*

laugardagur, 16. október 2021
Huginn og muninn
18. september 2021 08:55

Sjóræningjar í Arnarhvol?

Hrafnarnir verða að viðurkenna að þeim rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar Píratar girntust fjármálaráðuneytið.

Haraldur Guðjónsson

Unnendur ráðdeildar í opinberum rekstri hafa ekki haft margt til að hrópa húrra yfir undanfarið en þó er auðvelt að ímynda sér leið úr ösku yfir í eld.

Slík sviðsmynd birtist til að mynda í Pallborðinu á Stöð 2 og Vísi þegar Snorri Másson spurði Píratann Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur hvaða ráðherrastól hún girntist helst. Það stóð ekki á svari, fjármálaráðuneytið.

Hrafnarnir verða að viðurkenna að þeim rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Mörgum er eflaust í fersku minni að árið 2019 fóru 95,5% tekna flokksins, sem eru að nær öllu leyti framlög úr ríkissjóði, beint í rekstur og við blasti að lítið yrði eftir til að há kosningabaráttu.

Auk þess að borða útsæðið vantaði reikninga í opið bókhald flokksins og opna útgáfa þess ekki uppfærð. Nú í vikunni bættust síðan við reikningsskekkjur flokksins í skattamálum. Nái slíkir stjórnarhættir í Arnarhvol geta hrafnarnir ekki annað en vonað að embættismenn nái að toga í bremsuna til að afstýra slysi.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.