Sumarið getur verið erfiður tími. Þá vilja allir fara í útilegur og drekka bjór með grillkjötinu, fara til útlanda og sulla í sangríu með snakkinu. Fyrir utan svo auðvitað þá sem vilja slaka á heima í sófanum, lausir við þrýsting einkaþjálfarans og afskiptasömu frænkunnar sem hefur alltaf áhyggjur af holdafarinu.

Þetta eru hinsvegar ekki aðaláhyggjurnar því þær snúast um að vera í hinu margumrómaða „bikiníformi“ og internetið fyllist af myndum þar sem fólk svitnar almennilega fyrir komandi sundferðir.

Þetta er auðvitað gott og blessað og frábært að huga að heilsunni. Hinsvegar má ekki gleyma því að sumarið er líka tíminn til að njóta. Þá loksins eru lærin ekki frosin eftir stutt skokk og sírennslið í nefinu loksins farið eftir dimma mánuði. Þetta er einmitt tíminn til að njóta þess að fara áhyggjulaus í fríið og best að skilja kolvetnakúrinn eftir heima.

Hinsvegar þýðir þetta ekki að sumarfríið eigi að vera eintómt sukk og svínerí. Þvert á móti. Það er hægt að hafa gaman af góðum og hollum mat. Það er hinsvegar miklu skemmtilegra þegar maður er ekki tilneyddur. Boð og bönn eru leiðinleg. Laugardagsnammigrísirnir passa oftast upp á að klára hvern einasta sykurbita í húsinu á meðan það er leyfilegt og svo tekur sveltið aftur við á sunnudegi. Ef það eru ekki boð og bönn þá er engin pressa að klára nammipokann né vínflöskuna. Þá væri hugsanlega hægt að blanda óhollustunni við venjulegt og hollt mataræði.

Ég segi þetta kannski bara sjálf til að afsaka daglegu súkkulaðimolana mína. Aðallega segi ég þetta því ég vorkenni þeim sem fara í útilegu og drekka sódavatn í stað þess að fá sér heitt súkkulaði. Auðvitað er bannað að alhæfa en gerum ekki lítið úr skemmtanagildinu við að borða.

Borðum hollan og góðan mat, munum eftir að hreyfa okkur hvar og hvenær sem er og sukkum svo aðeins!

Pistill Eddu birtist í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Eftir vinnu, sem kom út á dögunum. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .

Fylgist með Eftir vinnu hér á Facebook.