Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Þar sagði hún í upphafi greinarinnar:

„Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Sidekick Health fékk fimmtíu milljóna stuðning úr Tækniþróunarsjóði fyrir örfáum árum. Sá stuðningur var mikilvægur á þeim tíma. Félagið er nú verðmetið á um fjörutíu milljarða króna, hefur ráðið til sín starfsfólk og mun hafa mikil áhrif á íslenskt hagkerfi til lengri tíma.

Sambærilega sögu má segja af öðrum félögum á borð við Controlant, Kerecis og fleiri. Umhverfi rannsókna og nýsköpunar hefur styrkst verulega á síðustu árum. Stuðningur ríkisins er víðtækur og á síðasta ári fóru rúmlega átta milljarðar króna í gegnum stuðningskerfi opinberra samkeppnissjóða.“

***

Týr er þeirrar skoðunar að ráðherrann og ríkisstjórn sé á kolrangri leið í „nýsköpunarmálunum“ sem og svo mörgum öðrum málaflokkum.

Hér á árum áður var til urmull af sjóðum á vegum ríkisins sem styrktu eða lánuðu til nýsköpunar. Þegar Davíð Oddsson varð forsætisráðherra árið 1991 voru þessir sjóðir lagðir niður. Enda helsti árangur sjóðanna að tapa fé skattgreiðenda á mettíma.

Þeir 8 milljarðar sem skattgreiðendur eru í dag látnir styrkja nýsköpunarfyrirtæki, í gegnum sjóði sem stjórnað er af ríkisstarfsmönnum og ekki leggja fram sitt eigið fé í fjárfestingarnar, eru í grundvallaratriðum eins og sjóðirnir forðum.

***

Ráðherrann nefnir dæmi um fyrirtækið Sidekick. Týr hefur frá stofnun þess vonað að viðskiptahugmyndin gengi upp því hún gæti stórbætt gæði og rekstur heilbrigðisþjónustu. En Sidekick er áhættufjárfesting. Ef það góða fyrirtæki hefði ekki geta safnað 50 milljónum í hlutafé í upphafi er ósennilegt að viðskiptahugmyndin hafi verið burðug.

Týr er nefnilega þeirrar skoðunar að þeir sem fjárfesta fyrir sitt eigið fé séu mun líklegri en opinberir starfsmenn til að velja rétta fjárfestingakosti. Ekki síst vegna þess að tapið og hagnaðurinn er þeirra, en ekki einhvers annars. Týr er hins vegar ekki á móti hvötum, t.d. skattaafslætti, sem kosta skattgreiðendur ekkert.

Týr saknaði þess mjög að sjá engin rök í grein Áslaugar Örnu fyrir hinu nýja sjóðasukki.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins, en þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 30. mars.