*

föstudagur, 29. maí 2020
Óli Freyr Kristjánsson
29. júlí 2019 10:01

Sjálfbærar og ábyrgar fjárfestingar

Fjárfestar leggja í auknum mæli áherslu á ófjárhagslegar upplýsingar samhliða hefðbundnum fjárhagslegum greiningum.

Haraldur Guðjónsson

Allt frá upphafi iðnbyltingarinnar, sem leiddi til betra aðgengis að ódýrari vörum og bættra lífsgæða almennings, hafa óæskileg hliðaráhrif hennar á samfélagið gert vart við sig. Að baki göfugum markmiðum um að hámarka þætti á borð við framleiðni og afköst hefur birtingarmynd þessara meðal annars gætt í neikvæðum áhrifum af völdum gróðurhúsalofttegunda, brotum á vinnuréttindum og óæskilegum stjórnarháttum í starfsemi fyrirtækja.

Opinberir aðilar hafa í auknum mæli beitt sér með laga- og reglugerðarbreytingum til að sporna við þessari óæskilegu þróun og í því sambandi sett starfsemi fyrirtækja þrengri skorður og skilyrði. Samhliða hefur vitund almennings á neikvæðum ytri áhrifum af starfsemi fyrirtækja aukist og breytt samfélagslegt viðhorf leitt til þess að neytendum er umhugaðra en áður með hvaða hætti þær vörur eða þjónusta sem þeir nýta sér verða til. Ennfremur færist það í vöxt að fjárfestar geri auknar kröfur um að fjárfestingar uppfylli viðmið um samfélags ábyrgð auk hefðbundinna fjárhagslegra krafna við mat á fjárfestingum.

Sjálfbærir viðskiptahættir og langtímahagsmunir fjárfesta

Fjárfestar leggja í auknum mæli áherslu á ófjárhagslegar upplýsingar samhliða hefðbundnum fjárhagslegum greiningum. Hvati fjárfesta þar að baki er hvort tveggja í senn að bæta áhættuleiðrétta ávöxtun sína og ná fram jákvæðum samfélagslegum áhrifum. Ábyrgar fjárfestingar eru samheiti yfir þessar breyttu áherslur og aðferðir þeirra ná yfir fjölmargar ólíkar aðferðir, allt frá útilokun fjárfestingarkosta til virks eignarhalds.

Ein útbreiddasta aðferð í útfærslu ábyrgra fjárfestinga er samþætting á umhverfis-, félags- og stjórnarháttum, UFS (e. ESG), í fjárfestingarferli. Aðferðafræðin gengur út á að greina kjarnastarfsemi og viðskiptalíkan fyrirtækja út frá þremur meginflokkum UFS. Við mat á fjárfestingarkostum er tekið tillit til atriða sem hafa áhrif á kjarnastarfsemi fyrirtækja og þannig frammistöðu þeirra til lengri tíma. Fyrirtæki í starfsemi sem eru viðkvæm fyrir áhrifum af lagabreytingum á sviði loftlagsmála, hvernig fyrirtæki í mannaflsfrekri starfsemi býr að starfsfólki sínu og hvort stjórnskipan fyrirtækis sé þannig háttað að sjálfstæði stjórnar sé tryggt, eftirlitshlutverki hennar ekki ógnað og réttindi hluthafa gætt eru dæmi um atriði sem falla innan ábyrgra fjárfestinga.

Upplýsingagjöf fyrirtækja er undirstöðuþáttur og víðtækari kröfur um aukið gegnsæi í starfsemi þeirra setur aukinn þrýsting á þau að greina frá þeim samfélagslegu áhrifum sem starfsemi þeirra hefur og með hvaða hætti þau sporna gegn þeim. Starfsemi fyrirtækja sem ekki aðlagast kann að vera ógnað á meðan fyrirtæki sem huga vel að samfélagsábyrgð geta aukið traust meðal haghafa, allt frá viðskiptavinum til fjárfesta.

Viðeigandi fjárhagslegar- og ófjárhagslegar upplýsingar

Í endurskoðun, við gerð reikningsskila sem og annarri fjárhagslegri upplýsingargjöf fyrirtækja er hugtakið um mikilvægi (e. Materiality) vel þekkt og gegnir lykilhlutverki þegar kemur að því að leggja mat á hvaða upplýsingar teljast viðeigandi. Til þess að upplýsingarnar teljist viðeigandi og gagnlegar þannig að hægt sé að byggja skynsamlegar ákvarðanir á þeim þurfa þær að vera settar fram með áreiðanlegum og aðgengilegum hætti þar sem forðast ber sjónarmið um að magn upplýsinga sé ætíð eftirsóknarverðara en gæði.

Mat á mikilvægi og hvaða upplýsingar teljast viðeigandi á ekki síður við um ófjárhagslegar upplýsingar fyrirtækja en fjárhagslegar. Efnisatriði UFS sem teljast mikilvæg og viðeigandi eru breytileg eftir atvinnugreinum og starfsemi fyrirtækja. Því er mikilvægt að fyrirtæki leitist við að svara spurningunni „Hvaða lykilþætti í starfsemi fyrirtækisins er snúa að kjarnastarfsemi er mikilvægt að hafa stjórn á?“. Nái fyrirtæki að svara þeirri spurningu getur það ekki aðeins leitt til bættrar ófjárhagslegrar upplýsingagjafar heldur einnig gert þau betur í stakk búin til að takast á við framtíðaráskoranir í málefnum tengdum UFS. Í sumum tilfellum freistast fyrirtæki til að nálgast upplýsingagjöf sína sem reglufylgni við kröfur eftirlitsaðila en hætta er á að upplýsingagjöfin verði í slíkum tilfellum aðeins æfing í að haka í fyrirframskilgreind box.

Virkt samtal fjárfesta og fyrirtækja

Virkt samtal fjárfesta og fyrirtækja um málefni UFS snýst ekki um að þröngva ákveðnum siðvenjum eða gildum upp á fyrirtæki eða fjárfesta, heldur það að skilgreina viðeigandi upplýsingar sem geta dregið úr áhættu eða stuðlað að betri frammistöðu til lengri tíma litið. Þannig fá fjárfestar tilfinningu fyrir því að hvaða marki samfélagsábyrgð er innleidd í starfsemi fyrirtækja og með sama hætti öðlast fyrirtækin skilning á því hvernig fjárfestar nálgast ábyrgar fjárfestingar.

Reynsla okkar af því að stofna til virks samtals við íslensk skráð félög og ganga þannig lengra en að safna saman ófjárhagslegum upplýsingum í ársreikningum, hefur gert okkur kleift að kafa dýpra í ófjárhagslega upplýsingagjöf skráðra fyrirtækja. Það hefur gefið okkur aukið innsæi og tilfinningu fyrir mikilvægi í starfsemi fyrirtækjanna og gert okkur kleift að þróa innleiðingu okkar á aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga áfram sem notadrjúgt verkfæri sem auðgar enn frekar fjárfestingarferlið en er ekki einungis leið til að haka í boxin.

Höfundur er sérfræðingur í eignastýringu fagfjárfesta hjá Arion banka.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.