*

sunnudagur, 13. júní 2021
Örn Arnarson
16. nóvember 2020 07:31

Skapandi bókhald Ríkisútvarpsins

Við blasir að bæði Ríkisskattstjóri og Ríkisendurskoðandi eiga brýnt erindi við útvarpsstjóra.

Uppljóstranir um bókhaldsbrellur hjá ríkisstofnun til að komast undan skyldum, sem lögbundinn þjónustusamningur leggur á herðar henni, hefðu einhvern tíma þótt fréttnæmar. Ætla hefði mátt að hinn fjölmenni her rannsóknarblaðamanna á ríkismiðlinum hefði gert slíkum fréttum góð skil og ekki veigrað sér að velta öllum steinum til að komast ofan í kjöl málsins.

Því er þó ekki fyrir að fara þegar kemur að stórfróðlegri 104 blaðsíðna skýrslu Fjölmiðlanefndar um starfsemi Ríkisútvarpsins sem birt var í síðustu viku.

Ekki múkk um það í fréttum Ríkisútvarpsins, engin afhjúpun í Kveik, ekki hósti í Silfrinu. En hvað með alla okkar margverðlaunuðu rannsóknarblaðamenn á Stundinni? Gáfumennin á Kjarnanum sem nærast á opinberum skýrslum? Skúbbmeistara Miðjunnar sem engu eira þegar sannleikurinn er annars vegar? Nei, þeir hafa ekki hnotið um fréttina enn.

Enginn fjölmiðill að Morgunblaðinu undanskildu hefur gert skýrslunni skil, en í henni kemur skýrt fram að ríkismiðillinn hafi þverbrotið þjónustusamning sinn við stjórnvöld með því að flokka verktakagreiðslur til starfsmanna sinna sem kaup á dagskrárefni frá sjálfstæðum og óskyldum framleiðendum. Eins og fram kom í Morgunblaðinu þá meta Samtök iðnaðarins að íslensk framleiðslufyrirtæki hafi orðið af hundruðum milljóna á undanförnum árum vegna þessa blekkingaleiks og vanefnda á þjónustusamningnum.

                                                              ***

Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið er því skylt að framleiða íslenskt dagskrárefni eitt og sér og í samstarfi við aðra. Í lögunum segir:

„Ríkisútvarpið skal vera virkur þátttakandi í íslenskri kvikmyndagerð, m.a. með kaupum frá sjálfstæðum framleiðendum. Í samningi sem ráðherra gerir við Ríkisútvarpið skv. 4. mgr. 2. gr. skal mælt fyrir um lágmarkshlutfall dagskrárefnis sem keypt er af sjálfstæðum framleiðendum."

Í ofangreindri málsgrein þjónustusamnings Ríkisins og RÚV segir svo:

„Ríkisútvarpið skal styrkja og efla sjálfstæða sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildarmyndagerð með því að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að slíku efni. Á samningstímabilinu skal Ríkisútvarpið kaupa eða vera meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildarmyndum eða öðru dagskrárefni í miðlum Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið skal verja til þess að lágmarki 8% af heildartekjum á árinu 2016, 9% árið 2017, 10% árið 2018 og 11% árið 2019."

Eins og fram kemur í skýrslu Fjölmiðlanefndar þá hefur RÚV alls ekki staðið við gerðan samning þrátt fyrir að bókhaldið sé látið líta öðruvísi út. Ríkisútvarpið hefur þannig flokkað greiðslur til starfsmanna sinna og annarra þeirra sem eru viðloðnir Efstaleitið sem greiðslur til sjálfstæðra framleiðenda dagskrárefnis. Þannig flokkast greiðslur til blaðamanns sem rabbar vikulega um pólitík og efnahagsmál í morgunþætti í Efstaleiti undir aðkeypta dagskrárframleiðslu í bókum ríkismiðilsins. Hið sama á við innslög sprellikarla í vikulegum sjónvarpsþáttum.

