*

sunnudagur, 20. júní 2021
Örn Arnarson
10. maí 2021 07:05

Skipting kebabsins, erindi BÍ og tölfræðiklám

"Það er ekkert sem útilokar að stjórnendur Play hætti við allt saman og fari að haga sér eins og venjulegir miðaldra menn og opni smasshamborgarastað í miðbæ Reykjavíkur".

Drífa, Sólveig Anna, Birgir Örn, Birgir, Þórarinn og Sigríður Dögg í Hádegismóum. Flugvél Play flýgur yfir.
vb.is

Almennt séð eru fjölmiðlar, verkalýðsleiðtogar og stjórnmálamenn áhugasamir um skattaundanskot og bókhaldsbrellur. Þeir síðarnefndu spara ekki stóru orðin ef hinir fyrrnefndu fjalla um slíkt. Það er því saga til næsta bæjar að það hafi ekki vakið meiri athygli að tveir málsmetandi menn í íslensku viðskiptalífi hafi tortryggt launakostnað ársreiknings vinsællar veitingakeðju á höfuðborgarsvæðinu á dögunum. Enn meiri furðu vekur að málglaðasti verkalýðsforingi landsins vill ekkert segja um málið.

Forsaga þessa máls er að Birgir Örn Birgisson, fráfarandi framkvæmdastjóri Dominos, sagði í viðtali við Markaðinn á dögunum að launakostnaður veitingahúsa væri sligandi og sagði merki um að eigendur bregðist við þessu með skattalagabrotum - það er að segja með því að greiða svart fyrir vinnu starfsmanna. Í viðtalinu segir Birgir Örn:

„Við erum að sjá dæmi þess að furðulegir hlutir eru að gerast í geiranum. Eitt fyrirtæki í veitingarekstri, sem treystir meðal annars á nætursölu, birti ársreikning nýlega þar sem launahlutfall var 12 prósent af veltu, langt undir þeim rúmlega 40 prósentum sem eru almennt í geiranum. Þegar rekstraraðili veitingahúss birtir ársreikning með 12 prósenta launahlutfall, þýðir það annað hvort að viðkomandi er margfalt betri í rekstri en allir samkeppnisaðilar og geirinn í heild sinni. Eða þá að þeir geta ekki sýnt hærra launahlutfall í reikningum vegna þess að stór hluti launa er greiddur undir borðið. Dæmi hver fyrir sig."

Blaðamenn Viðskiptablaðsins fylgdu í kjölfarið og upplýstu um að þessar tölur stemma við niðurstöðu ársreiknings Halal ehf. sem rekur veitingakeðjuna vinsælu Mandi. Laun sem hlutfall af veltu námu einmitt um 12% í fyrra. Og fyrir áhugamenn um skiptingu kebabsins er rétt að halda til haga að tekjur félagsins námu um 420 milljónum króna á síðasta rekstrarári á meðan laun og launatengd gjöld námu ríflega 53 milljónum.

Eins og Birgir Örn bendir á þá vekur þessi rekstrarniðurstaða upp margar áleitnar spurningar sem fjölmiðlamenn ættu að leita svara við. Ljóst er að þeir veitingamenn og aðrir sem standa í rekstri sem er sligaður af örri hækkun launakostnaðar geta lært af Hlal Jarah, eiganda Mandi, hvernig eigi að halda launakostnaði innan skynsamlegra marka í rekstrinum. Rétt er að geta að Hlal er í framboði fyrir næstu þingkosningar en hann skipar 14. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður.

Þórarinn Ævarsson, eigandi veitingastaðarins Spaðans, hefur einnig furðað sig á þessu. Í viðtali við Dagmál Morgunblaðsins á dögunum furðaði hann sig á að verkalýðshreyfingin skuli ekki láta í sér heyra þegar fjallað sé um augljós undanskot tiltekinna fyrirtækja á veitingamarkaði. Í framhaldi leitaði blaðamaður Morgunblaðsins eftir viðbrögðum Sólveigar Önnu Jónsdóttir, formanns Eflingar, við málinu. Í þetta sinn lét Sólveig hugsanleg réttindabrot á öreigunum sig litlu varða og vísaði blaðamanni á skattrannsóknarstjóra.

Áhugaleysi Sólveigar og annarra verkalýðsforingja auk fjölmiðla sem hafa látið sig þessi mál miklu varða er umhugsunarverð svo ekki sé fastar að orði kveðið.

