*

föstudagur, 28. janúar 2022
Óðinn
10. febrúar 2021 07:03

Sjálfstæðisflokkurinn: Vandinn og lausnin

Óðinn hvetur forystuna til að vera óhrædda að tala fyrir stefnu flokksins, hugmyndafræðinni um trúna á manninn - ekki kerfin.

Óðinn hefur almennt ekki miklar skoðanir á innra starfi stjórnmálaflokka á Íslandi heldur miklu frekar á ákvörðunum þeirra og sjónarmiðum ef þeir ná völdum í ríkisstjórn og á Alþingi sem hafa áhrif á líf borgaranna og viðskiptalífsins.

                                                            ***

Það er hins vegar svo að Sjálfstæðisflokkurinn er ólíkur öllum öðrum flokkum sem hingað til hafa boðið fram til Alþingis. Þar hafa að jafnaði valist fólk í forystusveit sem hefur skilning á mikilvægi þess að viðskiptalífið dafni sem best og það sé uppspretta að hagsæld í landinu.

                                                            ***

Í síðustu viku skrifaði Friðjón R. Friðjónsson, framkvæmdastjóri almannatenglaf yrirtækisins KOM, grein í Morgunblaðið þar sem hann gagnrýndi forystumenn flokksins, líklega með eins yfirveguðum hætti og hugsast getur.

                                                            ***

Lóan er ekki vorboði

Óðinn telur að þessi grein hefði mátt koma mun fyrr því baráttan gegn sósíalismanum gengur ekki vel þessa dagana, svo ekki sé meira sagt, og miklar líkur á því að vinstristjórn taki hér við völdum í haust. Auðvitað með stuðningi Viðreisnar sem er hinn nýi Framsóknarflokkur með hentistefnuna og popúlisma að vopni.

                                                            ***

Það sést best á verkum flokksins í borgarstjórn þar sem Lóan boðar ekki vorið heldur gjaldþrot Reykjavíkurborgar þegar vextir hækka á ný og borgin ræður alls ekki lengur við ofur-skuldirnar. Þær skuldir urðu aðallega til í tíð R-listans en hafa líklega aldrei vaxið jafn hratt og á síðustu árum - í einu mesta góðæri íslenskrar efnahagssögu.

                                                            ***

Skíttap Helga

Það hlýtur að vera öllum alvöru hægrimönnum huggun harmi gegn að Helgi Magnússon er búinn að sturta ekki minna en einum milljarði króna í Fréttablaðið til þess að styðja við gjaldþrot Reykjavíkurborgar í gegnum þann hugsjónalausa krataflokk sem Viðreisn sannarlega er, sem hefur það eitt markmið að ganga í Evrópusambandið. Það samband sem er næstum enn misheppnaðra en Sambandið var og ekki síður Kreml undir lok Sovéttímans - eftir bóluefnaklúðrið.

                                                            ***

En aftur að grein Friðjóns. Það kom nokkuð á óvart að þeir sem bregðast verst við greininni eru þeir sem hafa staðið sig langbest af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þeirra á meðal er Brynjar Níelsson og verður Óðinn að viðurkenna að ef hans, Óla Björns Kárasonar, Sigríðar Andersen og ef til vill örfárra annarra í þingflokknum nyti ekki við væri raunveruleg ástæða að biðja Guð að hjálpa okkur Íslendingum.

                                                            ***

Úti á túni

Óðinn átti frekar von á því að einhver annar þingmaður hefði tekið þetta til sín. Þeir eru ef til vill uppteknir við annað. Til dæmis við að halda fundi um hvort heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eigi erindi við atvinnulífið - en svarið er nei - eða flytja frumvarp um að hið opinbera ákveði hvers kyns stjórnarmenn í einkafyrirtækjum svo eitthvað sé nefnt. Hvernig er hægt að vera lengra úti á túni - án þess að starfa við bústörf?

                                                            ***

Þegar stjórnmálaflokkur er gagnrýndur þá auðvitað beinast spjótin að forystu flokksins þó einnig megi kenna skipulagi hans um, sem var breytt verulega eftir hrun í geðshræringu og af mikilli vanþekkingu.

                                                            ***

Sumir segja að Bjarni Benediktsson sé ónæmur fyrir árásum frá andstæðingum og erfiðum málum. Óðinn er ekki viss um það en slíkar árásir eru líklegar til að draga máttinn úr jafnvel öflugustu mönnum.

                                                            ***

Fylgistapið

Fylgistap Sjálfstæðisflokksins er hins vegar ekki vegna þess. Það er vegna þess að fólki finnst hann ekki standa í lappirnar í nokkru máli og vera of svifaseinn. Hann virkar því bæði gamall og gamaldags.

                                                            ***

Sumir vilja skella fylgistapinu á hrunið en það er í besta falli misminni. Í maí 2012 mældist fylgi flokksins hjá Gallup 39,3%. Frá ársbyrjun 2013 fram í miðjan apríl 2013 féll fylgið hins vegar úr 35,5% niður í 22,2%.

