*

mánudagur, 22. júlí 2019
Símon Þór Jónsson
16. maí 2011 12:03

Skattlagning fyrirtækjasamstæða innan ESB

Markmiðið með einum sameiginlegum fyrirtækjaskattstofni er að fyrirtæki innan ESB geti talið fram til skatts einn skattstofn.

Lengi hefur verið beðið eftir drögum Framkvæmdastjórnar Evrópubandalaganna að tilskipun um einn sameiginlegan fyrirtækjaskattstofn (e. common consolidated corporate tax base) fyrir öll aðildarríki Evrópusambandsins (ESB). Drög að tilskipun komu fram 16. mars síðastliðinn. Næstu skref verða þau að Evrópuþingið fær drög Framkvæmdastjórnarinnar til umfjöllunar og svo munu aðildarríkin greiða atkvæði um málið í ráðherraráðinu.

Markmiðið með einum sameiginlegum fyrirtækjaskattstofni er að fyrirtæki eða félagasamstæður sem starfa innan ESB geti talið fram til skatts einn skattstofn á grundvelli eins nýs skattkerfis óháð því í hve mörgum aðildarríkjum ESB starfsemin fer fram. Fyrirtæki myndu því losna við að telja fram jafnmarga skattstofna og aðildarríkin eru mörg, sem þau starfa í, með tilheyrandi kostnaði við skattskil og sérþekkingu á skattkerfi hvers aðildarríkis. Nú glíma fyrirtæki við 27 ólík skattkerfi innan ESB.

Þetta mikla flækjustig leiðir ekki aðeins til skattalegrar óvissu og tvísköttunar, heldur einnig til gríðarlegs kostnaðar við skattskil. Fyrirtæki þurfa á stöðugri sérfræðiráðgjöf að halda í hverju landi fyrir sig. Afleiðing þessa er skert efnahagsleg skilvirkni.

Samandregið eru kostir eins sameiginlegs fyrirtækjaskattstofns fyrir öll aðilarríki ESB einkum þessir:

1. Aðeins þyrfti að telja fram einn skattstofn enda þótt starfsemi væri í tveimur eða fleiri aðildarríkjum ESB. Einar reglur myndu því gilda um tekju- og gjaldfærslu í skattalegu tilliti vegna allrar starfsemi innan ESB.

2. Milliverðlagning (e. transfer pricing) innan fyrirtækjasamstæðu myndi ekki lengur skipta máli í skattalegu tilliti í þeim tilvikum þegar um er að ræða viðskipti á milli félaga eða útibúa félaga innan ESB. Viðskipti við félög eða útibú félaga utan ESB (en innan fyrirtækjasamstæðu) yrðu áfram andlag flókinna milliverðlagsreglna.

3. Samsköttun myndi í raun verða á starfsemi innan ESB, þar sem tapi í einstökum ríkjum yrði jafnað á móti hagnaði í öðrum ríkjum. 4. Fyrirtæki þyrftu aðeins að eiga samskipti við einn opinberan aðila í sambandi við tekjuskattlagningu innan ESB (e. one stop shop). Þrátt fyrir að Ísland sé ekki í ESB þá hefur þetta þýðingu fyrir íslensk fyrirtæki. Mörg íslensk fyrirtæki eru með starfsemi í fleiri en einu aðildarríki ESB, ýmist í formi dótturfélaga eða útibúa, og þurfa nú að telja fram skattstofna og kunna skil á skattkerfi hvers aðildarríkis ESB sem starfsemi fer fram í. Ef af verður þá munu íslensku fyrirtækin njóta framangreindra kosta að því er varðar alla starfsemi innan ESB. Þá kann svo að fara, að Ísland gangi í ESB.

Skipting skattstofnsins á milli aðildarríkja ESB

Í tilskipunardrögunum er ekki gert ráð fyrir að skatthlutföllin verði samræmd, heldur þvert á móti gert ráð fyrir að samkeppni ríki á milli aðildarríkja ESB í þeim efnum. Umhugsunarefni hefur hins vegar verið hvernig skipta eigi skattstofninum á milli einstakra aðildarríkja þar sem starfsemi fer fram. Fyrirliggjandi drög gera ráð fyrir að skattstofninum verði skipt á milli ríkja á grundvelli þriggja þátta sem allir hafa jafnmikið vægi:

1. Vinnuafl (þar sem fjárhæð launa og fjöldi starfsmanna í hverju ríki fyrir sig vega jafnt).

2. Efnislegar eignir (óefnislegum og fjárhagslegum eignum er sleppt vegna hreyfanleika þeirra á milli ríkja og hættu á misnotkun).

3. Sala á vöru og þjónustu (frá félagasamstæðunni en ekki innan hennar).

Stikkorð: ESB skattar
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.