*

fimmtudagur, 24. september 2020
Ágúst Karl & Ævar Hrafn
3. maí 2020 13:43

Skattalegar afleiðingar vegna starfsmanna erlendis

COVID-19 Skattalegar afleiðingar vegna starfsmanna sem staðsettir eru erlendis.

Úr Leifsstöð.
Aðsend mynd

Á afar skömmum tíma hefur eðlilegur gangur samfélaga um heim allan breyst til muna. Óvissa og takmarkanir hafa orðið daglegt brauð í rekstri flestra fyrirtæki á heimsvísu. Þá fylgir útbreiðslu COVID-19 sérstakar áskoranir fyrir fyrirtæki sem hafa starfsmenn sem ferðast milli ríkja eða sinna störfum sínum erlendis.

Að hverju þarf að huga?

Alþjóðleg starfsemi fyrirtækja og viðskiptaferðir starfsmanna milli ríkja eru oft á tíðum skipulagðar með tilliti til skattalaga þeirra ríkja sem koma við sögu. Skattalegar afleiðingar af fyrirhugaðri starfsemi erlendis eru því oft fyrirséðar enda hafi fyrirtækin sótt sér viðeigandi ráðgjöf til að forðast tvískattlagningu starfsmannanna og/eða fyrirtækisins. Ferðabönn sem fylgt hafa útbreiðslu COVID-19 og tekið hafa gildi víða hafa hins vegar gert það að verkum að fjöldi fyrrnefndra áætlana munu ekki ganga upp.

Dæmi um áhrif COVID-19 á ferðalög starfsmanna erlendis:

 • Auknar ferðatakmarkanir og ferðabönn koma í veg fyrir að hægt sé að staðsetja starfsmenn í hinum ýmsu ríkjum í samræmi við viðskiptaleg markmið.
 • Auknar kröfur til lýðheilsu og smitvarna koma í veg fyrir fundi, ráðstefnur og annarra mikilvægra viðburða í viðskiptalífinu.
 • Aukið landamæraeftirlit og kröfur um sóttkví við komu til ýmissa ríkja torvelda flutning starfsmanna milli ríkja.
 • Ýmis tapaður kostnaður, svo sem vegna öflunar á vegabréfsáritunum eða landvistarleyfum sem síðar eru felld niður eða ferð aflýst.

Hvaða skattalegar afleiðingar getur COVID-19 haft á starfsmenn staðsetta erlendis og skattskyldu fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi?

 • Líkt og á Íslandi hafa mörg ríki frestað gjalddögum á ýmsum skattgreiðslum og jafnvel lengt fresti til að skila framtölum. Ef fyrirtækið þitt er skattskylt annars staðar en á Íslandi er vert að kanna hvort veittur hafi verið aukin frestur til skattskila.
 • Aukin viðvera starfsmanna fyrirtækis í tilteknu ríki getur orðið til að starfsmaðurinn verði skattskyldur í hinu erlenda ríki og jafnvel talist þar skattalega heimilisfastur.
 • Slík viðvera starfsmanna í hinu erlenda ríki getur einnig myndað fasta starfsstöð hjá því fyrirtæki sem hann starfar fyrir og þar með gert fyrirtækið skattskylt í hinu erlenda ríki vegna þeirrar starfsemi sem það heldur þar úti.
 • Starfsmenn sem staðsettir eru erlendis til lengri tíma vegna starfsemi fyrirtækis þar, gætu annars vegar átt í erfiðleikum með að fá framlengingu landvistarleyfis eða hins vegar ekki komist heim í tæka tíð og neyðst til að framlengja landvistarleyfi sitt, með tilheyrandi kostnaði.

Mikilvæg atriði sem vert er að skoða

Hvort sem fyrirtæki þitt heldur úti reglulegri starfsemi í erlendu ríki eða er með starfsmenn í tímabundinni viðskiptaferð erlendis sem hefur raskast vegna COVID-19 er mikilvægt líta til eftirfarandi atriða:

 • Hvaða lagabreytingar eru að eiga sér stað í hinu erlenda ríki?
 • Hverjar eru skattalegu afleiðingar þess að starfsmenn kunni að þurfa dvelja lengur erlendis en upphaflega var gert ráð fyrir?
 • Ef ílengd viðvera starfsmanns hefur skattalegar afleiðingar, hvaða úrræði standa þér til boða til að endurheimta ofgreiddan skatt?
 • Hefur hið erlenda ríki gefið frá sér einhvers konar yfirlýsingu eða staðfest hjálparráð sem gætu tekið til þeirra aðstæðna sem lýst er hér að ofan?

Tillögur OECD um beitingu tvísköttunarsamninga á tímum COVID-19

Þann 3. apríl síðastliðinn gaf Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) út tillögur er vörðuðu skattaleg álitaefni sem upp koma vegna starfsmanna sem staðsettir eru erlendis og þurfa að sæta því að dvöl þeirra ílengist vegna ferðatakmarkana í kjölfar COVID-19. Leiðbeiningarnar voru á þá vegu að ríki ættu að leitast við að túlka tvísköttunarsamninga sína á þá vegu að lengri dvöl starfsmanna innan ríkja vegna COVID-19 hafi ekki skattalegar afleiðingar. Þar að auki hvatti OECD ríkin til að veita viðeigandi undanþágur frá innlendri löggjöf er varða skattskyldu aðila á grundvelli viðveru, ef viðveran stafar af ferðatakmörkunum vegna COVID-19. Nú þegar hafa einhver ríki gefið út tilmæli þess efnis, en þar má nefna  Bretland, Írland og Ástralíu.

Að lokum

Áhrif COVID-19 eru gríðarleg á öllum sviðum atvinnulífsins. Það er mikilvægt að aðlagast hvað varðar alla þætti viðskiptalífsins, svo sem hvernig við nálgumst vinnuna, hvernig við högum samskiptum og hvernig eða hvort við ferðumst. Meiriháttar lagasetningar til að svara áhrifum útbreiðslu veirunnar hafa átt sér í flestum ríkjum heims og frekari breytingar viðbúnar. Nokkur ríki hafa þegar sett lög eða reglur til aðstoðar fyrirtækjum og starfsmanna fyrirtækja sem starfa utan síns heimalands og eða eru fastir erlendis. Lagaumhverfi ríkja um allan heim eru stöðugt að breytast, brýnt er að fylgjast vel með framvindunni og hafa aðgang að nýjustu upplýsingum.

Ágúst Karl Guðmundsson er einn eiganda hjá KPMG Lögmönnum og Ævar Hrafn Ingólfsson er lögfræðingur hjá KPMG Lögmönnum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.