*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Óðinn
23. apríl 2013 15:11

Skattastefna og hagvöxtur

Stjórnvöld á Íslandi hafa fetað sömu slóð og Barack Obama í fjögur ár. Störfum hefur fækkað og fjárfesting verið í lágmarki.

Fráfarandi ríkisstjórn hefur reynt að skattleggja þjóðina út úr kreppunni. Árangurinn hefur verið nákvæmlega sá sem við mátti búast - stöðnun. Ný Þjóðhagsspá Hagstofunnar gerir ekki ráð fyrir nema 1,9% hagvexti í ár, fimm árum eftir hrunið. Í Þjóðhagsspá fyrir ári síðan var gert ráð fyrir að hagvöxtur ársins 2012 yrði 2,6%, nýjasta mat á honum er 1,6% og að hagvöxtur áranna 2013 og 2014 yrði 2,5% og 2,8%. Samkvæmt nýjustu spánni er gert ráð fyrir 1,9% og 2,7% hagvexti.

* * *

Hagvöxturinn er ekki að frestast þannig að minni hagvöxtur nú komi fram í auknum hagvexti á næstu árum. Nei, það sem er svo alvarlegt eru tækifærin sem eru að ganga okkur úr greipum og að störfum hefur fækkað. Ástæðan fyrir því að hagkerfið er ekki að vaxa er stjórnarstefna. Gjaldeyrishöftin hafa kostað þjóðina a.m.k. 1% hagvöxt á ári og stjórnvöld hafa staðið í vegi fyrir frekari nýtingu náttúruauðlinda og fjárfestingu í helsta útflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar,sjávarútvegi.

* * *

Núverandi stjórnvöld hétu því að hækka skatta og það hafa þau gert með á annað hundrað skattkerfisbreytinga og upptöku þrepaskipts tekjuskatts. Slíkt skattkerfi er ekki einungis óréttlátt heldur er það líka óhagkvæmt. Óhagkvæmnin kemur fram í tvennu, annars vegar eykur þrepaskipt skattkerfi rentusókn í samneysluna. Þótt það séu alltaf veik tengsl á milli notkunar á almannagæðum og greiðslu fyrir þau þá leiðir mismunun í skattkerfinu til þess að þeir sem greiða hlutfallslega minna af tekjum sínum fyrir samneysluna óska eftir mun meiri samneyslu en þeir hefðu gert ef þeir hefðu borgað jafnan skerf og aðrir af tekjum sínum fyrir þau. Þrepaskipt skattkerfi leiðir til þess að þeir sem borga lágt skatthlutfall kjósa um hvort ríkið eigi að veita þjónustu sem þeir eiga lítinn eða engan þátt í að greiða fyrir, það getur varla talist óvarlega ályktað að þeir sem svo er ástatt um kjósi að öllu jöfnu meiri samneyslu. Þessi rentusókn grefur undan hugmyndinni um ríkið sem lýðræðislegan vettvang fyrir borgarana til að ráða sameiginlegum málum sínum.

* * *

Hin ástæðan fyrir því að þrepaskipt skattkerfi er óhagkvæmt er að það refsar velgengni, þeir sem hafa hærri tekjur borga hærri skatta ef skattprósentan er flöt en í þrepaskiptu skattkerfi er borgað hærra hlutfall eftir því sem fólki vegnar betur. Þrepaskipt skattkerfi er því letjandi vegna þess að því betur sem fólki vegnar því minna heldur það eftir af sjálfsaflafé sínu. Skattar á velgengni hafa sömu áhrif og skattar á áfengi og tóbak – draga úr eftirspurninni. Það skiptir ekki síðurmáli hvernig það er skattlagt en hversu mikið er skattlagt.

* * *

Talsmenn núverandi stjórnarflokka hafa sagt að það væri ábyrgðarleysi að lækka skatta og spurt, hver eigi að borga fyrir skattalækkanirnar. Þarna er spurningunni vitanlega snúið á haus, spurningin er, hver á að borga fyrir samneysluna. En burt séð frá því að þá gleymist að skattkerfi hefur áhrif á hagvöxt, störfum hefur fækkað um 13 þúsund frá því fyrir hrun, hver borgar fyrir það? Skattkerfi getur haft neikvæð áhrif á hagvöxt á tvo vegu og því miður hafa núverandi stjórnvöld gerst sek um þessar tvær höfuðsyndir skynsamlegrar skattheimtu. Fyrri syndin er að örar breytingar og hringlandaháttur á skattkerfinu auka óvissu við fjárfestingar og minnka hana. Skynsamt skattkerfi er einfalt, fyrirsjáanlegt og nær jafnt til allra.

