*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Óðinn
23. janúar 2018 13:29

Skattar og kerfin

Vandi íslenska heilbrigðiskerfisins er pólitískt stefnuleysi og stjórnunarvandi, en ekki fjárhagsvandi.

Haraldur Guðjónsson

Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði að lækkun skatta sé ekki brýnasta málið í dag, sérstaklega í ljósi efnahagsuppsveiflunnar, á Skattadegi SA, Viðskiptaráðs og Deloitte á þriðjudag. 

                                            ***

Orðrétt sagði formaðurinn: „Þegar við sjáum vöxt í einkaneyslunni, mikinn hagvöxt og lítið atvinnuleysi þá segir það sig sjálft að ekki sé brýnast að lækka skatta. Það þarf ekki að hella olíu á bál sem brennur vel.“ 

                                            ***

Skattar hækkar

Skattar á einstaklinga hafa hækkað verulega á síðustu árum. Árið 1988 var staðgreiðsluhlutfallið 35,2%. Þar af var tekjuskattur 28,5% og meðalútvar 6,7%. 

                                            ***

Árið 2018 er staðgreiðsluhlutfallið 36,94% af tekjum undir 893 þúsund krónur og 46,24% yfir þeirri fjárhæð. Meðalútsvarið er í dag 14,44%. 

                                            ***

Fjármagnstekjuskattur er nú 22%. Sá sem fjárfestir í atvinnurekstri sem rekið er sem einkahlutafélag eða hlutafélag greiðir 20% tekjuskatt í gegnum félagið. Því til viðbótar greiðir hann fjármagnstekjuskattinn ef hann vill fá arðinn af fjárfestingunni. Þá hefur hann greitt 37,6% í tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt. 

                                            ***

Það er því lítill munur á sköttum þess sem er með lægri tekjur en 893 þúsund og þeim sem tekur áhættu með fjármuni sína og fjárfestir í fyrirtækjarekstri.

                                            ***

Hátekjuskatturinn á venjulegt fólk 

Hverjir eru það sem lenda í hátekjuskattinum, tekjum umfram 893 þúsund? Þar eru vissulega forstjórar stærri og meðalstórra fyrirtækja. En þar eru líka þeir sem leggja á sig mikla vinnu, dag og nótt, til að koma þaki yfir sig og fjölskyldur sína og greiða niður skuldir. Einfaldlega venjulegt fólk. 

                                            ***

Óðinn er algjörlega ósammála Bjarna Benediktssyni. Það kann að vera að það sé ekki bráðnauðsynlegt að lækka skatta á næstu vikum, enginn bráðavandi eins og á Landspítalanum, en skattar eru of háir, allt of háir. 

                                            ***

Bráðavandinn 

Ágætt viðtal var við hjartaskurðlækninn Skúla Gunnlaugsson í Morgunblaðinu um síðustu helgi. Þar barst talið meðal annars að íslenska heilbrigðiskerfinu. 

                                            ***

„Stefnuleysið í heilbrigðismálum hér heima er mikið og einkennist oft af tilviljanakenndum ákvörðunum. Það þarf að fá þá bestu í faginu til að skipuleggja þetta frá grunni. Það tekur ekki langan tíma, kannski svona þrjár vikur. Það yrði mikil framför. Það þarf að ákveða hver gerir hvað og hvert skuli haldið svo nýta megi þessa miklu fjármuni betur en gert er í dag.“ 

                                            ***

Er bandaríska kerfið betra? 

„Umræðan er komin út og suður. Það er engin skynsemi í henni, því miður, og það er vitlaust gefið. Ég kem úr bandarísku heilbrigðiskerfi, sem oft er talað um að sé hið ósanngjarnasta í heimi og talað um að þeir fátæku fái enga þjónustu, sem er alrangt. Ef þú ert fátækur í Bandaríkjunum hefurðu það miklu betra „heilbrigðislega“ séð en hér á landi. Ég veit það af því ég hef verið þar,“ segir Skúli og útskýrir hvað hann meinar með að það sé „vitlaust gefið“. „Á Landspítalanum snýst allt um það í rauninni að gera sem minnst; spítalinn er á föstum fjárlögum þannig að hann má ekki fara yfir þau. En úti í bæ er þetta akkúrat öfugt; því meira sem þú gerir, því betra. Þessi kerfi eiga að vera í samkeppni og eru þannig víða um heim, en hér gerir annað kerfið sem minnst en hitt sem mest. Spítalinn þarf líka að fá meira fjármagn til að gera meira; núna er engin hvatning til að gera sem mest.“ 

                                            ***

Þarna bendir Skúli á meginvanda hins ríkisrekna heilbrigðiskerfis, skortinn á samkeppni. Það er einnig merkileg yfirlýsing að bandaríska heilbrigðiskerfið sé betra en það íslenska. 

                                            ***

Ekkert eftirlit? 

Skúli telur að eftirlit með einkarekstrinum sé lítið og ríkið greiði reikninginn án þess að spyrja spurninga. 

                                            ***

„Við erum með kerfi þar sem er einkarekstur og það er mjög gott og þjónustan er bæði góð og ódýr og borgar sig ábyggilega. En hún er eftirlitslaus. Og það er vandamálið. Það er ekkert eftirlit með því sem verið er að gera; það er verið að gera aðgerðir og ríkið borgar. Þetta er ekki læknum að kenna, heldur ríkinu að vera ekki með eftirlitskerfi og býður upp á misnotkun. 

Þetta er ekki hægt í Bandaríkjunum, ég gat ekki gert neina aðgerð eða rannsókn án þess að spyrja fyrst.Það er augljóst að verið er að gera aðgerðir úti í bæ sem á ekki að vera að gera. Landlæknir á að vera með eftirlit. Eins og þegar silikonpúðarnir voru farnir að leka voru ekki til neinar upplýsingar neins staðar. Þetta er meingallað kerfi. Við verðum að vita hvað við erum að gera. Og fyrir vikið er tortryggni.“ 

                                            ***

Það er fátítt að þeir sem starfa í heilbrigðiskerfinu tjái sig um rekstur þess, nema stjórnendur sem eru að væla um meiri pening. Margar ástæður eru fyrir því. Ein er sú að aðeins einn Landspítali er í landinu. Ef yfirmaðurinn er ósammála eða óánægður er erfitt að finna nýtt starf hér á landi. Það er mikill galli. 

                                            ***

Vandi íslenska heilbrigðiskerfisins er pólitískt stefnuleysi og stjórnunarvandi, en ekki fjárhagsvandi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.