Árið 2018 hækkaði ríkisstjórnin fjármagnstekjuskatt úr 20% í 22%. Tveimur árum síðar boðaði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra endurskoðun álagningar fjármagnstekjuskattsins þannig að horft yrði til þess að skatt­leggja raunávöxt­un í stað nafnávöxt­un­ar, þ.e. að aðeins yrðu skattlagðar fjár­magn­s­tekj­ur um­fram verðbólgu.

Ekkert hefur spurst til þessarar endurskoðunar síðan þá. Þrálát verðbólga sem ekki sér fyrir endann á ætti að vera hvatning til ráðamanna til að ráðast í þessar skynsömu og sanngjörnu breytingar á skattlagningu fjármagnstekna.

Það er þrálátur misskilningur meðal margra stjórnmálamanna og álitsgjafa að skattlagning fjármagns sé hóflegri en launatekna. Það að fjármagnstekjuskatturinn leggist á nafnávöxtun en ekki raunávöxtun fjármagns hefur þau áhrif í núverandi efnahagsumhverfi að skattlagning á raunávöxtun sparnaðar er í kringum 60%.
Þetta eru kaldar kveðjur til fermingarbarna landsins sem fá verðtryggðan sparnað að gjöf í tilefni tímamótanna. Það sama á við öll heimili. Útfærsla fjármagnstekjuskatts dregur úr hvatanum til sparnaðar.

Vaxtahækkanir Seðlabankans undanfarið eru meðal annars hugsaðar sem hvati fyrir heimili og fyrirtæki til að spara í stað þess að neyta. Þetta á að draga úr þenslu í hagkerfinu og skjóta stoðum undir stöðugleika. Það ætti því að vera ríkisstjórninni kappsmál að breyta útfærslu skattlagningar fjármagnstekna þannig að skatturinn nái aðeins til raunávöxtunar, sem er jú þegar allt kemur til alls hin raunverulega ávöxtun þar sem restin af nafnávöxtuninni gerir ekki annað en að viðhalda virði hinnar undirliggjandi eignar.

Í raun og veru virðist ríkisstjórnin ekki hafa mikinn áhuga á að ráðast í aðgerðir sem gætu lagt Seðlabankanum lið við að koma á verðstöðugleika. Boðað var í nýrri fjármálaáætlun að tekjuskattur fyrirtækja yrði hækkaður um eitt prósentustig tímabundið og yrði því 21% allt næsta ár. Breytingin mun leiða til þess að raunverulegur skattur á útgreiðslu arðs á næsta ári verði ríflega 38%. Það væri ágætt að þeir sem góla hæst um að fjármagnstekjur séu ekki skattlagðar í sama mæli og launatekjur finndu í gögnum Skattsins hversu hátt hlutfall launamanna borgar svo hátt skatthlutfall þegar búið er að leiðrétta fyrir áhrifum persónuafsláttar, tryggingagjalds og lífeyrisgreiðslna enda er ekki um tekjuskatt í að ræða í þeim tilfellum.

Þessi hækkun letur vel rekin fyrirtæki frá því að greiða út arð. Slíkar arðgreiðslur eru sérstaklega eftirsóknarverðar á verðbólgutímum ef innistæða er fyrir þeim. Ástæðan er einfaldlega sú að arðgreiðslufyrirtæki veita almenningi tækifæri til þess að verja sparnað sinn sem annars gæti rýrst á neikvæðum vöxtum. Það er umhugsunarefni að ríkisstjórnin skuli ekki sýna þessu skilning. Ekki síst í ljósi þess að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri benti á það nýlega að arðgreiðslur fyrirtækja á borð við bankana væru til þess að fallnar að styrkja markmið peningastefnunnar.

Það er full þörf á að ræða um skattlagningu sparnaðar á þessum verðbólgutímum. Eins og staðan er í dag þá dregur skattkerfið úr hvatanum til þess að spara. Heimili landsins hafa í vaxandi mæli farið með sparnað sinn inn á verðbréfamarkaðinn á undanförnum árum. En á verðbólgutímum eru arðgreiðslufyrirtæki og verðtryggð skuldabréf líklegust til að þess að verja sparnað landsmanna. Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast miða að því að koma í veg fyrir þessa þróun. Í stað þess er sparnaðurinn skattlagður í ríkara mæli og skatttekjurnar renna beint í sívaxandi útgjöld ríkissjóðs og auka þannig á þensluna.