*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Leiðari
14. september 2019 11:42

Skætingur um skipan ráðherra

Viðbrögðin við skipun Áslaugar Örnu hafa um margt verið umhugsunar- að ekki sé sagt áhyggjuefni.

Haraldur Guðjónsson

Í liðinni viku tók Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir við embætti dómsmálaráðherra. Hún tók við af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, sem sinnti því til bráðabirgða eftir að Sigríður Á. Andersen vék úr því í enn einu pólitísku uppnáminu á Íslandi, sem eftir á að hyggja var hæpið tilefni til. Enn síður nú, þegar fyrir liggur að yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu hyggst taka málið sem á steytti til endurskoðunar.

Áslaug Arna er með yngstu ráðherrum Íslandssögunnar, lögfræðingur og einn efnilegasti stjórnmálamaður landsins í seinni tíð; hefur komið af krafti inn í stjórnmálin og þingstörfin svo eftir hefur verið tekið. Í þinginu hefur hún verið formaður utanríkismálanefndar og stýrt þeirri veigamiklu nefnd af öryggi og festu. Viðskiptablaðið tekur undir orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, um að henni sé því vel treystandi fyrir embætti dómsmálaráðherra og eins að rétt sé að hleypa ungu fólki í fremstu röð stjórnmálanna. Áslaugu Örnu skal óskað allra heilla í vandasömu starfi, þar sem reynir bæði á dugnað, formfestu og fylgni, dómgreind, þekkingu og vísdóm.

Hins vegar hafa viðbrögðin við skipun Áslaugar Örnu um margt verið umhugsunar- að ekki sé sagt áhyggjuefni. Margir fögnuðu henni og sumir nefndu sérstaklega að það væri ánægjuefni að kona hefði orðið fyrir valinu. Það er vissulega rétt að gott jafnræði sé með kynjunum í æðstu stjórn ríkisins sem annars staðar, en það er rangt að láta sem kynferði hafi eða eigi að ráða baggamun. Áslaug Arna varð örugglega fyrir valinu af því að hún er að öllu virtu heppilegust í starfið.

Hálfu verra var þó að fylgjast með hnútunum, sem kastað var að nýja ráðherranum af alls kyns undirmálsfólki, sem kallaði hana stelpukrakka, ljósku, puntudúkku, fegurðardrottningu og þar fram eftir götum. Á samfélagsmiðlunum jafnvel sumt, sem ekki verður eftir haft í fjölskyldublaði eins og Viðskiptablaðinu.

Áslaug Arna er vissulega bæði ung, lagleg og ljóshærð, en það er fráleitt að það sé hið helsta sem hún hafi til brunns að bera. Að halda því fram – hvort sem í hlut eiga karlar eða konur – er gegnsýrt kvenfyrirlitningu og meinfýsni, móðgandi fyrir hana, konur, ungt fólk og alla þá sem gefa sig að stjórnmálastörfum í þágu lands og þjóðar.

Að miklu leyti er þessi ógeðfelldi skætingur einkennandi fyrir þá umræðuhefð, sem grafið hefur um sig í landinu allt frá hruni. Það hlýtur að vera öllu góðu fólki keppikefli að kveða hana í kútinn og koma þjóðmálaumræðu á betra, heilbrigðara og siðaðra stig.

En svo er þetta með aldurinn, sem rétt er að huga sérstaklega að. Jú, reynsla er góð og oft nauðsynleg, en það er fráleitt að láta sem svo að hár eða lágur aldur varði mestu við val á hæfileikafólki í forystustörf. Þetta þekkjum við og viðurkennum í fyrirtækjarekstri jafnt og við eldhúsborðið heima. Af hverju ætti það að vera eitthvað öðru vísi í stjórnmálum?

Þegar kjósendur taka afstöðu til stjórnmálamanna dettur vonandi engum í hug að láta kynferði, litarhátt eða trúarbrögð þeirra vefjast fyrir sér. Aldur á þar ekki heldur að hafa áhrif. Það sem máli skiptir eru afstaða og mannkostir þeirra sem bjóða sig fram til starfa í þágu þjóðarinnar. Hún hefur ekki efni á að afþakka reynslu, vísdóm og varfærni þeirra, sem eldri eru, fremur en að hafna hugmyndaauðgi, dugnaði og djörfung hinna yngri.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.