Það er vel þekkt minni að stjórnmálamenn sem líta stórt á sig gefa ekki kost á viðtölum nema þeir telji að þeir geti haft góða stjórn á aðstæðum og þeim skilaboðum sem samtalinu er ætlað að koma til skila. Þetta er skilgreiningin á hugtakinu drottningarviðtal. Ríkisútvarpið bauð upp á eitt slíkt um síðustu helgi. Þá ræddi Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við Sigríði Hagalín Björnsdóttir í Silfrinu.

Í sjálfu sér er ekkert athugavert við svokölluð drottningarviðtöl. Þau geta verið ágæt ef spyrillinn er sæmilega vel undirbúinn. Ekki var það raunin í þetta sinn – sérstaklega þegar talið barst að grafalvarlegri fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Eins og flestir vita þá er fjárhagsstaða borgarinnar komin í óefni. Hún er rekin með miklum halla og getur ekki fjármagnað sig á skuldabréfamörkuðum án þess að sæta afarkjörum og einungis eru þrír milljarðar eftir á fullnýttum yfirdráttarlánum í bankakerfinu. Það hrekkur skammt fyrir borg í hallarekstri sem áætlar að þurfa að taka tugi milljarða á láni á þessu ári.
Ef einhverjir áttu von á að Sigríður Hagalín myndi ganga hart að borgarstjóranum vegna þessarar stöðu í Silfrinu urðu þeir fyrir vonbrigðum. Spyrillinn var illa undirbúinn og Dagur átti ekki erfiðleikum með að svara yfirborðskenndum spurningum um fjárhagsstöðu borgarinnar: Þetta er allt verðbólgunni og flutningi málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga að kenna.

Engar spurningar um hvers vegna verðbólgan væri að leika skuldastöðu Reykjavíkurborgar svona grátt. Verðbólgan er ein og sér ekki rót vanda Reykjavíkur. Ósjálfbær skuldasöfnun verðtryggðra skulda er það hins vegar. Þó svo að Dagur borgarstjóri fari með glysmál um uppbyggingu breytir það ekki þeirri staðreynd að skuldasöfnunin er tilkomin vegna braggamála, pálmatrjáa og kostnaðar vegna skrifstofustjóra á tveggja manna skrifstofu svo einhver dæmi séu tekin.

***

Það sem er áhugavert við fjárhagsstöðu og fjölmiðlaumfjöllun er hversu lítinn áhuga blaðamenn hafa sýnt málinu gegnum tíðina. Þess í stað hafa þeir verið gjarnir á að kokgleypa við spunaþráðum meirihlutans. Mörgum er í fersku minni framsetning meirihlutans á uppgjöri borgarinnar fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar í fyrra. Þrátt fyrir að flestir sem kunna að lesa ársreikninga sáu að staðan væri alvarleg kusu flestir fjölmiðlar að enduróma málflutning meirihlutans um að svart væri hvítt í þessum efnum. Ekki síst fjölmiðlar sem er tíðrætt um að þeir fari með eitthvað sem kallast fjórða valdið og eru alltaf í stjórnarandstöðu.

Í raun og veru hefur grafalvarleg fjárhagsstaða borgarinnar legið fyrir um árabil án þess að fjölmiðlar hafi gefið málinu sérstakan gaum. Á þessum vettvangi í október 2020 var undrast á að fjölmiðlar sýndu hispursleysi sérfræðinga á fjárhagssviði borgarinnar ekki neinn áhuga. Í minnisblaði sem fylgdi umsögn borgarinnar um lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru kemur fram að borgin hafi þá verið í raun ógjaldfær. Í minnisblaðinu segir:

„Taflan hér að ofan sýnir að rekstur borgarinnar er með neikvætt veltufé frá rekstri 2020-2022 og stendur alls ekki undir afborgunum af langtímalánum árin 2020-2023. Hér að ofan er gert ráð fyrir því að tekin verði langtíma jafngreiðslulán til að leysa vandann. Það þýðir að afborgunaþungi lánanna er að óverulega leyti kominn fram á árunum 2020-2024 og veltufé frá rekstri þarf að vaxa mjög mikið á næstu árum á eftir til að sveitarfélagið eigi möguleika á að standa undir þeim byrðum. Það gerist ekki nema með verulegri aukningu tekna eða stórfelldum niðurskurði. Þetta er megin rökin fyrir því að ríkissjóður komi með beinum hætti að fjármögnuninni með sérstökum óendurkræfum framlögum til að mæta þessum vanda.“

Veltufé frá rekstri var neikvætt á síðustu mánuðum ársins 2022 og ekki verður séð að breytingar hafi verið orðið á fyrstu mánuðum þessa árs. Með öðrum orðum er borgin að brenna peningum og á sama tíma er hver hurðin af öðrum að lokast á frekari skuldasöfnun. Borgarstjóri kemst upp með það að mæta í viðtöl og bæta á bölið með að benda á eitthvað annað. Hann er aldrei spurður út í það grundvallaratriði að önnur sveitarfélög sem hafa safnað skuldum eru þó með jákvætt veltufé frá rekstri og hafa því svigrúm til að mæta skuldbindingum sínum.
***

Fjárhagsstaða borgarinnar er með öllu ósjálfbær og segja má að fjölmiðlar hafi í flesta staði fallið á prófinu þegar kemur að því að upplýsa almenning um þennan vanda sem hefur fengið að vaxa óáreittur í fjölda ára. Þeir hafa fallið í þá gryfju að gleypa við spuna meirihlutans sem hefur meðal annars falist í því að menga rekstrartölur A-hlutans með bókhaldsbrellum í B-hlutanum samanber virðisbreytingar á eignum Félagsbústaða.
Þannig sögðu fjölmiðlar ekki frá tillögu borgarstjóra í borgarráði sem lögð var fram 6. desember í fyrra sem laut að því hreinlega að skoða ætti hvernig væri hægt að fiffa bókhaldið til að fjárhagsstaðan liti betur út. Í tillögunni segir:

„Lagt er til að fjármagnsskipan B-hluta fyrirtækja í samstæðu Reykjavíkurborgar verði rýnd með tilliti til skilvirkrar og arðsamrar fjárbindingar borgarsjóðs (A-hluta) sem eiganda í fyrirtækjum í B-hluta og þeirrar áhættu sem borgarsjóður stendur frammi fyrir sem ábyrgðaraðili á lánum og eftir atvikum rekstri fyrirtækja í B-hluta.“

Og enn fremur:

„Rýning á fjármagnsskipan taki mið af niðurstöðum skýrslu starfshópsins. Verkefnið verði skoðað í ljósi aðstæðna í ytra efnahagsumhverfi borgarinnar, stöðu A-hluta í rekstri eigendasveitarfélaga og eftir atvikum getu B-hluta fyrirtækjanna til styðja með tímabundnum hætti við rekstur þeirra með arðgreiðslum.“

Jafnvel þeir sem skrópuðu í fyrsta tíma í reikningsskilum í viðskiptafræðinni í Háskóla Íslands vita hvað þessi setning þýðir. Þarna segir berum orðum að borgin standi illa og að fyrirtæki í eigu hennar þurfi að bakka hana upp með „tímabundnum hætti“. Borgarfulltrúar sáu nákvæmlega í hvað stefndi í desember þegar þessi tillaga var lögð fram.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.