*

mánudagur, 16. maí 2022
Týr
15. október 2021 07:31

Skál fyrir Óla og Andra

„Í kjölfarið á opnun netsölu Sante sendi FA, sem oft virðist draga taum Ölgerðarinnar, erindi til fjármálaráðuneytisins“

Haraldur Guðjónsson

Síðastliðinn þriðjudag, 12. október, voru liðin akkúrat 28 ár frá því að Andri Þór Guðmundsson, nú forstjóri og eigandi Ölgerðarinnar, stýrði vinnu viðskiptamálahóps við undirbúning Sambandsþings ungra sjálfstæðismanna (SUS) sem haldið var stuttu síðar.

Andri Þór var virkur í starfi ungra sjálfstæðismanna á þessum árum. Það var einnig Ólafur Þ. Stephensen, nú framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA), en hann sat í stjórn SUS á árunum 1989-1993.

* * *

Ótengt þessari söguupprifjun, þá hóf franska áfengisnetverslunin Sante nýlega að bjóða íslenskum neytendum vörur til sölu, vörur sem fást afgreiddar af lager hér á landi. Ríkiseinokunarverslunin ÁTVR hefur síðan þá, með stuðningi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, ítrekað reynt að leggja stein í götu Sante, sem þó starfar sem betur fer enn. Andað hefur köldu milli FA og Sante og hefur Arnar Sigurðsson, eigandi Sante, kalla FA „Félag hilluplásshafa í Áfengisverslun ríkisins“.

* * *

Í kjölfarið á opnun netsölu Sante sendi FA, sem oft virðist draga taum Ölgerðarinnar, erindi til fjármálaráðuneytisins þar sem kallað var eftir svörum um það hvort starfsemi Sante væri í samræmi við gildandi lög.

Í stað þess að lýsa yfir afstöðu í málinu eða hvetja til þess að innlendum aðilum verði heimilt að reka netverslanir, hefur FA aðeins staðið í kurteisum bréfaskriftum við hið opinbera þar sem hvatt er til þess að áfengislöggjöfin verði endurskoðuð í heild sinni, að auglýsingar með áfengi verði heimilaðar og að gjaldtaka af áfengi verði endurskoðuð.

* * *

Þetta ætti að hljóma vel í eyrum frelsisþenkjandi fólks ef ekki væri fyrir það að FA hefur beitt sér gegn öllum þeim breytingum sem lagðar hafa verið fram á áfengislögum síðastliðinn áratug eða svo. Á meðan félagið talar fyrir viðskiptafrelsi með evrópsk matvæli hefur það takmarkaðan áhuga á því að láta hrófla við hilluplássi Ölgerðarinnar í áfengisverslun ríkisins.

Það er þó nógu mikil fyrirhöfn fyrir þá sem aðhyllast viðskiptafrelsi almennt að taka slaginn við kerfið án þess að þurfa líka að glíma við menn sem einu sinni töluðu fyrir frelsi en gera það nú eingöngu út frá eigin hagsmunum.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.