*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Huginn og muninn
22. september 2019 10:04

Sjálfsmyndir í Ráðhúsinu

Hrafnarnir komust að því að gott og vont í sjálfsmyndapólitík hefur eitthvað með staðsetningu og viðurkenningu að gera.

Haraldur Jónasson

Hrafnarnir fatta ekki sjálfsmyndastjórnmál en slík pólitík er í mikilli sókn og vildu þeir því fræðast um efnið. Var þeim bent á Ráðhús Reykjavíkur en þar kvu sjálfsmyndir vera fyrirferðarmiklar í umræðunni. Voru þeir því mættir á síðasta fundi borgarráðs og ekki leið á löngu þar til glitta mátti í fyrirbærið. Var þar kominn í pontu áheyrnarfulltrúi Miðflokksins, Vigdís Hauksdóttir, og leist henni ekki á áform Samband íslenskra sveitarfélaga um að uppfæra ætti hegðunarreglur fyrir kjörna fulltrúa. „Nú stendur til að fjötra málfrelsi kjörinna fulltrúa bæði með siðareglum og hegðunarreglum góða fólksins,“ var fulltrúanum m.a. að orði. Góða fólkið í meirihlutanum lét þetta ekki ótalið og svaraði: „Ekki kemur á óvart að fulltrúi Miðflokksins sé ekki hlynntur slíku [stuðla að öryggi kjörinna fulltrúa] ef horft er til framgöngu sumra fulltrúa þess flokks undanfarið og Klausturmálið.“ 

Hrafnar voru litlu nær og spurðu sig: Hvað er gott fólk og hvað vont? Fljótlega komust þeir að því að gott og vont hefur eitthvað með staðsetningu og viðurkenningu að gera. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, Kolbrún Baldursdóttir, mætti í pontu og var ekki sáttur með fegurðarviðurkenningar borgarinnar. „Enn virðist ekki hægt að veita fegrunarviðurkenningu húsum utan ákveðins miðsvæðishrings. Hvað með hverfi eins og Skerjafjörð, Breiðholtið, Árbæ og Grafarvog,“ spurði fulltrúinn. Góða fólkið i miðbænum fannst þetta hins vegar ekki skrýtið þar sem sérstaða húsa í miðborg er mikil vegna aldurs. Hröfnunum féllust vængir og létu sig hverfa, sannfærðir um að sumt væri ekki þess virði að læra.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.