Á undanförnum árum hefur orðið mikil aukning á viðskiptum með rafmyntir eða sýndarfé á bálkakeðjum. Rafmyntum er fyrst og fremst ætlað að þjóna hlutverki greiðslueyris en þó að útbreiðsla slíkra mynta hafi ekki náð því marki að teljast viðurkenndur greiðslumiðill í almennum viðskiptum er talsverður vöxtur í kaupum og sölu slíks sýndarfjár hjá fjárfestum.

Slíkum viðskiptum svipar nokkuð til almennra gjaldeyrisviðskipta enda höfuðtilgangur fjárfestinga af þessum toga að græða á gengismismun. Regluvæðing fjármálageirans hefur vart haldið í þá hröðu þróun sem átt hefur sér stað innan fjártæknigeirans en viðskipti með sýndarfé falla t.d. ekkert sérstaklega vel að regluverki skattalöggjafarinnar. Sýndarfé eða rafmynt skal ekki ruglað við rafeyri í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris og telst ekki gjaldeyrir í skilningi laga um gjaldeyrismál eða fjármálagerningur í skilningi laga um verðbréfaviðskipti.

Meðferð rafmynta samkvæmt tekjuskattslögum

Ríkisskattstjóri hefur áður viðrað þá skoðun að rafmyntir séu eðlislíkar lausafé þar sem þær séu ekki fyrnanlegar og þar með skuli meðhöndla viðskipti með sýndarfé með sama hætti og hlutafjáreign, þ.e. sem söluhagnað eða -tap. Við útreikning hagnaðar eða taps af sölu eða innlausn sýndarfjár hefur embættið miðað við að kaupverð þess sé jafnt meðalkaupverði viðskipta með sýndarfé fram að söludegi líkt og gildir um hlutafjáreign. Yfirskattanefnd hefur þó nýverið gert aðfinnslur við að Skatturinn hafi fellt ávinning af greftri eftir rafmyntinni Bitcoin og sölu þeirrar uppskeru undir lagareglur um söluhagnað eigna frekar en aðrar tekjutegundir án rökstuðnings.

Frádráttarbærni fjárfestinga

Þó að freistandi gæti verið að draga sölutap af einni tegund rafmyntar frá söluhagnaði annarrar rafmyntartegundar virðist Skatturinn ekki líta á mismunandi rafmyntir (t.d. bitcoin, XRP, auroracoin) sem sams konar eignir í skilningi tekjuskattslaga, heldur sé óheimilt að draga tap af sölu rafmynta frá skattskyldum fjármagnstekjum nema þær séu tilkomnar vegna söluhagnaðar af sömu tegund sýndarfjár.

Má þó líklegast ganga út frá því að þegar viðskipti með sýndarfé teljast til tekjuöflunar í atvinnurekstri sé kostnaður vegna þeirra réttilega talinn frádráttarbær.

Er rafmynt vara í skilningi virðisaukaskattslaga?

Eðli virðisaukaskatts er nokkuð frábrugðið tekjuskatti þar eð slík skattlagning leggst ekki með reglubundnum hætti á tekjulind fólks heldur heimtir hún hlutdeild af öllum stigum viðskipta með bæði vörur og þjónustu. Ekki er óvarlegt að ætla að rafmyntir teljist falla utan vöruhugtaks virðisaukaskattslaga því þær eru óáþreifanlegur greiðslumiðill með ekkert annað notagildi og án tengingar við einhver undirliggjandi verðmæti.

Evrópudómstóllinn hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að sýndarfé teljist ekki virðisaukaskattskyld vara en öllu flóknara viðfangsefni er að afmarka skattlagningu sýndarfjármálaþjónustu.

Fjármálaþjónusta undanþegin virðisaukaskatti

Veiti þriðji aðili fjárfestum aðgang að stafrænum fjármagnsmörkuðum, eða með öðrum hætti veitir þjónustu við kaup og sölu sýndarfjár, mætti í fljótu bragði ætla að slík þjónusta beri virðisaukaskatt. Allt frá upptöku virðisaukaskatts hefur þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun, verið undanþegin virðisaukaskatti. Slík þröng undanþága helgast fyrst og fremst af tæknilegum ástæðum þar sem erfiðleikum sé bundið að ákvarða skattstofn slíkrar starfsemi þar sem megintekjustofn banka grundvallist á vaxtamun.

