*

laugardagur, 6. júní 2020
Óðinn
26. september 2017 13:31

Skattar, ofbeldi og þjófnaður

Allt of algengt er að stjórnmálamenn sjái aðeins „tekjuaukningu ríkissjóðs“ þegar rætt er um hækkun skatta.

Haraldur Guðjónsson

Það á vart af kosningalúnum almúganum að ganga. Annað haustið í röð á að ganga til Alþingiskosninga og svo hálfu ári síðar verða sveitarstjórnarkosningar. Óðinn ætlar ekki að svo stöddu að fjalla um ástæður stjórnarslitanna, enda er þeim gerð góð skil í öðrum pistlum í blaðinu. Skattlagning og eðli hennar er til umræðu í pistli Óðins í dag.

                                               ***

Sama hvaða önnur mál eru til umræðu eru skattar alltaf ofarlega í kosningabaráttunni og er ekkert sem bendir til þess að þessar kosningar verði undantekning þar á. Margir flokkar munu vilja hækka skatta; þótt ekki vilji þeir endilega hækka sömu skattana eða hækka þá jafnmikið. Færri munu tala fyrir skattalækkunum.

                                               ***

 „Skattar eru ofbeldi”

Líklega munu þó afar fáir stjórnmálamenn þora að fara inn á það jarðsprengjusvæði sem eðli skattlagningar er. Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, brenndi sig á því síðasta haust að hafa talað um skattlagningu sem ofbeldi. Var hann mjög snupraður fyrir þessa skoðun sína og má segja að Illugi Jökulsson hafi talað fyrir stærstan hluta gagnrýnenda Pawels þegar hann sagði skatta ekki vera ofbeldi heldur nokkurs konar samfélagssáttmála. „Við höldum úti þessu samfélagi með samkomulagi, ekki ofbeldi,“ skrifaði Illugi á Facebook.

                                               ***

Jamie Whyte, doktor í heimspeki og yfirmaður rannsóknardeildar Institute of Economic Affairs, gerir þessa deilu um eðli skattlagningar að umfjöllunarefni í nýlegri grein.

                                               ***

Þar er hann reyndar að fjalla um aðeins aðra hlið á efninu, þ.e. hvort líta megi á skattlagningu sem þjófnað.

                                               ***

Í sumra augum er svarið einfalt. Skattlagning er ekki þjófnaður vegna þess að þjófnaður er ólöglegur og refsiverður en skattheimta er lögleg. Skattheimtumenn fara að lögum á meðan þjófar starfa utan laganna.

                                               ***

Þessi röksemdarfærsla er hins vegar ekki líkleg til að sannfæra þá sem telja skattlagningu vera þjófnað. Þeir segja að það sem geri skatta að þjófnaði sé einmitt ofbeldið, eða öllu heldur hótunin um beitingu ofbeldis, sem að baki skattheimtunni liggur. Fyrrnefndi hópurinn telur þennan ofbeldispunkt hins vegar ekki nægilega sannfærandi.

                                               ***

Hvað eiga skattar og þjófnaður sameiginlegt?

Nálgun Whyte er áhugaverð, en hann skoðar hvað það er sem gerir þjófnað siðferðilega rangan og hvort skattheimta eigi þessa eiginleika sameiginlega með þjófnaði.

                                               ***

Augljósasti ókostur þjófnaðar er tapið sem fórnarlamb þjófsins verður fyrir. Ef einhver stelur sjónvarpinu þínu þá ert þú einu sjónvarpi fátækari. En gróði þjófsins vegur þetta tap upp. Hann er einu sjónvarpi ríkari. Við það að sjónvarpið var flutt frá þér til þjófsins hefur engin áhrif á auð í samfélaginu öllu.

                                               ***

Hið sama á við um skattheimtu, en við hana flyst fjármagn frá skattgreiðendum til ríkissjóðs og þaðan til þeirra sem ríkið afhendir féð. Hvað þetta varðar eru þjófnaður og skattheimta samkynja og jafn „skaðlaus”.

                                               ***

Þetta er að sjálfsögðu barnaleg einföldun. Þjófnaður hefur sannarlega skaðleg áhrif á samfélagið. Þjófnaður hefur fyrir utan það mikil og skaðleg áhrif á fórnarlambið. Óðinn vill alls ekki að lesendur gleymi þeirri staðreynd, þótt hann sé að skoða þjófnað og skattheimtu á samfélagsbasís.

                                               ***

Sokkapar þjófsins

Fyrst er hægt að nefna að í stað þess að verja tíma sínum og orku í að stela sjónvarpinu hefði þjófurinn getað gert eitthvað uppbyggilegt – til dæmis að prjóna sokkapar. Hefði hann gert það hefði samfélagið verið einu sokkapari ríkara.

