*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Leiðari
3. maí 2019 10:18

Skattar í botni

Þótt útsvar og fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði séu í botni var afkoma Reykjavíkurborgar undir væntingum.

Haraldur Guðjónsson

Reykjavíkurborg birti í vikunni ársreikning fyrir síðasta ár. Þegar fjallað er um fjármál sveitarfélaga þá er nauðsynlegt að vera með skilgreiningar á hreinu.

Rekstur þeirra skiptist í A-hluta og B-hluta. A-hluti er sveitarsjóður, sem merkir aðalsjóð sveitarfélags og fjármagnaður er að hluta til eða að öllu leyti með skatttekjum. Í tilfelli Reykjavíkurborgar er A-hluti borgarsjóður, sem heldur utan um rekstur fagsviða og svokallaðs Eignasjóðs. Til B-hluta teljast stofnanir sveitarfélags, fyrirtæki og aðrar rekstrareiningar, sem reknar eru sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar og fjármagnaðar eru með þjónustugjöldum. Í tilfelli Reykjavíkurborgar tilheyra eftirfarandi fyrirtæki B-hlutanum: Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf.

Í ársreikningum sveitarfélaga, eins og Reykjavíkurborgar, eru annars vegar rekstrartölur fyrir A-hluta teknar saman og hins vegar A- og B-hluta eða samstæðuna. Fyrir jafnstórt sveitarfélag og Reykjavík gefa tölur fyrir samstæðuna bestu myndina af rekstri borgarinnar, því eins og bent hefur verið á þá tekur hún þátt í rekstri mjög stórra fyrirtækja, sem geta haft töluverð áhrif á afkomuna. Borgin á mismunandi stóra hluti í þessum fyrirtækjum en í stærsta fyrirtækinu, Orkuveitu Reykjavíkur, á borgin 93,5% hlut. Rekstrartekjur Reykjavíkurborgar námu 180 milljörðum króna í fyrra. Þar af námu skatttekjur ríflega 92,1 milljarði króna samanborið við 84,5 milljarða árið 2017. Aðrar tekjur námu 80,5 milljörðum í fyrra samanborið við 81,2 milljarða árið 2017. Þessu til viðbótar fékk borgin 7,4 milljarða króna framlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í fyrra.

Af þessu má sjá að skatttekjur borgarinnar jukust um 7,6 milljarða króna á milli ára eða 9%. Til samanburðar má geta þess að launakostnaður, sem er stærsti hluti rekstrargjalda borgarinnar, nam 77,1 milljarði í fyrra og hækkaði um 2,4% frá fyrra ári.

Þessar háu skatttekjur borgarinnar eiga ekki að koma borgarbúum á óvart því Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem er með útsvarshlutfallið í botni, eða 14,52%. Reykjavíkurborg er jafnframt það sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem innheimtir hæstu fasteignagjöldin á atvinnuhúsnæði. Með öðrum orðum þá er borgin með þau gjöld í botni eða 1,65%, sem þýðir að hún lætur ekki nægja að innheimta 1,32% heldur nýtir sér heimild í lögum til að beita 25% álagi á álagningarprósentuna.

Hverju skilaði síðan þessi aukna skattheimta? Jú, hún skilaði því að 12,3 milljarða króna afgangur varð af samstæðu borgarinnar. Í tilkynningu á heimasíðu Reykjavíkurborgar segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að niðurstaðan sé ánægjuleg. En er það virkilega svo? Fjárhagsáætlun borgarstjórnar gerði ráð fyrir því að 17,8 milljarða afgangur yrði af rekstri samstæðunnar. Raunin varð hins vegar sú að afkoman varð 5,5 milljörðum lakari, en fyrir þá upphæð mætti til dæmis endurbyggja 12 bragga.

„Góðu fréttirnar“ fyrir borgarmeirihlutann eru að fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar að meðaltali um 17% á milli áranna 2018 og 2019, sem þýðir að borgin mun innheimta enn meiri skatta af fyrirtækjum á þessu ári. Viðskiptablaðið er á því að endurskoða þurfi tengsl fasteignamats og fasteignaskatta einfaldlega af þeirri augljósu ástæðu að tekjur fyrirtækja aukast ekki sjálfkrafa við það eitt að Þjóðskrá hækki fasteignamat.

Í tilkynningu borgarinnar vegna ársreikningsins segir: „Helstu frávik frá áætlun samstæðu má rekja til lægri tekjufærðra matsbreytinga fjárfestingaeigna Félagsbústaða og hærri fjármagnsgjalda samstæðunnar vegna gangvirðisbreytinga innbyggðra afleiða í raforkusamningum hjá Orkuveitu.“ Fyrst Orkuveitan er hér nefnd má alveg nefna að rekstraráætlun Orkuveitu Reykjavíkur, sem hrint var í framkvæmd eftir hrun og gekk undir heitinu „planið“, leiddi til þess að raforkuverð til íbúa hækkaði um tugi prósenta og langt umfram vísitölu neysluverðs.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.