*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Týr
17. mars 2018 17:25

Skatta-Kata snýr aftur

Þegar kjósendur áttuðu sig á innantómum útgjaldaloforðum VG fyrir kosningar fór fylgið úr 25% í 17%. Pólitískt umboð VG til skattahækkana er því ekkert.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Það fór um Tý í vikunni, þegar hann las það haft eftir forsætisráðherra á forsíðu Morgunblaðsins, að skattahækkanir væru til skoðunar. Orð Katrínar Jakobsdóttur voru viðbrögð við ummælum verkalýðsforingjans Ragnars Þór Ingólfssonar í VR, þess efnis að breyta þyrfti skatta- og húsnæðiskerfinu, ellegar yrði látið sverfa til stáls. Hann taldi einboðið að hækka mætti auðlindagjald, fjármagns- og hátekjuskatt til þess að fjármagna skattalækkanir á tekjulága.

                                 *** 

Allt var þetta eftir bókinni hjá sósíalistanum, sem nú fer fyrir VR, stærsta verkalýðsfélagi landsins. Og hótanir hans skyldu menn ekki taka af léttúð.

                                 *** 

Viðbrögð forsætisráðherrans vöktu þó meiri ugg, en hún sagði slíkar aðgerðir vel koma til greina: „Við sjáum fyrir okkur einhverjar slíkar breytingar, ef sátt skapast um þær, við afgreiðslu næstu fjárlaga.“

                                 *** 

Vinstrimenn hefðu átt að væla meira undan uppnefninu Skatta-Kata, sem upp kom í kosningabaráttunni síðasta haust, þar sem Vinstri græn voru á harðahlaupum undan ofboðslegum útgjaldaloforðum, sem á daginn kom að þau höfðu enga hugmynd um hvernig mætti efna.

                                 *** 

Hafi síðastliðnar kosningar hverfst um eitthvert eitt mál, þá voru það skattamálin. Og kjósendur kváðu upp sinn dóm. Þegar þeir áttuðu sig á hugmyndum Vinstri grænna og því að þar í flokknum virtist enginn kunna að reikna lengur, þá tættist fylgið af flokknum um þriðjung, fór úr 25% niður í tæp 17% í kosningunum.

                                 *** 

Pólitískt umboð Vinstri grænna til skattahækkana er því ekkert. Aftur á móti var aðeins einn stjórnmálaflokkur, sem lagði áherslu á skattalækkanir og þvertók fyrir skattahækkanir, og gerði það raunar að höfuðatriði kosningabaráttu sinnar. Það var Sjálfstæðisflokkurinn, sem það gerði og jafnframt fékk langflest atkvæði í kosningunum. Það gerði hann undir forystu Bjarna Benediktssonar, sem nú er fjármálaráðherra. Það blasir við að hann hefur ekki umboð kjósenda til þess að láta undan skattagleði Kötu og hins ástsæla leiðtoga VR.

                                 *** 

Um helgina koma Sjálfstæðismenn saman til landsfundar, þar sem mörg hundruð manns af öllu landinu koma saman til þess að ráða ráðum sínum. Það er kjörið tækifæri til þess að senda skýr skilaboð um skattamálin.

Týr er skoðanapistill sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is