*

mánudagur, 13. júlí 2020
Týr
5. ágúst 2019 17:00

Singi sameinar

Standist röksemdafærslan um hagkvæmni stærðarinnar endar það með að landið verði allt gert að einu sveitarfélagi.

Sigurður Ingi Jóhannsson er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Undanfarna áratugi hefur mikið verið rætt um eflingu sveitarstjórnarstigsins og flutning á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga. Þá er jafnan talað fagurlega um að færa þjónustuna nær fólkinu og stundum meira að segja gantast eitthvað með íbúalýðræði, sem vekur auðvitað spurningar um lýðræðið sem fyrir er.

Í sömu andrá er hins vegar sagt að grundvöllur þeirrar dýrðar allrar sé að sameina sveitarfélög sem allra mest, því þessi litlu hafi enga burði til þess að taka við stórum verkefnum. Fyrir nú utan allt hagræðið af stórum sveitarfélögum. Um þetta allt fáum við meira að heyra á næstunni, en Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra er í þann veginn að hefja næsta vers í sameiningarsálmi sveitarfélaga.

                                                                                                        * * *

Fæstir telja þó að lýðræðið hafi aukist í sameinuðum sveitarfélögum. Þvert á móti benda rannsóknir til þess að fólki þyki það hafa minnkað, sér í lagi í minni byggðarlögum sem sameinast hafa stærri bæjum, og á þannig allt undir stjórnsýslu á öðrum stað.

Vissulega eru dæmi um að fámennu byggðarlögin njóti aukinnar þjónustu eftir sameiningu (enda hafa útgjöldin aukist mikið), en oftar er þó kvartað undan því að grunnþjónustan sé lakari en fyrr og taki mið af byggðakjörnunum en ekki jaðarsvæðunum.

                                                                                                        * * *

En svo er það þetta með hagkvæmni stærðarinnar. Það er nokkuð óumdeilt fyrirbæri um allan heim, nokkuð sem hver og einn þekkir af heimilisrekstrinum og nánast allt athafnalíf mannsins byggist á. Samt er það nú svo að það lögmál virðist ekki gilda í rekstri sveitarfélaga á Íslandi.

Menn þurfa ekki annað en að horfa til höfuðborgarinnar, langstærsta sveitarfélags á Íslandi, þar sem hagkvæmni stærðarinnar ætti mest að gæta, en samt er reksturinn og fjárhagurinn nú eins og hann er. Stjórnsýslan í molum og útsvarið hið hæsta leyfilega í landinu.

                                                                                                        * * *

Nema auðvitað að málið sé að Reykjavík með sín 36% landsmanna sé ekki nógu stór til þess að njóta hagkvæmni stærðarinnar. Ætli höfuðborgarsvæðið allt með 64% íbúa landsins hrökkvi til? En hvaða sjens eiga hin sveitarfélögin þá?

Af 72 sveitarfélögum landsins eru 40 sem hafa færri en 1.000 íbúa (miðgildi þeirra er 462 íbúar), en jafnvel þótt þau sameinuðust öll í eitt sveitarfélag, þá slefaði það ekki upp í 5% íbúa landsins. Standist röksemdafærslan um hagkvæmni stærðarinnar endar það sjálfsagt með að landið verði allt gert að einu sveitarfélagi með hreppsnefndina í Reykjavík.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.