*

laugardagur, 29. febrúar 2020
Óðinn
30. september 2019 18:21

Skattalækkanir og stóraukin ríkisútgjöld

„Ríkisreksturinn þenst út á kostnað einkarekstursins. Hverju skilar það?“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Eyþór Árnason

Fjárlagafrumvarpið var lagt fram í byrjun mánaðarins. Það má segja að það séu tvær hliðar á þeim peningi eins og öðrum.

***

Skattalækkanir, sem boðaðar eru í frumvarpinu, eru mikið fagnaðarefni. Lækkun tekjuskatts einstaklinga þá einna helst. Óðinn er að vísu þeirrar skoðunar að skattalækkanir hefðu átt að ná hærra upp í tekjustiganum, og sér ekki sanngirnina eða réttlætið í því að tekjuhærri greiði miklum mun hærra hlutfall tekna sinna í tekjuskatt, og auðvitað miklu hærri fjárhæðir.

***

Skattalækkanirnar nú eru meðal annars gerðar að kröfu verkalýðsfélaganna í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Það er auðvitað jákvætt að verkalýðsfélögin hafi séð ljósið að þessu leyti, þó þau vilji að aðrir en þeirra félagsmenn greiði hærri skatta. Það er auðvelt að krefjast þess að aðrir borgi fyrir sig. Annarra manna peningar og allt það.

***

Tryggingagjald lækkar einnig og verður nú 6,35%. Gjaldið er hins vegar enn mun hærra en það var fyrir hrunið. Til að mynda var gjaldið 5,34% árið 2008, en var lægst 5,23% á þessari öld, árin 2001 og 2002, talsvert áður en bólunnar gætti. Væri það ekki eðlilegt viðmið fyrir metnaðarfullan fjármálaráðherra?

***

Gríðarleg útgjaldaaukning
Það er hins vegar stórfenglegt áhyggjuefni hversu umfang ríkisins mun vaxa milli áranna 2019 og 2020 eða um 7,8%.

***

Í lok árs 2007 voru samþykkt fjárlög fyrir árið 2008. Margir sjálfstæðismenn trúðu ekki sínum eigin augum. Forsætisráðherrann og fjármálaráðherrann voru báðir sjálfstæðismenn, en þeir lögðu fram fjárlagafrumvarp sem gerði ráð fyrir 21,4% hærri ríkisútgjöldum en árið áður. 21,4%!!!

***

Það voru víst fleiri en útrásarvíkingar og ábyrgðarlausir flatskjárkaupendur, sem urðu fjárgnóttarglýju að bráð á þeim einkennilegu tímum.

***

Á verðlagi dagsins í dag áttu ríkisútgjöldin árið 2008 að verða 724,2 milljarðar króna. Óðinn man ekki betur en þessi ár hafi verið ágæt. Jú, Landspítalinn og Ríkisútvarpið kvörtuðu yfir alvarlegum fjárskorti, rétt eins og áratugina á undan. Og eftir.

***

Fjárlagafrumvarp 2020 gerir ráð fyrir 1.005 milljarða útgjöldum. Það er 282 milljörðum hærri útgjöld en árið 2008 eða 39% meiri útgjöld.

***

Sjálfstæðisflokkurinn ber mikla ábyrgð á þessari þróun. Hann hefur stýrt fjármálaráðuneytinu frá 2013, utan þess að Benedikt Jóhannesson var þar í 10 mánuði. Sjálfstæðismenn hafa verið í 24 ár af síðustu 29 árum í fjármálaráðuneytinu. Vissulega hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið einn flokka í ríkisstjórn, en að jafnaði hefur þingstyrkur hans verið mun meiri en samstarfsflokkanna og vægið því átt að vera meira.

***

Ekki þá síst vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð – allt frá stofnun hans árið 1929, í 90 ár (til hamingju með afmælið!) – haft ábyrgð í ríkisfjármálum og hóflega skattheimtu að sínu helsta leiðarstefi. Jafnt í stefnumörkun og kosningabaráttu. Óðinn fagnar sem fyrr segir skattalækkunum hans og þó fyrr hefði verið, en hvað með ríkisumsvifin?

