Í umræðu um tekjuskatt einstaklinga í aðdraganda kosninga er öllu snúið á haus. Lágtekjufólk býr ekki við háa skattbyrði, enda á það ekki að gera það. Þeir sem hærra standa í tekjustiganum skila sannarlega sínu til samfélagsins og búa við mun hærri skattbyrði, hvort sem talið er í prósentum eða krónum. Það blasir við að tekjuskattskerfið á Íslandi er öflugt við að jafna kjör í landinu og virkar feikivel í þeim tilgangi.

Jöfnunaráhrif tekjuskattskerfis

Tekjuskatta verður að skoða í samhengi við heildartekjur og vaxta- og barnabætur og aðrar tekjutilfærslur ríkisins. Tekjuskattsgreiðslur, að frádregnum vaxta- og barnabótum, leiða í ljós mikil jöfnunaráhrif skattkerfisins. Tekjuhæstu 10% framteljenda greiða um 50% af öllum tekjuskatti til samneyslu og fjárfestinga ríkisins. Næstu 10% greiða 22% alls tekjuskatts. Lægstu fimm tekjutíundirnar, sem eru framteljendur með heildartekjur, að undanskildum fjármagntekjum, undir 490 þúsund krónum á mánuði, greiða 1% af öllum tekjuskatti. Tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins eru þannig miklu meiri en fólk gerir sér almennt grein fyrir.

Á það hefur verið bent að upp úr 1990 hafi lægstu laun verið skattfrjáls. Þá voru lágmarkslaun töluvert lægri en nú. Á árinu 1992 voru lágmarkslaun 133 þúsund krónur á mánuði á verðlagi dagsins í dag en eru nú 351 þúsund krónur á mánuði, eða næstum þrefalt hærri. Bætt lífskjör hafa leitt til þess að á síðustu þremur áratugum hefur framteljendum, sem greiða tekjuskatt, fjölgað hlutfallslega. Það er heilbrigðismerki að fleiri launamenn geti tekið þátt í fjármögnun samneyslunnar.

Afflutningur veldur glundroða

Afflutningi stjórnmálaflokka á virkni tekjuskattkerfisins er ætlað að rugla fólk í ríminu og skapa glundroða í umræðu um skattamál. Á Íslandi eru greidd há laun og næstum hvergi er tekjujöfnuður meiri. Almenn samstaða er um að styðja við þau sem hafa minnst milli handanna og byggir skattkerfið á því að skattbyrði aukist með hærri launum og auknum kaupmætti.

Stjórnmálaflokkarnir leggja fram tillögur sínar í efnahagsmálum í aðdraganda kosninga. Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hafa birt útreikninga tengda þeim sem finna má á vefsíðum samtakanna.

Mikilvægt er að allar tillögur um skattkerfisbreytingar, stórar sem smáar, séu settar í tölulegt samhengi. Tekjur ríkissjóðs myndu skerðast um 162 milljarða króna ef lágmarkslaun yrðu gerð skattfrjáls, líkt og var um skamma hríð fyrir þremur áratugum. Það svarar til um 80% af öllum tekjuskattgreiðslum einstaklinga til ríkisins. Slík skattalækkun er óraunhæf því tekjutap ríkisins yrði tæpast bætt upp í tekjuskattkerfinu án gífurlegra skattahækkana, nema stefnt sé að samsvarandi niðurskurði samneyslunnar sem raunar enginn hefur lagt til.

Bergmálshellir

Ósannindi verða ekki sannleikur þótt þau séu endurtekin. Staðreyndir málsins eru þessar:

Á Íslandi eru greidd ein hæstu lágmarks- og meðallaun í heimi. Báðar stærðir eru leiðréttar fyrir kaupmætti og taka þannig tillit til hás framfærslukostnaðar á Íslandi. Auk þess hefur tekjujöfnuður aukist á undanförnum 15 árum. Hér ríkir einn mesti tekjujöfnuður í heimi. Ísland er með næstmesta tekjujöfnuð í Evrópu að teknu tilliti til jöfnunaráhrifa skattkerfa. Hin Norðurlöndin skipa 5.-11. sæti í þessum samanburði .

Byggja verður á staðreyndum þegar tekist er á um efnahags- og skattamál.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.