*

fimmtudagur, 28. október 2021
Leiðari
14. maí 2021 12:27

Sjávarútvegurinn og VR

Stjórnendur fyrirtækja sem hafa eitthvað að fela skrá ekki félag sitt á markað því skráning er ekkert annað en risastórt stækkunargler.

Haraldur Guðjónsson

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum frá því að fyrstu hlutabréfin voru skráð í Kauphöll Íslands árið 1990. Á tíunda áratug síðustu aldar var fjöldi fyrirtækja skráður á markað. Fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið var skráð sumarið 1992 en það var Skagstrendingur hf. Seinna þetta ár fylgdu Grandi hf. og Þormóður rammi í kjölfarið. Á árinu 1994 var Útgerðarfélag Akureyringa skráð á markað og árið eftir Haraldur Böðvarsson, SR-mjöl, Vinnslustöðin og Síldarvinnslan.

Um aldamótin var staðan í Kauphöllinni þannig að ríflega 70 fyrirtæki voru skráð í Kauphöllina þar af 24 sjávarútvegsfyrirtæki. Á sjálfu aldamótaárinu hófst hrina afskráninga sjávarútvegsfyrirækja. Fyrir þessu voru ýmsar ástæður m.a. samrunar og yfirtökur og þá töldu margir að verðlagning markaðarins hefði ekki verið nægilega virk, fyrirtækin undirverðlögð og seljanleiki bréfanna takmarkaður. Síldarvinnslan var afskráð haustið 2004 og Grandi haustið 2006.

Árið 2014 var HB Grandi, nú Brim, aftur skráður á markað. Allt síðan þá hefur Brim verið eina útgerðarfélagið á aðalmarkaði Kauphallarinnar en nú er að verða breyting á því Síldarvinnslan, sem fór úr Kauphöllinni fyrir 17 árum, er aftur á leið á markað.

Síldarvinnslan er eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og stærsti framleiðandi uppsjávarafurða. Í fyrra námu tekjur félagsins 25 milljörðum króna og hagnaðurinn 5,3 milljörðum. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar sínar í Neskaupstað og verður því eina skráða félagið, með höfuðstöðvar á landsbyggðinni. Enn fremur er fyrirtækið stór vinnuveitandi en ársverkin eru um 350 talsins um síðustu áramót.

Íslenskur sjávarútvegur hefur oft þurft að sæta mikilli gagnrýni og oftar en ekki snýr hún að kvótakerfinu, sem á rætur að rekja til níunda áratugar síðustu aldar. Það er ágætt að halda því til haga að kvótakerfið var sett á af löggjafanum til þess að sporna við ofveiði á íslenskum fiskistofnum. Þó að kvótakerfið sé ekki hafið yfir gagnrýni þá hefur það ótvíræða kosti. Sem dæmi er það frumforsenda þess að hægt að sé að stunda veiðar á hagkvæman og ekki síst sjálfbæran hátt. Þá er stöðugt rekstrarumhverfi grunnurinn að auknum fjárfestingum sjávarútvegsfyrirtækja. Það kaupir enginn fullkomið skip eða reisir verksmiðju ef algjör óvissa ríkir um framhaldið.

Stjórnendur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hafa margir verið einkar framsýnir í gegnum tíðina. Endurspeglast það í þeirri staðreynd að þeir hafa verið óhræddir við að tileinka sér tækninýjungar. Þessi ríka áhersla sjávarútvegsfyrirtækja á tækniframfarir hefur að mörgu leyti verið hinn frjói jarðvegur íslenskra tæknifyrirtækja, sem á síðustu árum hafa náð að vaxa og dafna og skipa sér í fremstu röð á sínu sviði á alþjóðavísu. Færa má sterk rök fyrir því að án íslensku útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjanna væri staða tæknifyrirtækjanna ekki sú sem hún er í dag.

Með skráningu Síldarvinnslunnar á markað fjölgar tækifærum fjárfesta til þess þess að koma að íslenskum sjávarútvegi. En það sjá ekki allir hlutina svona. Formaður VR blés enn og aftur í herlúðra á dögunum þegar hann sagðist vonast til þess að „hvorki almenningur né sjóðir í okkar eigu láti krónu í þetta fyrirtæki. Hver er staða lífeyrissjóða varðandi fjárfestingu í félagi sem stjórnað er af einstaklingum sem liggja undir rökstuddum grun um peningaþvætti, skattaundanskot, launaþjófnað og mútur, í mörgum löndum.“

Velti formaðurinn því fyrir sér hvort útboðið væri leið til að „veiða almenning inn í net útgerðarfyrirtækja“ til þess að ná sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið. Þannig væri almenningi seld eigin auðlind, sem fullkomni „vitleysuna og ránið á auðlindum þjóðarinnar“.

Þarna gleymdi formaðurinn því í eitt augnablik að Lífeyrissjóður verzlunarmanna er þriðji stærsti hluthafinn í Brimi og á þar með hlutdeild í kvóta nú þegar. En látum það liggja á milli hluta. Ummæli sem þessi bera vott um skammsýni. Stjórnendur fyrirtækja sem hafa eitthvað að fela skrá ekki félag sitt á markað því skráning er ekkert annað en risastórt stækkunargler. Hún eykur gagnsæi með því varpa ljósi á fjármálin og stjórnarhættina, sem og ýmislegt annað eins og t.d. hvernig félög eru að standa sig í umhverfismálum og samfélagslegri ábyrgð.

Viðskiptablaðið hvetur fjárfesta, og sérstaklega lífeyrissjóði, til þess að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirækjum og eignast þar með óbeinan hlut í þeirri auðlind sem fiskimiðin eru. Öfugt við það sem formaður VR heldur þá gæti þetta verið liður í því að skapa aukna sátt á milli almennings og atvinnugreinarinnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.