*

föstudagur, 14. maí 2021
Marta Hermannsdóttir
11. apríl 2021 13:23

Sjálfbærni: Ekki bara fyrir þau stóru

Það er löng vegferð framundan ef við ætlum að tryggja sjálfbærari framtíð, og við vitum ekki enn hvaða nýju vandamál kunna að verða á vegi okkar.

epa

Umhverfisþættir, félagsþættir og stjórnarhættir (UFS) eru æ mikilvægari þáttur í rekstri og vexti fyrirtækja og það er mikið fagnaðarefni að sjá sífellt fleiri íslensk fyrirtæki veita þessum málaflokki verðskuldaða athygli. Eðli málsins samkvæmt eru það aðallega stærri fyrirtækin sem geta gefið út skýrslur eða verið með deildir tileinkaðar sjálfbærni, en það er mikið og verðmætt starf sem minni fyrirtæki geta unnið á því sviði án þess að það krefjist mikilla fjármuna eða sérhæfðra stöðugilda.

Hvað er sjálfbærni og UFS?

Sameinuðu Þjóðirnar skilgreina sjálfbæra þróun sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að skerða getu komandi kynslóða á að mæta sínum þörfum. UFS er ramminn sem fyrirtæki og fjárfestar nota til þess að skapa sér stefnu um og mæla sjálfbæra þróun.

Hver er ávinningurinn?

Neytendur, fjárfestar, eftirlitsaðilar og starfsfólk gerir í síauknu mæli þá kröfu að fyrirtæki sýni ábyrgð og leggi sig fram við að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og nærsamfélag. Ávinningurinn af því að setja sjálfbærnimarkmið og innleiða UFS vinnu í starfsemina er margvíslegur:

  • Áhættustýring: Að meta starfsemi og rekstrarumhverfi fyrirtækis út frá UFS gerir það betur í stakk búið til að greina mögulega áhættuþætti og bregðast við óvæntum aðstæðum. Rannsóknir sýna að fyrirtæki með góða UFS stjórnun stóðu sig betur en jafningjar árið 2020 þegar COVID-19 skall á
  • Samkeppnisforskot: UFS greining gerir fyrirtækjum kleift að skapa sér samkeppnisforskot og koma auga á ný tækifæri og vaxandi markaði
  • Starfsfólk og viðskiptavinir: Sífellt fleiri rannsóknir sýna að fólk vill starfa hjá fyrirtækjum sem íhuga sjálfbærni og láta gott af sér leiða. Þetta skiptir viðskiptavini einnig auknu máli. Nýleg könnun sýnir að 70% neytenda eru tilbúnir að borga meira fyrir vöru eða þjónustu ef hún er sjálfbær
  • Fjármagn: Markviss vinna á sviði sjálfbærni og UFS opnar dyr að auknu fjármagni, og oft er fjármagn eyrnamerkt sjálfbærum fyrirtækjum á betri kjörum
  • Hagstæðari rekstur: Stefnumótun og stjórnun á UFS getur leitt til aukinnar skilvirkni í starfsemi og dregið úr rekstrarkostnaði

Hvar skal byrja?

Við fyrstu sýn getur virst sem svo að ráðast þurfi í róttæka umbyltingu á starfsemi og ferlum fyrirtækisins, en þetta þarf ekki að vera svo flókið.

Gott fyrsta skref er greining á hvaða UFS þættir skipta mestu máli fyrir fyrirtækið; hvar liggja stærstu áhætturnar og tækifærin. Þetta er breytilegt eftir starfsemi, stærð og staðsetningu fyrirtækja. Það er ekki ráðlegt að byrja að vinna eftir almennum UFS listum eða sjálfbærni-vottunum, þar sem slíkt er oftast búið til með stór alþjóðleg fyrirtæki í huga, og einblína frekar á þau atriði sem munu hafa mest áhrif í þinni starfsemi. Eftir slíka greiningu getur fyrirtækið sett sér markmið um að bæta UFS þætti sem lögð verður áhersla á og búið til vinnuáætlun. Mikilvægt er að tryggja að markmiðin séu raunhæf, afmörkuð, mælanleg og hafi skýran tímaramma.

Gagnsæi er lykilatriði í slíkri vinnu og því mikilvægt að öll markmið, vinna og árangur séu skráð. Að eiga skjalfesta sögu um framfarir á sviði UFS er auk þess gott tækifæri til að sýna væntanlegum fjárfestum eða viðskiptavinum fram á góða stjórnarhætti og áreiðanleika fyrirtækisins.

Næsta skref getur verið að finna sérhæfða vottun eða merkingu fyrir starfsemina, eða aðildarsamtök sem skuldbinda meðlimi að ákveðnum sjálfbærnimarkmiðum. Að sækja um slíkt getur verið dýrt og misjafnt hvenær fyrirtæki eru í stakk búin til að ganga frá því. Skilyrðin fyrir vottuninni, merkingunni eða aðildinni eru oftast aðgengileg fyrir almenning og því hægt að hefja undirbúningsvinnu og tryggja að starfsemin sé aðlöguð sjálfbærnimarkmiðunum án þess að leggja í kostnaðarsamt ferli strax.

Hvers vegna að byrja strax?

Að mörgu leyti er betra fyrir fyrirtæki að ná góðum tökum á UFS og gera sjálfbærni hluta af kjarna og menningu fyrirtækisins áður en þau vaxa mikið og skala upp starfsemina.

  • Sveigjanleikinn er meiri og ferli við ákvarðanatöku styttra, svo breytingar gerast hraðar 
  • Þróunarvinnu eða nýsköpun á fyrstu árum fyrirtækis sem aðlagar það að breyttri framtíð, t.d. vegna loftlagsbreytinga eða lýðfræðilegra breytinga, leiðir til samkeppnisforskots seinna meir 
  • Færra starfsfólk þýðir að fólk deilir frekar ábyrgð og vinnur saman að verkefnum sem snerta ólíkar hliðar fyrirtækisins. Þetta gerir það að verkum að sjálfbærni verður hluti af DNA fyrirtækis, í stað þess að vera á ábyrgð sérhæfðrar deildar 
  • Smærri fyrirtæki eru í nánari tengslum við viðskiptavini, birgja og nærsamfélagið, svo það getur verið auðveldara að skilja áhrif starfseminnar á víðari hóp hagaðila. Vilji til að leggja sig fram við að gera betur skilar sér auk þess í enn betri ímynd og samskiptum
  • Litlar breytingar sem auka sjálfbærni geta haft hlutfallslega mikinn efnahagslegan ávinning á meðan fyrirtæki eru enn lítil

Fyrsta skrefið er mikilvægast

Það er löng vegferð framundan ef við ætlum að tryggja sjálfbærari framtíð, og við vitum ekki enn hvaða nýju vandamál kunna að verða á vegi okkar. Það sem skiptir máli er að hefja vegferðina; taka ábyrgð á eigin aðgerðum og innleiða sjálfbærni í starfsemi og stjórnun allra fyrirtækja.

Höfundur er sérfræðingur í áhættustýringu og UFS hjá Eyrir Venture Management. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.