Telst milliganga með rafmyntaviðskipti vera fjármálaþjónusta?

Fjárfestingar í sýndarfé eru ekki ólíkar fjármálagerningum. Hefur Evrópudómstóllinn raunar fellt milligöngu um viðskipti með sýndarfé undir undanþágu frá álagningu virðisaukaskatts á þeim grundvelli að viðskiptin séu eðlislík gjaldeyrisviðskiptum. Þrátt fyrir það væri varla hægt að ganga að því sem vísu að íslensk skattyfirvöld myndu fylgja því fordæmi. Sem dæmi hefur Fjármálaeftirlitið áður gefið það út að sýndarfé teljist ekki gjaldmiðill, falli ekki undir lög um greiðsluþjónustu né undir lög um útgáfu og meðferð rafeyris.

Ýmis rök mæla þó með því að milliganga með sýndarfjárviðskipti verði undanþegin virðisaukaskatti en Skatturinn hefur t.d. ekki gert kröfu um að þjónustuveitendur innheimti virðisaukaskatt af slíkri milligöngu. Af nýlegri skýrslu OECD má ráða að evrópsk ríki hafi að jafnaði fylgt niðurstöðu Evrópudómstólsins og almennt hafi milligöngu um sölu rafmynta verið fundinn sess í ákvæðum sem undanþiggja fjármálaþjónustu virðisaukaskatti.

Helstu rökin með því að færa þjónustu með sýndarfé undir undanþáguákvæði virðisaukaskattslaga helgast þó ef til vill af því að þrátt fyrir að í frumvarpi með virðisaukaskattslögunum sé skýrt tekið fram að undanþága laganna sé einskorðuð við eiginlega bankaog lánastarfsemi, hefur ákvæðið í framkvæmd verið túlkað á þá leið að starfsemi, sem er fyllilega sambærileg banka- og lánastarfsemi, falli undir ákvæðið.

Útgáfa rafeyris sérstaklega tilgreind sem fjármálaþjónusta

Nýleg breyting á virðisaukaskattslögum miðar að endurskilgreiningu á fjármálaþjónustu í skilningi virðisaukaskattslaga til að auka skýrleika undanþágunnar og fella starfsemi milligönguaðila undir ákvæðið eftir atvikum.

Útgáfa rafeyris hefur nú sérstaklega verið tilgreind í undanþágunni. Með útgáfu rafeyris á bálkakeðjur er aðgengi almennings að dreifðri fjármálaþjónustu aukið til muna og svipar nokkuð til þess hlutverks sem rafmyntum var upphaflega ætlað. Með ákvarðandi bréfi nr. 1090/2014 veitti ríkisskattstjóri svar við því að útgáfa rafeyris væri undanþegin virðisaukaskatti þar sem um leyfisskylda starfsemi væri að ræða.

Þar sem þjónusta með rafmyntir er hvorki leyfisskyld né fest undir svipað regluverk og rafeyrir hefði verið þeim mun ríkari þörf á að taka af vafa um hvort milliganga með sýndarfé teldist einnig til fjármálaþjónustu. Má teljast líklegt að svo sé þar sem starfsemi sem telst til fjármálaþjónustu er ekki tæmandi talin í ákvæðinu.

Framtíð fjártækninnar

Á einhverjum tímapunkti mun löggjafinn líklega finna rafmyntum stað innan regluverksins eða eftir atvikum skapa nýtt regluverk um stafrænar fjárfestingar, kannski er beðið eftir frekari reynslu á þessu sviði. En þar sem undanþáguákvæði virðisaukaskattslaga var endurskoðað með beinni vísan til þróunar á sviði fjártækni, hefði mátt vænta þess að þessu álitaefni hefði verið gefið gaum.

Höfundur er sérfræðingur hjá Skatta- og lögfræðiráðgjöf Deloitte.