* * *

Hin leiðin sem skattkerfi getur dregið úr hagvexti er með neikvæðum hvötum eins og háum jaðarsköttum. Þessi sjálfsögðu sannindi hafa verið sett fram í svokölluðum Laffer-boga sem sýnir að eftir því sem skatthlutfall hækkar þá hækka skatttekjur til að byrja með, en eftir því sem skatthlutfallið hækkar meira lækka jaðartekjur ríkisins af skattinum uns þær verða þeir neikvæðar, það er að hærra skatthlutfall leiðir til minni skatttekna. Loks má gera ráð fyrir að ef skatthlutfall nær eða nálgast 100% þá verði skatttekjurnar engar.

* * *

Ralph Waldo Emerson benti á þetta í ritgerðinni Umbun sem hann birti 1841: „Þjóðfélagið neitar að láta af óstjórn til lengdar, Res nolunt diu male administrari. Jafnvel þótt það virðist ekki vera neitt taumhald á illsku, þá er það taumhald til staðar og mun gera vart við sig. Ef ríkisvaldið er grimmt er líf valdhafanna ótryggt. Ef skattar eru of háir munu þeir ekki skila neinum tekjum.“

* * *

Þessi sjálfsögðu sannindi eru tiltölulega nýlega orðin einkaeign hægrimanna. Í keynesískri hagfræði er það ekki kennisetning að það eigi að örva hagkerfið með auknum útgjöldum. Keynes taldi að ríkið ætti að örva hagkerfið í kreppu með skattalækkunum eða auknum útgjöldum. John F. Kennedy fylgdi ráðum Keynes og lækkaði skatta á fyrirtæki, fjármagnstekjur og einstaklinga myndarlega og varanlega árin 1962 og 1964 til að takast á við niðursveiflu. Kennedy sagði á blaðamannafundi 20. nóvember 1962:

„Við stöndum frammi fyrir þeim þverstæðukennda veruleika að skatthlutfallið er of hátt en skatttekjur of litlar, öruggasta leiðin til að auka skatttekjur til langframa er að lækka skatthlutfallið ... Með því að lækka skatta nú erum við ekki að auka fjárlagahallann heldur að búa í haginn fyrir meiri hagsæld og aukinn hagvöxt.“ Og þegar Kennedymælti fyrir fjárlagafrumvarpi 17. janúar 1963 sagði hann: „Lægra skatthlutfall örvar hagkerfið og eykur tekjur heimila og fyrirtækja þannig að innan nokkurra ára aukast tekjur ríkisins en minnka ekki.“ Þessi ummæli Kennedys eru ekki merkileg vegna þess hver sagði þau heldur vegna þess að þau gengu eftir og skattalækkanir juku tekjur ríkisins en minnkuðu þær ekki og Kennedy bjó í haginn fyrir aukna hagsæld.

* * *

Það er áhugavert að skoða mismunandi árangur efnahagsstefnu RonaldsReagans og Baracks Obama. Þeir taka við mjög svipaðri stöðu í efnahagsmálum þegar það er djúp kreppa í heiminum, atvinnuleysi fer yfir 10% og allir stærstu bankar Bandaríkjanna eru gjaldþrota að mati Seðlabankans. Aðstæðurnar voru þó ekki að öllu leyti hliðstæðar, skuldir ríkisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu voru orðnar hærri þegar Obama tók við, en á móti kemur að verðbólga var há og þrálát þegar Reagan tók við sem getur haldið niðri skuldum ríkisins til skamms tíma. Reagan og Obama grípa báðir til keynesískra efnahagsaðgerða til að örva hagkerfið. Reagan lækkar skatta, sérstaklega jaðarskatta, myndarlega og til frambúðar. Á sama tíma vann hann á verðbólgunni þannig að bæði vextir og gengi dollarsins héldust háir á valdatíma hans. Obama aftur á móti jók ríkisútgjöld með sértækum aðgerðum og hækkaði skatta, sérstaklega jaðarskatta. Hann hefur fylgt undanlátssamri peningastefnu þannig að vextir í Bandaríkjunum hafa verið í sögulegu lágmarki og dollarinn tiltölulega veikur.

