*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Huginn og muninn
28. mars 2021 08:33

SKE hefur átt betri viku

Forstjóri Símans segir samkeppnismálin kreddukennd, hagfræðingi MS svegldist á brauðréttinum og stjórnarformaður Festi er ósáttur.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur MS og Þórður Már Jóhannesson, stjornarformaður Festi.

Í veðurofsanum fyrir rúmu ári skemmdust rafmagns- og fjarskiptakerfi. „Strax kviknaði sú hugmynd að leyfa fyrirtækjum í samkeppnisrekstri að taka höndum saman um að laga þá innviði sem þurftu endurbætur," sagði Orri Hauksson, forstjóri Símans, í viðtali í sérblaði Morgunblaðsins, sem kom út á dögnum. Benti hann á að í landi með aðeins 370 þúsund íbúa væri stundum best að skapa grunninnviði utan suðvesturhornsins með öðrum leiðum en hefðbundnum samkeppnismarkaði.

„Fyrstu viðbrögð voru mjög jákvæð og bæði fulltrúar stjórnvalda og viðkomandi fyrirtækja samstíga. Nema hvað þá birtist upp úr þurru bréf frá Samkeppniseftirlitinu, sem hafði tekið þátt í öllu ferlinu, þar sem varað var við því að samstarf á milli samkeppnisaðila gæti leitt til refsingar fyrir þá sem tækju þátt. Við það var verkefnið farið út í veður og vind." Í viðtalinu sagðist Orri telja eðlilegt að skoða hvort umgjörð samkeppnismála væri úr hófi „dogmatísk".

Daginn eftir að viðtalið við Orra birtist skrifaði Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur MS, grein á vefsíðu Fréttablaðsins. Gagnrýndi hún efnistök aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins í grein sem hann hafði birt tveimur dögum áður undir fyrirsögninni „Samkeppni í matvælaframleiðslu styður við fæðuöryggi". Ernu svelgdist á „heita brauðréttinum" enda sagðist hún „minnug þess að sérfræðingarnir í Samkeppniseftirlitinu héldu því fram á ráðstefnu fyrir nokkrum mánuðum að samkeppni í flugrekstri væri leið út úr COVID-19 heimsfaraldri. Að mati Samkeppniseftirlitsins er samkeppni lausn við öllum vanda - er þar ekkert undanskilið, ekki einu sinni heimsfaraldur."

Á mánudaginn fékk Samkeppniseftirlitið ein skilaboð til viðbótar. Voru þau frá Þórði Má Jóhannessyni, stjórnarformanni Festi, sem sagði á aðalfundi félagsins að kostnaður vegna sérstaks kunnáttumanns vegna samrunans við N1, væri orðinn „verulega hærri" en væntingar hefðu staðið til og að félagið myndi óska eftir breytingum á aðkomu hans að sátt félagsins við Samkeppniseftirlitið. SKE hefur átt betri viku.   

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.