*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Leiðari
21. júlí 2017 11:34

Skattastefnan

Ríkisstjórnin þarf að rifja það upp með sér, að ríkið er til fyrir skattborgarana, ekki öfugt.

Haraldur Guðjónsson

Umræða um skattamál hefur tekið nokkurn kipp að undanförnu og ekki einvörðungu vegna þess að menn eru nýbúnir að láta álagningarseðlana varpa skugga á sumarfríið. Tilkynnt hefur verið um ýmsar skattahækkanir, hvort sem ásælni hins opinbera í vasa landsmanna er nú kölluð það eða eitthvað annað. Þessa sér stað í stóru og smáu. Nefna má áform um hækkun virðisaukaskatts í ferðaþjónustu og stórhækkun á veiðigjöldum útgerðarinnar, dísilgjöldin eru hækkuð í stað þess að lækka bensínið, útvarpsgjaldið er hækkað en fyrirheit um lækkun tryggingagjalds láta á sér standa, hvað þá loforð um einföldun skattkerfisins eða drauma um afnám tolla, að ekki sé minnst á hreina og beina lækkun skatta.

Það er skiljanlegt, jafnvel skynsamlegt, að ríkisstjórnin vilji hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum. Ríkissjóður varð fyrir verulegum áföllum í bankahruninu og safnaði miklum skuldum. Nú stendur (enn) yfir lengsta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar og það þarf að nota það góðæri vel til þess að búa í haginn fyrir framtíðina. Þar ræðir bæði um langtímamarkmið í ríkisfjármálum, uppbyggingu innviða og markvissra umbóta í opinberri þjónustu og rekstri.

Góður árangur hefur þegar náðst við að lækka skuldir ríkissjóðs, en þær enn allt of miklar, um 75% af vergri landsframleiðslu í upphafi þessa árs. Og enn er það svo að vaxtagjöld eru þriðji stærsti útgjaldaliður fjárlaga, svipuð og öll útgjöld ríkisins til mennta og menningarmála. Það hefur mikið saxast þar á, en betur má ef duga skal.

Það verður trauðla gert nema með því að ríkissjóður hafi meira fé til ráðstöfunar. Vinstriflokkarnir vita mætavel hvernig á að gera það og verða alltaf jafnhissa þegar í ljós kemur að aukin skattheimta leiðir ekki sjálfkrafa til aukinna tekna. Þvert á móti. Þau sannindi ættu ekki að vera raunsærri miðjustjórn framandi.

Fyrrnefnt dæmi um dísilinn segir mönnum að fjármálaráð­ herrann hefur ekki leitt hugann eina stund að hag bílstjóra. Hvað má þá segja um viðbrögð sjávarútvegsráðherra, þegar útgerðin kvartaði undan því að veiðigjöldin miðist við afkomuna 2015, en nú hafi gengisþróunin gerbreytt stöðunni? Jú, að hún hefði bara átt að leggja fyrir! Svona talar enginn, sem komið hefur nálægt rekstri eða borið minnstu ábyrgð á fjárreiðum sínum eða annarra. Þau orð benda raunar til þess að ráðherrann beri hag sjávarútvegsins alls ekki fyrir brjósti.

Í ár geta skattborgarar ekki um frjálst höfuð strokið fyrr en 2. ágúst. Þá loksins verður starfi þeirra fyrir ríkissjóð lokið, en það sem eftir lifir árs mega þeir vinna fyrir sjálfa sig. Tekjur hins opinbera eru 58% af vergri landsframleiðslu og þó að við strikum stöðugleikaframlagið út, þá væru þær samt sem áður í námunda við 45%. Það er miklu meira en nóg; slík skattheimta dregur bæði þrótt og þor úr atvinnulífi og athafnasemi manna, einmitt þar sem verðmætasköpunin á sér stað og einmitt þar sem lægri álögur leiða til aukins ávinnings bæði ríkissjóðs og almennings. Við það á skattastefna ríkisstjórnarinnar að miðast og það er verulegt svigrúm til lækkana á sköttum, tollum og gjöldum.

Ríkisstjórnin þarf að rifja það upp með sér, að ríkið er til fyrir skattborgarana, ekki öfugt. Hún þarf að koma böndum á frekari útþenslu hins opinbera, draga úr umsvifum ríkisins og setja grunnþjónustu í forgang. Miða á við að opinber útgjöld vaxi ekki umfram vöxt landsframleiðslu og það er ekki of metnaðarfullt markmið að hreinar skuldir ríkissjóðs verði horfnar í lok næsta áratugar. En það er ekki eina markmiðið og það á við nú sem fyrr, hér sem annars staðar, að ríkisvaldið fer ekki betur með fjármuni borgaranna en þeir sjálfir.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu þann 20. júlí 2017.

Stikkorð: skattamál leiðari Skattastefna
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.