                                                                       ***

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður á Ríkisútvarpinu og nýkjörinn formaður Blaðamannafélagsins, fer mikinn þessa dagana. Formaðurinn sendi bréf til framkvæmdastjóra Árvakurs, að sögn fyrir hönd stjórnarinnar, þar sem félagið er gagnrýnt fyrir að hafa birt auglýsingu frá Samherja á fréttavef Morgunblaðsins. Auglýsingin vísar á myndband sem útgerðarfélagið hefur birt á samfélagsmiðlum. Eins og fjallað var um á þessum vettvangi í síðustu viku þá fjallar myndbandið um þá skoðun Samherjamanna að Helgi Seljan, fréttamaður RÚV, sé hlutdrægur í fréttaflutningi um málefni félagsins. Er vísað til nýlegs úrskurðar siðanefndar RÚV málinu til stuðnings í myndbandinu.

Í sjálfu sér er hæpið hjá stjórninni að fetta fingur út í sjálfa auglýsinguna, hún gaf ekki tilefni til þess. Hins vegar getur fólk haft skiptar skoðanir á þeim málflutningi, sem fram kom í því myndbandi sem auglýsingin vísaði á, og það eru ljóslega þær skoðanir, álit Samherja á Helga Seljan og fréttastofu RÚV, sem formaður Blaðamannafélagsins (og starfsmaður sömu fréttastofu) er andsnúinn og fellir sig ekki við. Það breytir ekki því að formaður Blaðamannafélagsins fer fram úr sér í þessum bréfaskrifum fyrir hönd stjórnarinnar.

Í bréfinu er fullyrt að tilgangur Samherja sé að „þvinga fram bann við því að Helgi Seljan fjalli um málefni fyrirtækisins". Þetta er alvarleg ásökun og því er vert að spyrja hvort stjórn Blaðamannafélagsins hafi einhverjar heimildir fyrir því að forráðamönnum Samherja gangi eitthvað annað til en að koma ofangreindu áliti sínu á meintri hlutdrægni RÚV í fréttaumfjöllun um málefni félagsins.

Enn fremur sakar stjórn Blaðamannafélagsins forráðamenn Árvakurs um að rjúfa Kínamúrinn sem aðskilur ritstjórnir og auglýsingadeildir fjölmiðla. Í bréfinu segir orðrétt:

„Á fjölmiðlum eru skörp skil milli auglýsingadeilda og ritstjórna en með þessari auglýsingu var stigið yfir þá línu því herferð Samherja er ekki aðeins herferð gegn einum fréttamanni eða einni ritstjórn heldur beinist hún gegn öllum blaðamönnum og öllum ritstjórnum, þar á meðal blaðamönnum á mbl.is."

Það verður að viðurkennast að erfitt er að skilja hvað formaður Blaðamannafélagsins er að fara með þessu og röksemdafærslan óhefðbundin. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en að Blaðamannafélagið saki stjórnendur Árvakurs um að hafa engu skil á milli ritstjórnar og auglýsinga til þess að ráðast gegn sínum eigin blaðamönnum og öðrum. Og krefst þess að stjórnendurnir virði múrinn með því að fara yfir hann. Þetta kallar að minnsta kosti á frekari útskýringar.

Í fyrsta lagi er mikið vafamál að Blaðamannafélagið eigi í nokkru að skipta sér af auglýsingum. Enn frekar að félagið sé að hlutast um að auglýsingabirtingar verði á einhvern hátt á ábyrgð ritstjórnar. Það er svo ekkert minna en annarlegt, að formaður Blaðamannafélagsins, nú eða stjórn þess, sé að gefa út álit og leiðbeiningar um hvað einstakir fjölmiðlar mega birta - hvort heldur það er á vegum ritstjórna eða auglýsingadeilda. Eða á það að vera þannig að fjölmiðlar birti ekki annað efni en það sem er formanni Blaðamannafélagsins þóknanlegt? Svo má auðvitað benda á að þarna er ríkisstarfsmaðurinn að skipta sér af því hvernig einkamiðlar afla sér tekna til þess að borga umbjóðendum formanns stéttarfélagsins laun (sem er enn bognara fyrir það að formaðurinn starfar ekki samkvæmt kjarasamningi félagsins).

