*

laugardagur, 12. júní 2021
Huginn og muninn
9. maí 2021 08:22

Sjaldséð gagnrýni

Stjórnarandstaðan mætti á færibandi til að gagnrýna ráðherra og taldi Jón ekki annað hægt en að taka undir.

Jón Gunnarsson tók undir gagnrýni stjórnarandstöðunnar á Svandísi Svavarsdóttur.
Haraldur Guðjónsson

Hröfnunum þykja það vanalega tíðindi þegar stjórnarþingmenn gagnrýna ráðherra fyrir störf sín enda slíkt óalgengt. Dæmi um slíka gagnrýni mátti greina í orðum Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þegar þingmenn tókust á um fundarstjórn forseta þingsins.

Fyrir níu vikum kölluðu þingmenn eftir því að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra myndi skila skýrslu um leghálsskimunarklúðrið. Samkvæmt þingsköpum hefur hún til þess tíu vikur en í gær var upplýst að vinnan væri vart hafin. Stjórnarandstaðan mætti á færibandi til að gagnrýna ráðherrann og taldi Jón „ekki annað hægt en að taka undir þá hörðu gagnrýni“. Málið bættist í raun við „langt syndaregister ráðherrans þegar kemur að stjórn í heilbrigðiskerfinu“. Fyrir væri þar kergja í garð einkareksturs, sem birtist til dæmis í að ekki væri samið um liðskiptaaðgerðir við einkastofur og að ekki fengist að starfrækja einkarekna heilsugæslu á Suðurnesjum. Hrafnarnir vilja taka undir orð Jóns og bæta í talninguna reglugerðardrögum sem ætlað er að veita sjálfstætt starfandi læknum náðarhögg.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.