni af því að raforkan sé seld ódýrt til erlendra stórfyrirtækja. Það væri óskandi að umræðan um efnahagsmál á Íslandi væri á hærra plani. Þá myndi þjóðinni farnast betur, svo miklu betur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.