*

laugardagur, 4. desember 2021
Týr
26. apríl 2020 09:08

Sjúkt ástand

Það er eitthvað sérstaklega ógeðfellt við að svindla eigi inn í Stjórnartíðindi meingölluðu fjölmiðlafrumvarpi.

Lilja Alfreðsdóttir er mennta- og menningarmálaráðherra.

Ekki getur Týr sagt það með góðri samsvisku að sér komi það á óvart að sjá það í nýjasta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar að frjálsir fjölmiðlar skuli verða settir á sveitina sem hluti af neyðarráðstöfunum vegna Kínaplágunnar. Það var eiginlega fjarskalega fyrirsjáanlegt.

                                                                       ***

Að hluta til vegna þess að velflestir íslenskir fjölmiðlar hafa verið í megnum rekstrarvandræðum síðustu ár. Má eiginlega segja að þeir hafi - einir íslenskra atvinnugreina - aldrei náð sér eftir hrunið. Menn fara þá nærri um hvernig þeim líður núna, þegar atvinnulífið allt er í lamasessi og auglýsingasalan eftir því.

                                                                       ***

Það var enda svo að þrátt mjög mismikla ánægju með fjölmiðlastyrkjafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra, sendu forsvarsmenn helstu fjölmiðla (ekki þó Viðskiptablaðsins!) og nokkurra smærri miðla bænaskjal til Lilju og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um að þeir fengju tímabundinn stuðning til þess að komast í gegnum þennan skyndilega samdrátt, í samræmi við það sem lagt var upp með í frumvarpinu.

                                                                       ***

Þetta er skiljanleg viðleitni hjá fjölmiðlunum, sem nú róa margir lífróður, en sumir þeirra virðast af mikilli óvarfærni hafa gert ráð fyrir að frumvarpið yrði að lögum í rekstraráætlunum sínum og einn þeirra jafnvel fjölgað stöðugildum á þeim forsendum!

En það er eitthvað sérstaklega ógeðfellt við það, að þetta meingallaða frumvarp, sem hefur reynst ómögulegt að afgreiða á Alþingi, skuli nú eiga að svindla inn í Stjórnartíðindi með þessum hætti og menningarmálaráðherranum bara treyst fyrir því að græja rest í reglugerð.

                                                                       ***

Nú kann Lilju að vera vorkunn. Stjórnvöld geta ekki horft hjá því ef gervöll fjölmiðlaflóran er að visna upp og deyja. Og Lilju er auðvitað líka vorkunn af því að hún er framsóknarmaður og getur því ekki dottið neitt annað í hug en styrkjakerfi og millifærslusjóðir. En ef hún kemur slíkum fyrirætlunum í gegnum þingið með eðlilegum hætti, þá á hún auðvitað að reyna eitthvað annað.

Eitthvað eðlilegra jafnvel, eins og léttara rekstarumhverfi, minni skatta eða ámóta, sem ekki hefur áhrif á samkeppnisumhverfið að öðru leyti. - En nei, þetta skal fara svona í gegn af því að DV verður að lifa en fotbolti.net ekki, dulbúnir bloggar eins og Kjarninn og Viljinn fá náð, en þak er sett á frumfréttamiðlana, sem áfram verða í bráðri lífshættu.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.