***

Gleymum ekki að eftir hrun var gripið til stóraukinnar skattheimtu og ríkisumsvifa, einmitt til þess að vera til mótvægis við áföllin öll. Um skynsemi þess og árangur má vel deila, en við blasir að hrunið er fyrir löngu liðið. Af hverju er það stjórnvöldum –  og þá ekki síst Sjálfstæðisflokknum, stærsta ríkisstjórnarflokknum –  ekki sérstakt keppikefli að láta þær neyðarráðstafanir ganga að fullu leyti til baka? Eða á bara að leyfa vinstrimönnum að komast upp með þeirra gamalkunna bragð, að láta enga krísu ónotaða?

***

Nú er sjálfsagt að minnast þess að í alþingiskosningunum 2017 kepptust öll framboð við að lofa mikilli útgjaldaaukningu, svo tala mátti um yfirboð. Það var vitaskuld gert í ljósi stóraukinna tekna ríkissjóðs eftir að landið hafði rétt úr kútnum eftir hrunið, flestir bakreikningar þess frá, ferðaþjónustan malaði meira gull með hverju ári og vissulega töluverð uppsöfnuð þörf til innviðafjárfestingar.

***

Öllum mátti þó ljóst vera að þetta lengsta uppgangsskeið íslenskrar nútímasögu myndi taka enda. Sumir töluðu jafnvel um aðgerðir í þá veru, snertilendingar og hvaðeina. Lykilatriði til þess að koma því við er vitaskuld að láta fólk og fyrirtæki halda meiru eftir af tekjum sínum, gefa þeim aukið svigrúm til nýsköpunar, vaxtar og gróða: að leysa úr læðingi efnahagslegan sköpunarkraft almennings og hins frjálsa markaðar. Þar skipta skattalækkanir miklu, en einnig hitt að dregið sé úr umsvifum og afskiptum hins opinbera eða til þrautarvara að hægt sé á endalausum vexti þess.

***

Þetta á enn frekar við nú, þegar slegið hefur svo hressilega í bakseglin (hvað svo sem Hagstofan segir þessa vikuna). Spennan í atvinnulífi og fjármálamörkuðum er nánast áþreifanlegt, en á Alþingi og í Stjórnarráðinu virðist enginn hafa tekið eftir því. Opna bara gullkistuna og bjóða embættismönnum að sækja sér hnefa og lofa almenningi enn meiri rausn í alls konar. Það má kannski deila um mannauðinn á þingi, en þingmenn hafa þó allir gott vald á frumbrellu stjórnmálanna: að múta kjósendum með þeirra eigin peningum.

***

Í því samhengi er einnig rétt fyrir Íslendinga –  bæði ráðherra og almúgann –  að horfa eilítið í kringum sig. Til dæmis til helstu nágranna og viðskiptalanda. Bandaríkin virðast vera að komast að endimörkum vaxtar Trumps, Evrópusambandið virðist vera á leið úr stöðnun í alvarlegan samdrátt (jafnvel Þjóðverjar eru komnir í hreinustu vandræði), og Bretar eru umvafðir óvissu Brexit. Jafnvel Kínverjar eru orðnir órólegir yfir stöðu sinni, en viðskiptaerjur þeirra og Bandaríkjamanna geta valdið verulegum vandræðum á heimsvísu. Halda menn að Ísland sé ónæmt fyrir alþjóðlegum efnahagshremmingum? Eða bara niðursveiflu á helstu mörkuðum og upprunalöndum ferðamanna til Íslands?

***

Vin í eyðimörkinni
Óli Björn Kárason, stofnandi Viðskiptablaðsins og fyrsti ritstjóri, er einn örfárra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem bera hag skattgreiðenda sérstaklega fyrir brjósti. Hinir virðast flestir hæstánægðir með að ausa í kringum sig fjármunum almennings, hæstánægðir með eigið örlæti. Skattgreiðendur fá að blæða fyrir, en hitt er sennilega verra að þeir virðast ekki hafa neinn augljósan og trúverðugan kost í kjörklefanum, sem bæði talar fyrir hóflegum ríkisumsvifum og skattheimtu, og stendur við það. Eins og raunverulegir hægriflokkar gera og eiga að gera. Það er ef til vill ein ástæða þess að fimmtungur kjósenda getur ekki gert upp hug sinn og að Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með aðeins 18,3% fylgi.

