*

föstudagur, 15. janúar 2021
Leiðari
2. febrúar 2017 14:12

Sjúkdómurinn eða lækningin

Hægt að ganga of langt í aðgerðum gegn skattaundanskotum, einkum ef lækningin er orðin hættulegri en sjúkdómurinn.

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Skattsvik og skattaundanskot hafa verið mikið til umræðu undanfarið og er í raun ekkert við það að athuga. Skattsvik eru glæpur sem ber að taka hart á og refsa fyrir þegar upp kemst. Eins er eðlilegt að grípa til aðgerða sem geta minnkað hvata til skattsvika og auð­ velda yfirvöldum að hafa hendur í hári þeirra sem þau stunda

Hins vegar er hægt að ganga of langt, einkum ef lækningin er orðin hættulegri en sjúkdómurinn.

Nýskipaður fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, hefur gengið langt yfir þessa línu með þeim ummælum sínum að hann vilji undirbúa löggjöf „til þess að þrengja að svarta hagkerfinu þar sem bannað yrði að greiða laun út með reiðufé og allir þyrftu að borga hluti yfir ákveðnu verði í gegnum banka eða kreditkort þannig að viðskiptin yrðu rekjanleg“.

Það sem Benedikt er þarna að mæla fyrir er grundvallarbreyting á lögum um gjaldmiðil Íslands. Krónan er lögeyrir hér á landi og á að vera hægt að nota hana í öllum viðskiptum, stórum sem smáum. Lagasetning Benedikts myndi kollvarpa þessari reglu.

Eins er óþolandi að almenningi verði hreinlega gert skylt að fara með sín viðskipti í gegnum banka og kortafyrirtæki. Einkaframtakið og einkarekstur er almennt af hinu góða, en það er einmitt ekki síst vegna þess að enginn er skyldugur til að vera í viðskiptum við einkafyrirtæki frekar en hann vill. Þetta frelsi fer fyrir lítið ef fólki er skipað að stunda viðskipti af þessu tagi af ríkisvaldinu.

En burtséð frá slíkum tæknilegum atriðum er hugmyndin hættuleg. Vissulega myndi þetta auðvelda ríkisvaldinu að fylgjast betur með borgurunum, en allir hljóta að viðurkenna að hægt er að ganga of langt í slíku eftirliti.

Við erum að sjá nú hvað gerist þegar of sterkt og umfangsmikið ríkisvald kemst í hendurnar á einstaklingi sem ekki er hægt að treysta til að fara með slíkt vald. Allt það sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þegar gert í embætti og mun gera í framtíðinni getur hann gert vegna þess hve bandaríska alríkið er valdamikið. Hefðu Bandaríkjamenn haft rænu á að takmarka vald alríkisins yfir þegnunum gæti maður eins og Trump lítið annað gert en að senda frá sér pirruð tíst.

Engin ástæða er til þess að ætla að Benedikt, eða embættismenn fjármálaráðuneytis eða skattstjóra, muni fara illa með þær auknu upplýsingar um einkamálefni almennings sem til þeirra munu berast verði Benedikt að ósk sinni um lagabreytinguna. Við getum hins vegar ómögulega vitað hvort og þá hvenær okkar eigin Donald Trump tekur við stjórnartaumunum.

Haldi einhver að slíkur maður muni víla sér við að misnota svo víðfeðmt upplýsingaöflunartæki til að ná sér niðri á raunverulegum eða ímynduðum óvinum þarf sá hinn sami að kynna sér betur mannkynssöguna.

Stjórnkerfi og valdheimildir hins opinbera eiga að taka mið af því að vondar manneskjur geti ekki notfært sér þau í illum tilgangi, ekki með það í huga hvað vel meinandi fólk getur gert með þær.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.