                                                            ***

Af einhverjum óskiljanlegri ástæðu ákvað formaður flokksins að styðja Icesave-samninginn hinn þriðja. Þegar dómur EFTA-dómstólsins féll í janúar 2013 misstu kjósendur trúna á flokknum. Fylgið mældist lægst 22,2% en hækkaði nokkuð og reyndist vera 26,7% í kosningunum sem fóru fram í lok apríl.

                                                            ***

Það sem Bjarni hefur hins vegar gert ítrekað er að minna Sjálfstæðismenn á sínu stærstu mistök, að þiggja vondra manna ráð í Icesave-málinu. Óðinn fjallaði um þetta í Áramótum í desember 2018 og er full ástæða til að rifja það upp.

                                                            ***

Icesave og Sjálfstæðisflokkur

Margir reyndu að hafa áhrif á Bjarna Benediktsson dagana og helgina áður en hann tók ákvörðun um hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætti að samþykkja síðasta Icesave-samninginn eða ekki. Fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna, alþingismaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson, var eindreginn andstæðingur þess að samþykkja samninginn.

                                                            ***

Birgir Ármannsson, sem var og er áhrifamaður innan þingflokksins, var einnig á móti rétt eins og Pétur Blöndal. Margir utan þingflokksins höfðu áhyggjur að Bjarni myndi samþykkja samninginn en þeir voru Björn Bjarnason, náfrændi Bjarna, og Davíð Oddsson. Hann, ásamt Haraldi Johannessen, breytti stefnu blaðsins í Icesave og var það mjög andsnúið kröfum Breta og Hollendinga. Morgunblaðið og Viðskiptablaðið voru einu íslensku fjölmiðlarnir sem voru andvígir Icesave-samningnum en fengu óvænta hjálp að utan, sérstaklega frá Financial Times í Bretlandi.

                                                            ***

Slök dómgreind

Einum manni helst hefur verið eignað að hafa sannfært Bjarna Benediktsson um þessa röngu og afdrifaríku ákvörðun. Sá maður heitir Lárus Blöndal. Fleiri stukku á þann vagn. Fyrrverandi formennirnir Þorsteinn Pálsson og Geir Haarde eru þeirra á meðal en sá síðarnefndi var verðlaunaður með sendiherratign í Washington.

                                                            ***

Það er einkennilegt og ekki líklegt til árangurs að minna reglulega á þá sem voru staðfastir gegn löglausum kröfum Breta og Hollendinga, og höfðu rétt fyrir sér um afleiðingar þess ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi styðja Icesave, að tefla fram mönnum með svo slaka dómgreind fyrir hönd flokksins.

                                                            ***

Afdrifarík könnun

Stuttu fyrir kosningarnar í lok apríl 2013 birti Viðskiptablaðið könnun sem vakti mikla óánægju formanns Sjálfstæðisflokksins og fylgismanna hans - og er það skiljanlegt. Þar var kannaður hugur kjósenda til Bjarna Benediktssonar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Þetta var aðeins 16 dögum fyrir kosningar. Ritstjóri blaðsins gerði það sem vantar einmitt í Sjálfstæðisflokkinn í dag, hann sýndi þor og dug. Gleymum því ekki að daginn áður en könnunin var birt, þann 10. apríl 2013, þá birti Morgunblaðið skoðanakönnun gerða af Félagsvísindastofnun sem sýndi fylgi flokksins vera 18,9%.

                                                            ***

Afleiðingar af könnuninni gátu bara orðið þrjár. Formaðurinn myndi hætta og fylgið aukast, formaðurinn myndi halda áfram og ekkert aðhafast eða formaðurinn myndi sýna sitt rétta andlit - sem hann hafði ekki gert um langt skeið. Þessi könnun olli því að formaðurinn margefldist og tókst að snúa ömurlegri stöðu sér í vil.

                                                            ***

Það er ekki nokkur vafi á því að vegna þess að Bjarni Benediktsson vaknaði af pólitískum blundi þá snarjókst fylgi Sjálfstæðisflokksins. Fyrrnefnd grein Friðjóns ætti að vera vakning fyrir forystu flokksins, sem þarf að huga að stefnu flokksins en ekki stefnu ríkiskerfisins.

                                                            ***

Óðinn hvetur Bjarna Benediktsson og aðra forystumenn Sjálfstæðisflokksins til að taka nú á stóra sínum. Vera óhrædda að tala fyrir stefnu flokksins, Sjálfstæðisstefnunni. Fallegri hugmyndafræði er ekki til. Hugmyndafræðin um trúna á manninn - en ekki kerfin. Kerfi sem eru öll míglek þrátt fyrir að líklega sé hvergi á jarðríki varið eins miklum fjármunum í þau eins og á Íslandi.

                                                            ***

Sjálfstæðisflokkurinn setur traust sitt og trú á sérhvern borgara lýðveldisins í þeirri vissu, að fái frumkvæði hans, framkvæmdaþróttur og kapp notið sín, miði skjótast áfram. Stefna flokksins miðast við það, að menn fái notið ávaxta verka sinna og sjái tilgang í því að leggja sig alla fram. Þessi trú á manninn markar einnig ríkinu sinn bás.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.