Hér var í liðinni viku fjallað um svarta skýrslu Ríkisendurskoðanda um Ríkisútvarpið. Þar var af miklu meira en nógu að taka, raunar svo að pistlahöfundur varð að stilla sig í þessu afmarkaða rými hér á síðunni. Þó verður yðar einlægur að játa að honum hafa þótt viðbrögðin furðudaufleg.

Hugsanlega er það vegna þess að fólk er orðið fullkomlega ónæmt fyrir hryllingssögum úr rekstrinum í Efstaleiti. Nú eða uppteknara yfir spillingunni á öðrum vígstöðvum. Hvernig sem því er farið er þó nauðsynlegt að taka þessari skýrslu af þeirri alvöru sem sæmir þessum umfangsmesta fjölmiðli landsins, sem rekinn er á reikning skattgreiðenda í þokkabót.

***

Inntak þessarar skýrslu er raunar svo alvarlegt, að það er nánast óskiljanlegt að gervöll stjórn Ríkisútvarpsins hafi ekki sagt af sér. En nei, þrátt fyrir að hafa fínkembt fjölmiðlana undanfarna viku er þar hvergi að finna fregnir um afsögn hennar.

Þar sitja þau Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Mörður Árnason, Jón Ólafsson, Guðlaugur G. Sverrisson, Brynjólfur Stefánsson, Lára Hanna Einarsdóttir, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Birna Þórarinsdóttir, Kári Jónasson og Valgeir Vilhjálmsson í aðalstjórn, en þau Jón Jónsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Erlingur Sigurðarson, Sigríður Valdís Bergvinsdóttir, Sjöfn Þórðardóttir, Mörður Ingólfsson, Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Björn Gunnar Ólafsson, Jóhanna Hreiðarsdóttir og Birna Ósk Hansdóttir í varastjórn. Sem fastast.

***

Ekki síst sætir það þó furðu hve lítið hefur verið rætt um langalvarlegasta þátt málsins, sem lýtur að lögbrotum Ríkisútvarpsins sem viðgengist hafa í hartnær tvö ár. Og ekki þannig að það hafi aðeins gerst fyrir einhverja handvömm eða athugunarleysi, því sérstök athygli hefur verið vakin á því á Alþingi og í fjölmiðlum, þar á meðal á þessum stað í september 2018.

Í lögum um Ríkisútvarpið segir nefnilega að því beri að stofna dótturfélög um samkeppnisrekstur og skilja þannig alfarið á milli hans og almannaþjónustu. Það átti í síðasta lagi að gerast 1. janúar 2018, en sú var nú alls ekki raunin. Öðru nær, því RÚV herti mjög sókn sína á samkeppnismarkaði, en rak það allt undir sama þaki og kennitölu.

***

Það var svo vitaskuld enn verra að Magnús Geir Þórðarson, þáverandi útvarpsstjóri fór fram með gorgeir og undanbrögðum, þegar að þessu var spurt, sagði að finna þyrfti lausn á ýmsum lagalegum álitaefnum áður en „næstu skref“ yrðu tekin og bar fyrir sig að að þótt lagagreinin hafi tekið gildi í upphafi árs, þá væri skýrt í bráðabirgðaákvæði í lögunum um að hann mætti nú samt hafa þetta svona, tja alveg þar til hann kæmi því í verk að stofna þessi dótturfélög.

Fyrir utan þetta órökrétta þvaður um að RÚV væri skylt að stofna dótturfélög um samkeppnisreksturinn en þó ekki fyrr en hann stofnaði þau, þá bjó tómt fals þarna að baki. Jú, það voru bráðabirgðaákvæði sem heimiluðu að brugðið væri, en í breytingum á lögunum í desember 2015, kom skýrt fram að dótturfélagaákvæðið tæki gildi 1. janúar 2018.

RÚV fékk tvö ár til að uppfylla þetta ákvæði og engin frávik leyfð. Samt gerði RÚV ekkert með það og braut lögin bara eins og því sýndist og hentaði. Það gerir þetta ekki betra, að Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra ræddi þetta mál í fjölmiðlum í fyrra og af orðum hennar þar er ljóst að þetta vafðist ekki fyrir ráðherranum. Samt gerðist ekkert.

***

Öll eigum við að fara að lögum, á því hvílir sjálft þjóðskipulagið: Með lögum skal land byggja. En þegar ríkið og stofnanir þess fara ekki að lögum nema eins og hentar, þá er voðinn vís.

***

Þetta með það hvort tiltekinn rekstur, í þessu tilviki samkeppnisrekstur, er rekinn í sérstöku dótturfélagi eða ekki, er ekki bara einhver krafa löggjafans eða ríkisendurskoðanda um snyrtimennsku í bókhaldi til þess að samkeppnissjónarmið virðist virt og allt sé uppi á borðum og það réttum borðum. Nei, þar undir býr nefnilega annað og enn veigameira atriði.

Að því er raunar vikið í skýrslunni, þó það virðist hafa farið fram hjá mörgum, en þar er sennilega loks fundin skýringin á þessari þrákelkni Ríkisútvarpsins, nei, einbeitta brotavilja, svo það sé nú bara sagt hreint út. Ástæðan fyrir því að Ríkisútvarpið hefur barist á móti því með oddi og egg, leynt og ljóst, að fara einfaldlega að lögum og stofna dótturfélög um samkeppnisreksturinn, er eins lágkúruleg og hugsast má.

Í skýrslunni frá renda kemur nefnilega fram að væri samkeppnisreksturinn færður í dótturfélög eins og lög gera ráð fyrir, þá hefði almannaþjónustan ekki lengur getað fært sér í nyt virðisauka-innskatt og skattgreiðslur því aukist um 400-500 m.kr. árlega. Nú hafa þessi lögbrot Ríkisútvarpsins staðið allt frá 1. janúar 2018 (eftir að allir frestir voru fengnir) og gróði Ríkisútvarpsins því orðinn tæpur milljarður króna.

Það munar um minna, ekki síst þegar reksturinn er í þeim molum, sem raun ber vitni í Efstaleiti. Og þá er allt lagt í sölurnar, borðsilfrið selt, lagst í lóðabrask, lög brotin og farið í kringum skattinn. Ætli Kveikur fjalli nokkuð um svoleiðis svínarí?

***

Fyrst fjölmiðlarýnir er farinn að minnast á slíka fjarstæðu og fantasíu, þá skulum við ímynda okkur eitt augnablik tilfallandi einkafyrirtæki, þar sem stjórnendur léku sama leikinn. Það myndi heita lögbrot og skattasniðganga, jafnvel skattsvik. Og prókúruhafinn og forstjórinn teknir til rannsóknar bæði hjá lögreglu og skattrannsóknastjóra, sennilega komnir í steininn áður en næsta fjárlagaumræða hefst.

Þeim myndi ekki duga neitt væl um lagaleg álitaefni og hagræði fyrirtækisins. Því eins og ríkisendurskoðandi orðaði það svo ágætlega, þá er löghlýðni ekki valkvæð; menn geta ekki valið að fara að þeim lögum sem þeim hentar og öðrum ekki ef síður hentar. En er fv. útvarpsstjóri á leið í steininn? Ónei, hann er að verða þjóðleikhússtjóri. Vitaskuld.