Ef litið er yfir sögu sósíalismans má í grunninn greina sömu formúluna ítrekað þótt í ólíkum umbúðum sé. Niðurstaðan hefur líka alltaf verið á sömu leið: eintómar hörmungar sem bitna verst á þeim sem síst skyldi. Sósíalistar hafa lengi nýtt sér hræðsluáróður í tilraunum sínum til að ná völdum og hefur það ekki síst verið áberandi á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Barátta sósíalistanna snýst alls ekki um að vernda jörðina, heldur um pólitísk og efnahagsleg völd – og uppskeran hefur verið ríkuleg undanfarið.

Ef einhver vogar sér að setja spurningarmerki við þær aðferðir sem sósíalistar vilja beita til að bjarga jörðinni, þá er viðkomandi að sjálfsögðu umsvifalaust sagður „afneita vísindunum“. Þetta er endurtekið efni en alltaf jafn galið. Vísindaleg niðurstaða getur aldrei orðið áreiðanlegri en forsendurnar sem hún hvílir á – og því er mikilvægt að spyrja gagnrýninna spurninga. Efasemdir efla vísindin.

***

Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með kapítalinu beygja sig undir áróður vinstrisins og dansa í takt við stefnu þeirra að lakari lífsgæðum. Gríðarlegir fjármunir flæða í nafni sjálfbærni án þess að hafa áhrif á umhverfið. Skattar og gjöld sem innheimt eru í nafni sjálfbærni flæða allt annað. Ótrúlegt magn af fjármagni fyrirtækja fer í að tikka í einhver gagnslaus ESG box með skriffinnsku (frekar en raunverulegum aðgerðum) og svo markaðssetningu á dygðinni, enda er fjármögnun fyrirtækja orðin háð því að dygðin sé auglýst sem mest.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 21. júlí 2022.