Síðustu misseri hefur umræða um skattlagningu stafræna hagkerfisins farið mikinn meðal ríkja Evrópusambandsins og víðar. Ísland hefur nú látið sig þetta varða og hefur Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, lýst því yfir að stefnt sé að því að leggja fram frumvarp á yfirstandandi þingi sem snýr m.a. að skattlagningu á erlendar efnisveitur.

Ekki hefur verið einhugur hvernig stíga eigi til jarðar í þessum efnum. Einhver Evrópuríki telja þetta nauðsynlegt skref í átt að sanngjarnri skattlagningu sbr. aðgerðaráætlun OECD og G20 ríkjanna um rýrnun skattstofna og tilfærslu hagnaðar. Önnur ríki benda á að skattlagningin sé of sértæk og henni beint að afar fáum stórum alþjóðlegum samstæðum.

Forsagan

Sú hugmynd að skattleggja stafræna hagkerfið er ekki ný af nálinni en á árinu 2018 fór að draga til tíðinda. Í mars 2018 kynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tillögu að tilskipun er fól í sér 3% skattlagningu af veltu stafrænnar þjónustu fyrirtækja eða samstæða. Undir gildissvið tilskipunarinnar féllu fyrirtæki eða samstæður með alþjóðlega veltu að lágmarki 750 milljónir evra á ári og þar af 50 milljónir evra vegna stafrænnar þjónustu innan Evrópusambandsins. Þessu til viðbótar skyldi einungis tiltekin stafræn þjónusta falla undir gildissvið tillögunnar.

Ráð efnahags- og fjármálaráðherra ESB (ECOFIN) fundaði um breytingatillögur að hinni upprunalegu tillögu í desember 2018. Breytingatillögurnar komu annars vegar frá Rúmeníu og hins vegar Frakklandi og Þýskalandi, og snerust um að takmarka gildissvið skattlagningarinnar á stafrænar auglýsingatekjur fremur en allar stafrænar tekjur. Fundurinn náði ekki samkomulagi um tillögurnar.

Á fundi ECOFIN í mars 2019 var útvötnuð útgáfa af hinni upphaflegu tillögu rædd. Meðal efnis tillögunnar var að skattstofn hinna stafrænu tekna væru auglýsingatekjur, skattlagningunni yrði hrundið í framkvæmd í síðasta lagi 2022 (fyrr ef samkomulag næðist innan OECD). Á fundinum báru einhver ríki upp áhyggjur sínar af því að gildissvið tillögunnar væri orðið of þröngt en önnur veltu því upp hvort kostnaðurinn við innleiðingu þessarar skattlagningar næmi ekki hærri fjárhæð en möguleg aukning skatttekna. Nokkur einhugur ríkti meðal aðildarríkja að æskilegasta niðurstaðan væri að samkomulag um skattlagninguna næðist meðal OECD ríkjanna. Að lokum náðist ekki einróma samþykki fyrir tillögunni. Nýlega kom út skýrsla á vegum Evrópuþingsins. Í skýrslunni kemur m.a. fram að Evrópuþingið telji samkomulag á alþjóðavettvangi æskilegustu leiðina við innleiðingu stafrænar skattlagningar, en þó ekki þá einu. Náist ekki samkomulag á alþjóðavettvangi skuli Evrópusambandið setja sér samræmdar reglur hvað stafræna skattlagningu varðar.

Staða innan aðildarríkja

Þrátt fyrir ofangreinda óeiningu innan Evrópusambandsins hafa nokkur ríki innan sambandsins gengið skrefinu lengra en sambandið hvað varðar innleiðingu skattlagningu rafræna hagkerfisins í landslög. Má þar helst nefna Ítalíu en frá og með janúar 2020 bar félögum sem ná tilteknum veltumörkum að skila skatti af tiltekinni stafrænni þjónustu. Sambærilega sögu má segja af Frakklandi þar sem 3% skattur er lagður á brúttó tekjur af tiltekinni stafrænni þjónustu að því gefnu að félagið nái tilteknum veltumörkum. Þá hafa fleiri lönd innleitt skattlagningu á afmarkaða þætti hins stafræna hagkerfisins.

Sértæk skattlagning og aðrar gagnrýnisraddir

Umræða hefur skapast um að hinni stafrænu skattlagningu sé ætlað að koma í veg fyrir að tilteknir alþjóðlegir risar hagnist á því að færa hagnað sinn milli ríkja í þeim tilgangi að lækka skattbyrði sína. Í ljósi þess að skattlagningin sem um ræðir er sértæk og sérstaklega sett til höfuðs tiltekum alþjóðlegum risafyrirtækjum hefur því verið velt upp hvort skattlagning af þessu tagi skorti ekki grundvallarskilyrði skattlagningar um að hún skuli vera eftir almennum efnislægum mælikvarða þar sem gæta verði jafnræðis. Þá hefur því verið velt upp hvort skattlagningin brjóti gegn reglum Evrópusambandsins um ríkisaðstoð. Af þessu tilefni getur einnig verið áhugavert að minnast dóms Hæstaréttar í Auðlegðarskattsmálinu svokallaða, Hrd. 726/2013 en í forsendum dómsins segir: „Nái skatturinn til fámenns hóps skattborgara kann það að veita vísbendingu um að of nærri þeim hafi verið gengið, en fjöldinn einn sker þó ekki úr, heldur hvort skattlagningu sé gagngert beint að einstökum mönnum án þess að það sé gert á málefnalegan hátt."

Annarri gagnrýni sem haldið hefur verið á lofti varðar að svo að skattlagning á hinu stafræna hagkerfi verði raunhæf geti ekki einungis verið um að ræða skattlagningu ríkja Evrópusambandsins heldur þyrfti samkomulag að nást á víðari grundvelli. Þá hefur það einnig verið gagnrýnt að ekki sé um að ræða skattlagningu hagnaðar heldur tekna félaganna, sem leiðir til þess að félög sem rekin eru með tapi greiði þrátt fyrir það skatt.

Að lokum má velta því upp stöðu Íslands hvað slíka skattlagningu varðar. Ljóst er að stíga verður varlega til jarðar enda Ísland ekki stór markaður þegar kemur að tekjum rafrænna risafyrirtækja. Norðurlöndin hafa farið mikinn í gagnrýni á þessari fyrirhuguðu skattlagningu stafræna hagkerfisins innan Evrópu og telja mikilvægt að ná verði samkomulagi á heimsvísu hvað skattlagninguna varðar. Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þessara mála á Íslandi og annars staðar í Evrópu.

Höfundur er lögfræðingur hjá KPMG Law.