Skýrsla Fjölmiðlanefndar er sprenghlægileg í þeim köflum sem lýsa samskiptum nefndarinnar við RÚV vegna þessa mál. Þar segir:

„Samkvæmt lista yfir kaup Ríkisútvarpsins af sjálfstæðum framleiðendum, sem afhentur var Fréttablaðinu samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál vorið 2020, voru verktakagreiðslur til dagskrárgerðarfólks, pródúsenta og myndatökumanna hjá Ríkisútvarpinu á meðal þess sem talið var til kaupa af sjálfstæðum framleiðendum. Ekki var þar eingöngu um greiðslur til lögaðila að ræða, heldur einnig verktakagreiðslur til einstaklinga sem, samkvæmt upplýsingum sem sóttar voru 7. júlí 2020 af vefnum RÚV.is, voru starfsmenn Ríkisútvarpsins. Þar á meðal voru greiðslur til einstaklinga sem störfuðu fyrir íþróttadeild, við sjónvarpsþættina Menninguna, Landann, Gettu betur, Silfrið og Vikuna. Einnig vekur athygli að Viðskiptaráð var á lista yfir sjálfstæða framleiðendur."

Fram kemur í skýrslunni að Fjölmiðlanefnd óskaði eftir skýringum hjá RÚV í sumar á því að skráðir starfsmenn ríkismiðilsins fengju einnig verktakagreiðslur sem flokkuðust undir greiðslur til sjálfstæðra framleiðenda í bókhaldinu, að minnsta kosti þegar tínt var til hvernig þjónustusamningurinn var uppfylltur.

Svar RÚV var að umræddir starfsmenn væru sko alls ekkert starfsmenn Ríkisútvarpsins þó svo að nöfn þeirra og netföng væru að finna á heimasíðu stofnunarinnar. Í framhaldinu voru svo allar upplýsingar um starfsmenn RÚV og netföng þeirra fjarlægð af heimasíðu stofnunarinnar. Ásamt auðvitað öllum þessum sjálfstæðu verktökum, algerlega ótengdum RÚV, sem þangað höfðu slysast inn fyrir helbera tilviljun, gráglettni örlaganna og undur alnetsins.

                                                              ***

Það sem er einkennandi fyrir samskipti Fjölmiðlanefndar og stjórnenda Ríkisútvarpsins, eins og þeim er lýst í skýrslunni, er hroki þeirra síðarnefndu og hversu langt þeir eru reiðubúnir til að teygja sig til þess að fara í kringum lögin, sniðganga þjónustusamninginn en taka við peningunum, beita blekkingum og verja svo framferði sitt eins og ekkert sé að, þetta sé nú bara smotterí og ekkert að sjá hér.

Samkvæmt lögum um fjölmiðla er sjálfstæður framleiðandi skilgreindur lögaðili, óháður viðkomandi fjölmiðlaveitu í þeim skilningi að hann er ekki undir beinum eða óbeinum yfirráðum hennar, hvorki sér né́ sameiginlega með öðrum, og hefur frelsi til að skilgreina sína eigin viðskiptastefnu.

Fram kemur í skýrslunni að þau svör hafi borist frá RÚV að stofnunin líti svo á að ekki eingöngu lögaðilar geti talist til sjálfstæðra framleiðanda. Með öðrum orðum: Stofnunin telur sig ekki þurfa að fara eftir lögum um fjölmiðla.

                                                              ***

Það vekur mikla furðu að Ríkisútvarpið gangi fram með þessum hætti og framferðið vekur upp margar áleitnar spurningar. Hvaða hagsmuni er þarna verið að verja? Að óbreyttu hefðu flestir talið að það væri sérstakt metnaðarmál fyrir stjórnendur Ríkisútvarpsins að styrkja innlenda dagskrárgerð og standa við skuldbindingar sínar gagnvart ríkinu um að fjárfesta í því blómlega starfi sem þrífst meðal sjálfstæðra framleiðenda.

