Hvernig lífsstíl vil ég lifa? Hvernig speglast sá lífsstíll í kauphegðun? Hvað þarf ég til þess að næra líkama og sál? Spurningar sem þessar brenna á mörgum. Niðurstöður mælinga á kauphegðun, til að mynda með mælingu á kortanotkun og stóraukinni netsölu, eru skýrar. Neytendur vilja aukin gæði og sjálfbærni í vörum og þjónustu, frá framleiðslu til afhendingar.

Tækifæri til vaxtar

Marel samanstendur í dag af 7.000 frumkvöðlum sem hafa ástríðu fyrir því að umbylta matvælavinnslu í samstarfi við viðskiptavini. Sýn okkar er að matvæli eigi að vera örugg, hagkvæm í innkaupum og framleidd á sjálfbæran máta. Við sinnum matvælaframleiðendum í fisk-, kjöt- og kjúklingavinnslu sem framleiða vörur fyrir verslanir, veitingastaði og í síauknum mæli fyrir netverslun og heimsendingar, með hátæknilausnum og þjónustu sem ná yfir öll vinnslustig frá býli til verslana í borgum, úr hafi og heim á matarborðið.

Við erum nýsköpunarfyrirtæki sem vex með viðskiptavinum og gefur starfsfólki tækifæri til að takast á við nýjar áskoranir og vaxa með félaginu. Við leggjum ríka áherslu á fjölbreytileika með því að spegla samfélögin sem við störfum í.

Ákall um nýsköpun og sjálfbærni í matvælaiðnaði

Í samtölum okkar við viðskiptavini er ljóst að þeir standa frammi fyrir áskorunum og tækifærum sem knýja aukna eftirspurn eftir vörum, hugbúnaði og þjónustu til matvælavinnslu.

Samfara minni hreyfanleika vinnuafls milli landssvæða og ákalli um góð starfsskilyrði er skortur á hæfu starfsfólki til matvælavinnslu. Þar að auki hefur launaskrið og veltuhraði á starfsfólki verið mikill síðustu tvö ár.

Neytendur flakka mun örar á milli dreifileiða en áður. Við förum í hverfaverslun, stórmarkaði eða verslum á netinu. Ekki er alltaf vilji eða tími til að elda frá grunni og hafa heimsendingar og netverslun aukist verulega þar sem ströng krafa er um stöðug gæði, stærð og lögun, öryggi og rekjanleika. Þessi þróun á sér stað á ógnarhraða í Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku samhliða umpólun í Kína, þar sem opnir útimarkaðir með matvæli víkja fyrir nútímanlegri verslunarháttum.

Þriðja áskorunin er krafan um sjálfbærni sem eykst til muna rétt eins og í öllum geirum atvinnulífsins. Yngri kaupendur setja nú til jafns hollustu, sjálfbærni og verð en fyrir Covid-19 var verð afgerandi þáttur í kauphegðun.

Sjálfvirkar og stafrænar lausnir munu skera úr um framtíð framleiðenda

Mitt í þessum miklu straumhvörfum slær hjarta Marel. Einstakir styrkleikar eru mannauðurinn, nálægð við viðskiptavini í yfir 140 löndum og áræðni til þess að fleygja fram í nýsköpun og framúrskarandi þjónustu. Með stolti lít ég til baka á síðustu tvö ár þar sem samheldni starfsmanna, ástríða og metnaður til að halda virðiskeðju matvæla gangandi stendur upp úr. Á örskotsstund fluttum við útstöðvar til heimila yfir helmings okkar 7.000 starfsmanna og framlínan stóð í stafni í þjónustu við viðskiptavini. Með alþjóðlegu sölu- og þjónustuneti okkar, og innkaupa- og framleiðsluneti höfum við aukið nýsölu, gefið í í vöruþróun og tekist að setja upp nýjar verksmiðjur viðskiptavina svo hollur og næringarríkur matur framleiddur á sjálfbæran máta sé á boðstólum eftir hinum ýmsu dreifileiðum.

Sjálfvirknivæðing þvert á öll stig matvælavinnslu er lykillinn að sveigjanlegri og samfelldri framleiðslu. Stafrænar lausnir munu einnig skera úr um framtíðarhæfni margra framleiðenda. Þær gera matvælaframleiðendum kleift að tengja framleiðslulausnir saman og fá rauntíma innsýn í lykilþætti vinnslunnar. Þannig geta framleiðendur tryggt rekjanleika, gæði og öryggi matvæla en einnig unnið staðfast að sjálfbærnimarkmiðum um hámarks nýtingu og lágmarks notkun á orku, vatni og losun kolefnis. Bætt nýting aðfanga til að skapa verðmæta afurð er lykillinn að virðissköpun í hag allra. Sjálf lifum við í samræmi við þessa nálgun og höfum sett okkur markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Kraftur í þágu sjálfbærs samfélags

Samfara heimsfaraldri hafa orðið búsifjar. Þrátt fyrir að velsæld hafi að meðaltali aukist á heimsvísu er það svo að fátækt hefur einnig aukist. Sumir hafa einfaldlega ekki kost á því að móta sinn lífsstíl né hafa aðgang að nægum, öruggum eða hollum matvælum. Því er ákall um að við öll, einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir, stígum inn og leiðréttum þann ójöfnuð.

Þar lætur Marel sitt ekki eftir liggja. Við leggjum krafta okkar á vogarskálarnar í þágu fólks og umhverfis. Í samstarfi við Rauða krossinn höfum við stutt samfélög í Malaví og Suður-Súdan árið 2020 og í Brasilíu í ár. Á Íslandi og í nærumhverfi annarra starfstöðva styrkjum við árlega menntun og vísindi.

Sjálfbærni er eina leiðin til að mæta vaxandi eftirspurn eftir matvælum fyrir ört stækkandi heimsbyggð í sátt við umhverfið. Árlega fjárfestir Marel 6% tekna í nýsköpun og með hugviti og samvinnu tryggjum við sjálfbærni þvert á virðiskeðjuna, frá bónda til neytenda.

Höfundur er forstjóri Marel.