Í Silfrinu á Ríkisútvarpinu á sunnudag fullyrti Egill Helgason þáttastjórnandi að í því verðbólguástandi sem nú er uppi væru bara tveir valkostir við stjórn efnahagsmála: Niðurskurður eða skattahækkanir. Þessi fullyrðing á ekki við rök að styðjast og hún endurspeglar hversu afvegaleidd umræðan um efnahagsmál er.

Hækkun skatta slær hvorki á þenslu né kveður niður verðbólgu. Þvert á móti. Aukin skattbyrði festir þensluna í sessi þar sem skattfé ríkisins rennur óhindrað til útgjalda. Fyrirtæki og heimili hafa valkost um að verja hluta tekna til sinna í sparnað og þar af leiðandi er það þensluhvetjandi ef ríkið er að seilast í enn stærri hluta verðmætasköpunarinnar.

Þrátt fyrir þessi augljósu sannindi er talað um skattahækkanir sem hið eina rétta í stöðunni. Enginn stjórnmálamaður mælir gegn þessari síbylju og bendir á skaðann sem frekari skattahækkanir munu valda.

Umræðan um skattahækkanir er orðin svo kreddukennd að í umræðuþætti í Ríkisútvarpinu um helgina mátti vart sjá hvor var æstari yfir hugmyndum um hækkun bankaskatts, þáttastjórnandinn eða verkalýðsforinginn. Forystufólk stjórnarandstöðunnar talar um hækkun fjármagnstekjuskatts á sama tíma og neikvæðir raunvextir eru á sparnaði og enginn gerir neinar athugasemdir.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, tekur undir hugmyndir Lilju Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra um hvalrekaskatt. Það gleymist að hval þarf að reka að landi til að hægt sé að réttlæta slíka skattlagningu. Afkoma meirihluta skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni versnaði til muna milli ára í fyrra og ekki er bjart yfir næstu misserum. Horfi menn til bankareksturs og sjávarútvegs í leit að hvalreka þá er ekki eftir neinu að slægjast. Raunávöxtun bankanna var rétt yfir verðbólgu og afkoma sjávarútvegsins sveiflast frá ári til árs út frá ófyrirsjáanlegum umhverfisþáttum.

Enn fremur hefur formaður Samfylkingarinnar ásamt frelsisblysum verkalýðshreyfingarinnar talað fyrir hugmyndum um að gerð verði lægri ávöxtunarkrafa til bankanna og benda á að meðaltal arðsemi evrópskra banka er kringum 6% um þessar mundir. Í augum þeirra virðist engu máli skipta sú grundvallarstaðreynd að grunnvextir eru mun hærri hér á landi en á evrusvæðinu. Staðreyndir virðast ekki skipta neinu máli fyrir stjórnlynda stjórnmálamenn sem halda að þeir geti stýrt lögmálum efnahagslífsins án þess að verulegur skaði hljótist af.

Skattahækkanir skila engu í baráttunni fyrir stöðugu verðlagi. En þáttastjórnandi Silfursins hefur rétt fyrir sér með niðurskurðinn. Staðreynd málsins er að ofvöxtur hefur einkennt umsvif ríkisins á undanförnum áratugum. Þannig hefur opinberum starfsmönnum fjölgað um fjórðung frá árinu 2012. Það liggur fyrir að allt þetta fólk er ekki að kenna krökkum, hjúkra og lækna sjúklingum og annast eldri borgara. Hlutfall opinberra starfsmanna á vinnumarkaði er með því hæsta sem þekkist hér á landi. Það ætti að vera mönnum umhugsunarefni.

Staðreynd málsins er að útgjaldaaukning síðustu áratuga er að miklu leyti tilkomin vegna fjármögnunar gagnslausra verkefna sem tímabært er að endurskoða. Hægt er að skera mikið niður án þess að skerða þá þjónustu sem þverpólitísk sátt ríkir um að ríkið veiti. Ástæða þess er einfaldlega að rekstrinum hefur verið leyft að hlaupa í spik.

Þegar líða tók á áttunda áratug síðustu aldar voru flest efnahagskerfi Vesturlanda komnar í ógöngur. Ríkisumsvif voru mikil, hagvöxtur lítill og verðbólga þrálát. Lækningin við þessu var að draga úr ríkisumsvifum og auka frelsi á markaði. Raunvextir lækkuðu með minni ríkisumsvifum og atvinnuvegafjárfesting jókst. Þrátt fyrir að hagvöxtur sé mikill um þessar mundir er íslenska hagkerfið í sambærilegum sporum. Óhugsandi er að vaxtastigið lækki að ráði fyrr en ríkisreksturinn verður heilbrigðari og það markmið næst ekki nema með aðhaldi og megrun.