Svo virðist ekki vera og þess í stað eru greiðslur til starfsmanna og íhlaupamanna á Ríkisútvarpinu dulbúnar sem viðskipti við sjálfstæða framleiðendur. Getur Ríkisútvarpið þó ekki borið við fákunnáttu um gerviverktöku, sem skattyfirvöld hafa áður og ítrekað þurft að gera athugasemdir við.

Við blasir að bæði Ríkisskattstjóri og Ríkisendurskoðandi eiga brýnt erindi við útvarpsstjóra. Þarna er um skipulega gerviverktöku að ræða, sviksemi í samningum við ríkisvaldið og skattgreiðendur landsins, en í þokkabót leggst Ríkisútvarpið í blekkingaleik um það allt, þegar um er spurt! Hið fyrrnefnda kann að vera mikið til arfur frá fyrri tíð, en sjónhverfingarnar á heimasíðunni eru á vakt núverandi útvarpsstjóra.

Fjölmiðlarýnir beinir þeim óskum til stjórnvalda, að ef þar verður ráðist til húsleitar verði samstarf haft við Kveik um hana. Innlendri dagskrárgerð veitir ekki af meira gamanefni.

                                                              ***

Þarna eru þó fleiri spurningar. Áður var vikið að undraverðri þögn nær allra fjölmiðla um málið. Þrátt fyrir að Samtök iðnaðarins hafi kvartað yfir þessum framgangi hefur sú gagnrýni ekki fengið mikinn hljómgrunn hjá stjórnmálamönnum og lítið hefur heyrst í öðrum sem hafa hagsmuna að gæta. Án efa er það til marks um það ægivald sem RÚV hefur á íslenskum fjölmiðlamarkaði - menn þora hreinlega ekki að gagnrýna Ríkisfjölmiðilinn af ótta við að þeir gætu fengið það í höfuðið.

Fyrir um áratug fór Ríkisútvarpið að kalla sig „samkomuhús þjóðarinnar" í kynningarefni, og uppskar fyrir vikið mikla kátínu. Margt bendir til þess að í Efstaleiti sé fyrst og fremst að finna samkomuhús þeirra er þar starfa. Húsið er stórt og matarholurnar víða.

                                                              ***

Fram kom í Morgunblaðinu á þriðjudag að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri teldi útlit fyrir að tekjusamdráttur og kostnaður vegna heimsfaraldursins myndi þýða skell upp á hálfan milljarð fyrir stofnunina. Ljóst er að grípa verður til mikilla hagræðingaraðgerða í Efstaleitinu á næstunni. Í því ljósi er áhugavert að velta fyrir sér tilgangi þess að senda Ingólf Bjarna Sigfússon fréttamann á vettvang til þess að fylgjast með kosningunum í Bandaríkjunum.

Í sjálfu sér er jákvætt að fréttamiðlar sem hafa bolmagn til geri fréttamenn út af örkinni til þess að fylgjast með stórviðburðum á alþjóðavettvangi. En þar sem enginn skortur er á umfjöllun um kosningarnar í erlendum og íslenskum miðlum má velta fyrir sér hvert erindi Ingólfs til Bandaríkjanna var. Vart var að sjá að hann hafi nýtt ferðina til þess varpa nýrri vídd á kosningabaráttuna. Innslög hans í fréttatímann snérust að stærstum hluta um að þylja upp tíðindi dagsins og höfðu þær frásagnir fátt að færa fram yfir þær upplýsingar sem voru að finna í öðrum miðlum. Að vísu tók Ingólfur viðtal við Jón Óskar Sólnes, fyrrverandi fréttamann RÚV, sem er búsettur í Washington en þar með er það eiginlega upptalið.

Rétt er þó að hrósa íslensku miðlunum fyrir að hafa verið duglegir að leita uppi Íslendinga sem eru búsettir í Bandaríkjunum og heyra þeirra álit á kosningabaráttunni. Það hefur verið oftar en ekki áhugavert og virðist símtólið hafa dugað við þá dagskrárgerð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.