Í bréfinu er þess einnig krafist að Árvakur birti ekki auglýsingar þar sem að „vegið er að starfsheiðri fréttamanns eða fréttamanna". Vissulega hefur Samherji fengið svar við spurningunni um hvort það sé líklegt til árangurs fyrir fyrirtæki sem eru óánægð með fréttaflutning einstakra miðla að birta auglýsingar um það á samfélagsmiðlum. Það breytir ekki því að fyrirtækjum er það heimilt kjósa þau að gera það og í raun óskiljanlegt að Blaðamannafélagið sé að beita sér gegn því yfirhöfuð. Enn frekar í ljósi þess að siðanefnd RÚV fann að framgöngu Helga og taldi ámælisverða, þó að hann og vinnufélagar hans vilji ekki una úrskurðinum.

Það er svo sem ekkert nýtt að fólk gagnrýni fjölmiðla og þá sem við þá starfa. Það þekkja lesendur þessara síðna öðrum betur! Sú gagnrýni getur verið og ofan og skoðanir á henni skiptar. Blaðamannafélagið hefur sjaldnast rokið upp til handa og fóta við þau tilefni.

                                                                       ***

Tölfræðiklám er fyrirferðarmikið í íslenskum fréttamiðlum. Það er mjög algengt að forsvarsmenn hagsmunahópa stígi fram í fréttatímum og klifi á tölfræði sem fréttamenn gera engar tilraunir til að setja í röklegt samhengi. Í kvöldfréttum RÚV á mánudaginn fyrir viku var viðtal við Drífu Snædal, formann ASÍ, um kosningaáherslur samtakanna (þeir sem telja að verkalýðshreyfingin flokkist ekki undir hagsmunaöfl mega gjarnan hafa í huga að hún setur alla jafnan fram kröfugerð fyrir kosningar).

Drífa sagði að á Íslandi ættu ríkustu 5% landsmanna um 40% af allri hreinni eign í samfélaginu og nýr auður ratar hlutfallslega mest til hinna ríku. Ósanngjörn uppbygging skattkerfisins ýti undir þennan ójöfnuð þar sem hinum eignamestu er gert kleift að greiða lægra hlutfall til samfélagsins.

Þessi tölfræði segir lítið um ástandið ef ekki er frekar rýnt í hvað stendur að baki. Boðskapurinn um hinn mikla ójöfnuð sem þessi tölfræði lýsir missir marks um leið og það sést að til þess að komast í hóp hinna ríkustu dugir að eiga andvirði skuldlausrar íbúðar á höfuðborgarsvæðinu. Það geta ekki talist ósanngjörn laun fyrir fólk sem er nálgast lífeyrisaldurinn og því þarf að spyrja Drífu hvort ASÍ sé að leggja til að skattkerfið verði beitt gegn þessum hóp? Þá er einnig rangt sem kemur fram í máli ASÍ að þessi hópur sé eftirbátur þegar kemur að skattgreiðslum. Þvert á móti.

                                                                       ***

Ummæli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra í viðtali við Stundina á dögunum vöktu mikla athygli. Héldu margir að þeir hefðu himin höndum tekið í baráttu öreiganna við hið vonda auðvald. Gleðin minnkaði þegar Ásgeir útskýrði orð sín betur og sagði að margvíslegir hagsmunahópar væru fyrirferðarmiklir í íslensku til að mynda hagsmunasamtök launþega, vinnuveitenda, atvinnurekenda, lífeyrissjóðir og fleiri. Ríkisútvarpið brást við þessu með því að kalla Henry Alexander Henrysson heimspeking til viðtals. Þar útskýrði heimspekingurinn að Ásgeir Jónsson hefði í raun átt við eitthvað annað en Ásgeir Jónsson hafði áréttað og ítrekað skömmu áður.

                                                                       ***

Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, var til viðtals í Víglínunni á Stöð 2 á dögunum. Þar kom Birgir með nýjan og óvæntan mælikvarða á fjárstyrk fyrirtækja. Hann mælir hversu lengi yfirstjórn félags geti starfað án þess að nein raunveruleg starfsemi fari fram í fyrirtækinu. Birgir sagði:

„Og í raun og veru svo vel fjármagnað að við eigum nóg fé til að hefja ekki starfsemi í tvö ár. Þannig að það liggur ekkert á hjá okkur að hefja flug eða til dæmis að taka næsta skref í Bandaríkjaflug. Við getum gert þetta nákvæmlega á þeim forsendum sem hentar okkur og markaðnum."

Þannig að það er ekkert sem útilokar að stjórnendur Play hætti við allt saman og fari að haga sér eins og venjulegir miðaldra menn og opni smasshamborgarastað í miðbæ Reykjavíkur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.