*

föstudagur, 4. desember 2020
Heiðrún Lind Marteinsdót
22. janúar 2018 10:43

Sjávarútvegur og samspilið

Tryggja þarf áframhaldandi skilyrði fyrir öflugum fjárfestingum íslensks sjávarútvegs til uppbyggingar þekkingariðnaðarins.

Aðsend mynd

Sjávarútvegur er grunnatvinnuvegur á Íslandi. Atvinnuvegur sem flokkast sem grunnatvinnuvegur er það mikilvægur fyrir hagkerfið að aðrir atvinnuvegir reiða sig á hann að einhverju eða miklu leyti. Mörg fyrirtæki hafa raunar fyrst og síðast orðið til vegna sjávarútvegs. Mikilvægi íslensk sjávarútvegs er því umtalsvert meira en að veiða, vinna og selja fisk. Við áramót er rétt að gaumgæfa þessa stöðu og velta fyrir sér hvað hægt er að gera úr henni, öllum til heilla. 

Margar fréttir hafa verið sagðar á árinu af komu nýrra og glæsilegra skipa til landsins. Löngu tímabært var að ráðast í endurnýjun flotans og hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fjárfest fyrir tugi milljarða á ári undanfarin ár. Ekki bara í skipum, heldur einnig í fiskvinnslu í landi. Í gögnum, sem endurskoðunarfyrirtækið Deloitte tók saman og voru kynnt á Sjávarútvegsdeginum í október, kom fram að fjárfestingaþörf í sjávarútvegi væri um 20 milljarðar króna á ári. Ætla má að hér sé um varfærið mat að ræða þar sem enn er þörf mikillar endurnýjunar. 

Þessar miklu fjárfestingar sem framundan eru, eru ekki einkamál sjávarútvegsfyrirtækja. Fjölmörg fyrirtæki í íslensku hug- og handverki munu njóta góðs af þessu og stóla á þessa framvindu. Ekki nóg með það, heldur munu íslensk fyrirtæki á þessu sviði áfram verða leiðandi á heimsvísu.

Nú þegar hefur mikil þekking byggst upp á þessu sviði á Íslandi og lausnir í sjávarútvegi, í sínum víðasta skilningi, verið hannaðar hér á landi. Íslensk fyrirtæki verða því gerendur í þessari þróun, en ekki þiggjendur. Þar eiga í hlut fyrirtæki sem framleiða hugbúnað, tæknilausnir eða skip. 

Á tímum þegar loftslagsmál eru mál málanna, er rétt að horfa aðeins til þess, hvernig sjávarútvegurinn á Íslandi hefur verið að þróast. Í skýrslu sem SFS gaf út í byrjun desember kemur fram að í heild hefur eldsneytisnotkun í sjávarútvegi (fiskiskip og fiskimjölsverksmiðjur) minnkað um 42,6% frá 1990. Sé litið til ársins 1995, þegar eldsneytisnotkunin var sem mest, vegna veiða á fjarlægum miðum, hefur hún minnkað úr 245 þúsund tonnum niður í 135 þúsund tonn í fyrra. 

Ísland er aðili að Parísarsamkomulaginu og hefur kynnt landsmarkmið um að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% til ársins 2030 miðað við árið 1990. Segja má að sjávarútvegurinn hafi, fyrir sitt leyti, náð þessu markmiði. Sjávarútvegur mun þó ekki láta hér staðar numið, heldur halda áfram á sömu braut.

Áfram verður fjárfest í nýjum, tæknivæddum og betri skipum sem byggjast á íslenskri hönnun og hugviti. Það er mat SFS að fjárfesta þurfi hið minnsta fyrir um 180 milljarða króna til ársins 2030 í nýjum skipum. Við þá fjárhæð bætast síðan fjárfestingar í aukinni tækni og skilvirkni í fiskvinnslu. 

Lítum þá aftur til spurningarinnar sem sett var fram í upphafi; hvernig ætlum við að nýta okkur þessa stöðu? Svarið er í raun augljóst. Það þarf að gera íslenskum fyrirtækjum kleift að taka þátt í þessari uppbyggingu af fullum krafti. Það verður ekki gert öðruvísi en með því tryggja að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki verði í stakk búin til þess að fjárfesta. Með því móti verður til mikill fjöldi starfa í spennandi fyrirtækjum sem mörg hver þurfa á vel menntuðum starfskrafti að halda, bæði í hand- og hugverki. 

Tökum dæmi um þá þróun sem átt hefur sér stað. Skaginn 3X hefur á undanförnum 4-5 árum tvöfaldað fjölda starfsmanna og velta fyrirtækisins nam fjórum milljörðum króna í fyrra, sem er nálega tvöföldun á þessum 4-5 árum. Sömu sögu er að segja af Völku í Kópavogi. Velta fyrirtækisins hefur farið úr 600 milljónum króna í 1.100 milljónir króna á tveimur árum og starfsmönnum fjölgað úr 22 í 40. Þá hefur starfsmönnum sjávarútvegsteymis Marels á Íslandi fjölgað um 20% á líðandi ári. Fjölmörg önnur áþekk dæmi væri hægt að nefna til viðbótar. 

Þarna liggja raunveruleg og spennandi verðmæti, sem rakin verða til fjárfestingagetu fyrirtækja í sjávarútvegi. Tækifærin sem eru að verða til á þessum vettvangi eru mikil og stór og þau eigum við að grípa og hagnýta okkur. 

Það er full ástæða til að hnykkja sérstaklega á þessu samhengi. Auðlindin í sjónum er með mjög áþreifanlegum hætti, að geta af sér aðra auðlind, sem er íslensk þjónustu- og hátæknifyrirtæki. Og svo má að sjálfsögðu bæta við öflugum, spennandi og framsæknum líftæknifyrirtækjum um allt land. Íslenskur sjávarútvegur er stoltur af sínu framlagi og gleðst með öllum þeim sem sjá tækifæri í að koma hugviti sínu í verk, svo ekki sé talað um stórfelldan útflutning á því.

Við eigum að hafa metnað og setja markið hátt. Stoðgreinar sjávarútvegs geta hæglega orðið enn ein öflug og mikilvæg grunnstoð í útflutningstekjum okkar Íslendinga. Að því eigum við að sjálfsögðu að stefna. Vonandi ber ný ríkisstjórn gæfu til þess að taka mið af því sem er að gerast á þessum vettvangi og tryggir áframhaldandi skilyrði fyrir öflugum fjárfestingum íslensks sjávarútvegs. Hin jákvæðu áhrif þeirra skila sér margfalt til samfélagsins. 

Gleðilegt nýtt ár!

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.