                                               ***

Skattheimta er að sama skapi óhagkvæm. Alls vinna tæplega 500 manns hjá Ríkisskattstjóra og Tollstjóra við innheimtu opinberra gjalda. Þetta fólk framleiðir ekkert, heldur ver tíma sínum og orku alfarið í að færa verðmæti sem þegar eru til frá skattgreiðendum til ríkissjóðs.

                                               ***

Það er einnig samfélagslegur kostnaður fólginn í því að reyna að koma í veg fyrir þessa tilfærslu verðmæta. Rimlar fyrir glugga, þjófavarnarkerfi, sterkbyggðir lásar og starfsmenn við öryggisgæslu kostar allt peninga, sem ekki þyrfti að eyða ef ekki væri fyrir þjófa.

Hvað varðar skattheimtu má gróflega áætla að um helmingurinn af vinnu endurskoðenda í þjóðfélaginu felist í því annars vegar að lágmarka skattgreiðslur umbjóðenda og hins vegar í því að uppfylla kröfur skattayfirvalda og löggjafans. Án skattheimtu gæti allt þetta snjalla fólk gert eitthvað uppbyggilegra, samfélaginu til heilla.

                                               ***

Loks ber að nefna ekki eins augljósan kostnað sem þjófnaður ber með sér. Þjófnaður hækkar rekstrarkostnað fyrirtækja og dregur þar með úr viðskiptum í hagkerfinu. Búðareigandi þarf að vega upp á móti „vörurýrnun“ vegna búðahnupls með því að hækka verð á vörum sínum.

Einhverjir viðskiptavinir, sem hefðu keypt af honum vörur fyrir þessa hækkun gera það ekki eftir hækkunina. Í hverfum þar sem þjófnaður er landlægt og víðtækt vandamál geta verslanir og fyrirtæki stundum ekki starfað og leggja upp laupana og löghlýðnir íbúar hverfanna þurfa þá að fara í önnur hverfi til að kaupa nauðsynjar. Þessi ferðalög fela svo í sér sjálfstæðan kostnaðarauka fyrir viðkomandi.

                                               ***

Fleygur milli kaupenda og seljenda

Skattar hafa svipuð neikvæð áhrif á viðskipti. Whyte tekur dæmi af tveimur einstaklingum, sem kalla mætti Jón og Gunnu. Jón er tilbúinn að greiða allt að 1.000 krónur á tímann fyrir að láta einhvern hreinsa illgresi úr blómabeðinu sínu. Gunna er til í að hreinsa blómabeðið fyrir að minnsta kosti 900 kónur. Augljóslega munu þau geta komist að samkomulagi sem þau bæði eru sátt við.

En gefum okkur nú að tekjuskattur sé 20%. Til að geta greitt Gunnu þau laun sem hún er tilbúin að sætta sig við eftir skatt þá þarf Jón að greiða meira en hann er tilbúinn að gera. Þau geta ekki lengur náð samkomulagi. Þarna hefur skattheimtan þau áhrif að draga úr viðskiptum milli aðila sem annars hefðu verið þeim báðum hagkvæm.

Með því að reka fleyg á milli þess sem seljendur eru tilbúnir að taka við fyrir vöru sína og þjónustu og þess verðs sem kaupendur eru tilbúnir að greiða þurrkar skattheimta út ákveðinn hluta af starfsemi í hagkerfinu. Því hærri sem skatturinn er því alvarlegri verða þessi áhrif.

                                               ***

Með öðrum orðum eru neikvæð áhrif skattheimtu nákvæmlega þau sömu og neikvæðu áhrifin sem af þjófnaði stafa.

                                               ***

Það þýðir hins vegar ekki að skattar og skattheimta hafi ekki kosti sem þjófnaður býr ekki yfir. Augljósasti hugsanlegi kosturinn er ef ríkið ver skattfé í þjónustu sem a) væri annars ekki veitt og b) er verðmætari en skattféð sem þarf til að veita hana. Löggæsla, dómstólar, varnarmál og annað slíkt eru dæmi um slíka þjónustu. Framleiðsla á Útsvari Ríkissjónvarpsins er það ekki.

                                               ***

Markmiðið með þessum skrifum er ekki að sannfæra lesendur um að skattar og þjófnaður séu einn og sami hluturinn. Vonandi verða þessi skrif hins vegar til þess að fleiri hugsi aðeins meira um skaðleg áhrif skattheimtu. Allt of algengt er að stjórnmálamenn sjái aðeins „tekjuaukningu ríkissjóðs“ þegar rætt er um hækkun skatta, en hugsi ekkert út í neikvæð áhrif skattheimtunnar. Það þarf að breytast.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.