***

Í vikulegri grein sinni í Morgunblaðinu bendir Óli Björn á að sú gríðarlega útgjaldaaukning, sem hefur átt sér stað undanfarin ár, hefur mestöll orðið á allra síðustu árum:

Rekstrarútgjöld verða tæplega 26 milljörðum hærri að raunvirði á næsta ári en 2017 og launakostnaður um 16 milljörðum hærri. Í heild stefnir í að útgjöld A-hluta ríkissjóðs verði 205,6 milljörðum hærri að nafnvirði 2020 en 2017, án fjármagnskostnaðar, ábyrgða og lífeyrisskuldbindinga. Þetta er um 139 milljarða eða 18% raunhækkun. Mestu skiptir nær 78 milljarða raunaukning til velferðarmála, þar af 30 milljarðar í heilbrigðismál og liðlega 24 milljarðar í málefni eldri borgara og öryrkja. Enginn sanngjarn maður getur haldið öðru fram en að ríkisstjórnin hafi forgangsraðað í þágu velferðar.

Ég er nokkuð viss um að fáir þingmenn fari yfir þessar staðreyndir í umræðum um fjárlög og spyrji hvort þróun útgjalda fimmtudagur 27. ágúst 2015 fimmtudagur 26. september 2019 umræða Fréttir 15 Skattalækkanir og stóraukin ríkisútgjöld í fjárlagafrumvarpi sé eðlileg. Hvort það er hægt að gera betur en raun ber vitni í rekstri ríkisins er spurning sem flestir forðast. Engu er líkara en óttinn við svarið ráði för. Þess í stað er þess krafist að útgjöld í hitt og þetta verði aukin. Í umræðum um fjárlög breytast margir í jólasveina en skattgreiðandinn stendur lítt varinn.

Óðinn er ekki í nokkrum vafa um að Óli Björn hefði haldið eilítið fastar á penna ef hann væri ekki að gagnrýna sinn eigin formann og forystu. Hann hefði farið af töluverðri hörku í rekstur helstu stofnana, allra kerfanna og ekki síst þeirra stærstu, heilbrigðiskerfisins og mennakerfisins. Og bent mönnum á að endalaus fjáraustur í þessar stofnanir og kerfi skili engum árangri ef þau eru ekki skilvirk. Árangur ríkisstofnana mælist í árangri þeirra, ekki fjárútlátum til þeirra, eins og sumir virðast ímynda sér.

***

Trúin á manninn
Þegar Óðinn las fjárlögin varð honum hugsað til ritsins Velferðarríki á villigötum, sem kom út árið 1981. Þar er að finna úrval greina eftir Jónas H. Haralz efnahagsráðgjafa ríkisstjórnanna 1957-1969. Þar segir Jónas í einni þeirra:

Hvernig stendur á því, að frjálshyggjan er eins lífsseig og raun ber vitni, að hún skuli hafa verið leiðarljós í framförum og hugsjónum Vesturlanda um aldir, hafa lifað eitt mesta blómaskeið sitt í þeim þjóðfélögum einmitt síðustu tvo áratugi og skjóti jafnframt upp kollinum á ný í þjóðfélögum, sem reist eru á forsendum, sem eru andstæðar hennar eigin forsendum? Ef til er nokkurt eitt svar við þessari spurningu, þá tel ég það svar vera þá trú á manninn, sem er grundvallaratriði frjálshyggjunnar, trúna á, að maðurinn sé fær um að starfa, vaxa og þroskast í frjálsu samfélagi við aðra menn, að hann sé fær um að ráða ráðum sínum sjálfur og vera sinnar gæfu smiður. Setji einhver þjóðfélagsstefna manninn í öndvegið, þá er það frjálshyggjan.

***

Það er eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst sjónar á þessu grundvallaratriði. Ríkisreksturinn þenst út á kostnað einkarekstursins. Hverju skilar það? Lélegri menntun, verra heilbrigðiskerfi, lakari vegum. Alveg eins lakari og seinni viðbrögðum við breyttri stöðu, meiri sóun og minni afrakstri. En fyrst og fremst minni gleði. Því það er vitað, að þeir sem trúa á sjálfan sig eru hamingjusamari en hinir sem hafa ekki þá trú og treysta á kerfið um allan sinn velfarnað.

***

Velferðin og velsæld þjóðarinnar hvílir á framtaki og verðmætasköpun þjóðarinnar, fólksins og fyrirtækjanna. Auðlegð þessarar þjóðar verður ekki til í fjárhirslum fjármálaráðuneytisins, þvert á móti skiptir sköpum að hið opinbera haldi að sér höndum, bæði í skattheimtu og umsvifum. Það fer enginn betur með annarra fé en eigið, þannig nýtist vinna og verðmæti best, öllum til góða.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Fjárlög
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.