Það þarf ekki að kafa djúpt til að finna tvískinnung í umræðunni um fjárfestingar nokkurra Íslendinga í gegnum lágskattasvæði. Sama fólk og hneykslaðist yfir því að einhverjir hafi reynt að lágmarka skattgreiðslur sínar með lögmætum hætti fagnaði áformum um að hækka endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.

Það er nefnilega ekki sama í hvaða atvinnugrein Jón og Gunna eru, því það eru ekki allir jafnir fyrir skattayfirvöldum. Eða kannski er réttara að segja John og Jane, því Ísland er lágskattaríki fyrir erlend stórfyrirtæki. Álfyrirtækin borga lægri skatta hér en önnur fyrirtæki og gengið er skrefinu lengra gagnvart kvikmyndaframleiðendum því þeir fá kostnað sinn endurgreiddan.

Á sama tíma og landið er skattaskjól fyrir þessi fyrirtæki þá er það skattaberangur fyrir sjávarútveg og ferðaþjónustu. Sérstakt auðlindagjald er lagt á sjávarútveginn. Á tyllidögum er sagt að það sé endurgjald fyrir afnot af auðlindinni, þótt það sé óútskýrt af hverju ríkissjóður telur sig eiga auðlindina eða hvað hann lagði af mörkum til að skapa hana.

Þegar vinstrimenn eru spurðir hvernig þeir ætli að fjármagna útgjöldin sem þeir lofa fyrir kosningar þá nefna þeir gjarnan að hækka mætti auðlindagjaldið. Það sýnir glögglega að það er þá ekki endurgjald, heldur bara enn einn skatturinn. Nú er það þjóðaríþrótt sumra Íslendinga að láta sér detta í huga nýjar og frumlegar leiðir til að skattleggja ferðaþjónustuna.

Flestar eiga þær það sameiginlegt að vera líklegar til að draga úr eftirspurn sem þýðir færri störf og minni skatttekjur. Rökin fyrir skattaafslætti gagnvart sumum greinum eru að hann skili sér í störfum, hagvexti, gjaldeyristekjum og öðrum sköttum. Það er auðvitað alveg hárrétt. En af hverju dettur þá engum í huga að lækka skatta á öll fyrirtæki og gæta jafnræðis á milli starfsgreina þannig að allir greiði sömu lágu, flötu og einföldu skattana?