* * *

Samkvæmt þeim kreddum sem haldið hefur verið á lofti hér á landi hefði valdatíð Reagans átt að einkennast af stöðnun vegna hárra vaxta og gengis en valdatími Obama hefði átt að einkennast af blússandi uppgangi vegna ríkisútgjaldamargfaldara og lágra vaxta. Það er öðru nær, viðsnúningur bandaríska hagkerfisins eftir kreppu í valdatíð Reagans er einn sá kröftugasti sem um getur en efnahagsbatinn í valdatíð Obama einn sá veikasti. Hagvöxtur á Reagans tímanum varð miklu meiri en á Obama tímanum, ekki síst vegna þess störfum fjölgaði. Atvinnuleysi minnkaði miklu hraðar í stjórnartíð Reagans en Obama og atvinnuþátttaka, (hlutfall fólks á vinnualdri sem er á vinnumarkaðinum) minnkaði í valdatíð Obama en snarjókst hún í valdatíð Reagans sem kemur heim og saman við þá tilgátu að skattalegir hvatar skipti máli. Ríkisútgjöld jukust meira á fyrstu fjórtán fjórðungunum eftir að niðursveiflunni lauk í stjórnartíð Reagans en Obama og Reagan hefur verið réttilega gagnrýndur fyrir að hafa ekki verið nægilega aðhaldssamur í ríkisfjármálum. Það er þó barnaleikur við hlið Obama, skuldir ríkisins sem hlutfall af VLF jukust um 10% á umræddu tímabili hjá Reagan en um 20% hjá Obama. Fjárlagahallinn var minni í valdatíð Reagans en Obama vegna þess að tekjur ríkisins uxu miklu hraðar vegna lægra skatthlutfalls og landsframleiðslan óx miklu hraðar á valdatíma Reagans.

* * *

Reagan skildi við ríkissjóð eftiróþarflega skuldsettan en í tíð Obama stefna ríkisfjármál í óefni. Með aðgerðum Reagans í ríkisfjármálum fjölgaði störfum og þær stuðluðu að aukinni fjárfestingu og framleiðniaukningu. Þannig markaði Reagan upphafið að einu mest hagvaxtarskeiði Bandaríkjanna. Aðgerðir Obama hafa leitt til stöðnunar, vinnandi fólki hefur fækkað og langtímahorfur hagkerfisins eru dökkar. Af málflutningi íslenskra vinstrimanna að dæma ætti spurningin að vera: hver borgaði kostnaðinn af skattalækkunum Reagans og hver naut ávinningsins af aðgerðum Obama? Rétt spurning er hins vegar: hver naut ávinningsins af skattastefnu Reagans og hver ber kostnaðinn af stefnu Obama? Svar við báðum spurningum er almenningur. Valið er ekki á milli hærri skatta eða fjárlagahalla heldur á milli hagvaxtar eða stöðnunar.

* * *

Undanfarin fjögur ár hefur Ísland fetað sömu slóð og Obama, fjárfesting er í lágmarki og störfum hefur fækkað. En það er ekki nóg fyrir Ísland að skipta um valdhafa, það þarf að skipta um stefnu. Vandi ríkisins og heimilanna verður ekki leystur af mönnum sem segjast ætla að sveifla haglabyssum framan í hrægamma, slíkir draumórar eru tálsýn af sama meiði og landvinningar útrásarvíkinga. Skuldastaða Íslands við útlönd er þannig að við þurfum að semja um lækkun skuldbindinganna til að geta staðið við þær, ef það tekst þá þýðir það ekki að ríkið geti notað lækkunina til að greiða niður skuldir heimilanna eða annarra, ekki frekar en að blankur maður sem eyðir síðustu aurum sínum til að kaupa óþarfa á útsölu með 80% afslætti getur notað 80% til að borga mat eða húsaleigu. Lausnin á vanda heimilanna er að skapa hér skilyrði til atvinnuog auðsköpunar sem fjölgar störfum og hækkar laun. Þjóðfélagið lætur ekki af óstjórn til lengdar.

Óðinn birtist í Viðskiptablaðinu 18. apríl 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.

 

  

Stikkorð: Óðinn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is