*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Leiðari
14. mars 2021 13:55

Skapandi eyðilegging

„Tilefni þess að í þessa vegferð er ráðist á markaði með greiðsluþjónustu er ærið.“

Aðsend mynd

Innleiðing hins æsispennandi PSD2 – sem stendur fyrir Payment Services Directive 2 og kannski ætti frekar að kalla annan greiðsluþjónustupakkann – hefur vofað yfir lengi, enda komið á sjötta ár síðan tilskipunin var samþykkt á Evrópuþinginu.

Embættismannakerfi Evrópusambandsins, EFTA og Íslands verða seint sökuð um að vinna hratt, frekar en svo sem önnur opinber kerfi, en nú styttist loks í að reglurnar taki gildi hér á landi. Frumvarp til laga þess efnis hefur verið lagt fram á Alþingi og er gert ráð fyrir gildistöku 1. júlí.

Hófsemd, skilvirkni og samráð eru lykilatriði þegar kemur að setningu reglna fyrir atvinnulífið og borgarana, sér í lagi þegar um 168 blaðsíðna doðrant er að ræða eins og í þessu tilfelli. Það er því ánægjulegt að heyra frá Samtökum fjármálafyrirtækja að stjórnvöld hafi haldið þeim aðilum sem löggjöfin mun hafa áhrif á vel upplýstum um framgang málsins og vinnulagið allt verið til fyrirmyndar, þó vissulega geti í sumum tilfellum verið varasamt ef hagsmunaaðilar eru of ánægðir með reglusetningu sér og sínum til handa.

Í grófum dráttum byggir pakkinn á sömu meginreglu og lagt hefur verið upp með á mörkuðum fyrir raforku, fjarskiptaþjónustu og fleira. Grunnframleiðsla eða innviðaþjónusta er aðskilin frá þeirri þjónustu sem veitt er ofan á hana, og markaðirnir aðskildir, til að kynda undir samkeppni á markaði fyrir hið síðarnefnda, sem hefur annars átt það til að verða einokunarmarkaður í skjóli þess að sá sem á innviðina sjái um hitt hlutverkið sjálfur og hleypi engum öðrum að.

Hugsunin er því að beita reglum til að knýja fram það besta sem í frjálsum markaði býr, beisla og stýra markaðsöflunum í þágu hagsmuna neytenda og almennings. Evrópusambandið má gagnrýna fyrir ýmislegt, og það er iðulega gert bæði af vinstrimönnum fyrir að vera of langt til hægri, og hægrimönnum fyrir að vera of langt til vinstri. Í þessum efnum má þó segja að tvinnað sé saman hið besta af báðum heimum; í það minnsta er það tilgangurinn. Tíminn verður svo að leiða í ljós hvort útfærslan stendur undir því.

Tilefni þess að í þessa vegferð er ráðist á markaði með greiðsluþjónustu er ærið. Fjártækni hefur verið í örri þróun og vexti síðustu ár, og allskyns nýstárlegar lausnir orðið til, en möguleikarnir að vissu leyti verið takmarkaðir vegna þess að heimabankar og þjónusta í kringum þá hefur aðeins verið í boði frá þeim banka sem viðkomandi er með reikning hjá.

Þeir miklu möguleikar sem margir sjá í fjártæknibyltingunni fela – eins og hver önnur umbylting eins mikilvægs og rótgróins kerfis og fjármálakerfið er – þó einnig í sér tilteknar hættur, ef ekki fyrir samfélagið í heild til langs tíma, þá í það minnsta fyrir einstök fyrirtæki og hópa til skamms tíma. Hugtakið skapandi eyðilegging sem hagfræðingurinn Joseph Schumpeter lagði fram á 5. áratug síðustu aldar á hér vel við.

Þau fyrirtæki sem eiga hvað mest undir í þessum efnum eru stórir alhliða bankar, sem hafa byggt sitt viðskiptamódel á því í hundruð ára að tvinna saman alla fjármálaþjónustu á einum stað. Um þessar mundir eru tveir af stóru bönkunum þremur hér á landi í eigu ríkisins, og metnir á hundruð milljarða hvor.

Viðskiptablaðið hefur tröllatrú á getu einkaframtaksins og tækniþróunar til að bæta líf fólks og samfélagið allt með tilkomu aukinnar samkeppni á sviði greiðsluþjónustu. En blaðið hefur ekki síður trú á getu slíkra breytinga til að verða almenningi dýrkeyptar, verði hann áfram eigandi meirihluta bankakerfisins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.