

Valið á nýja seðlabankastjóranum hefur vakið talsverða umræðu, þó fáir geri athugasemdir við þann sem var valinn. Bent var á að Sigríður Benediktsdóttir formaður hæfisnefndar væri sjálf ekki vel hæf, að eitt og annað við aðferðafræðina væri bogið og ekki traustvekjandi að 7 af 8 umsækjendum, sem nefndin taldi ekki „mjög vel hæfa“ hafi andmælt mati hennar og talið verulega vankanta á málsmeðferðinni. Enda fór svo að forsætisráðherra ræddi við fleiri umsækjendur en þá fjóra, sem nefndin taldi hæfasta.
Seðlabankastjóranefndin skilaði þó fjórum nöfnum, sem er eitthvað annað en hæfnisnefndir fyrir dómara ástunda, því þær hafa aðeins skilað nákvæmlega jafnmörgum nöfnum og þær stöður sem sótt er um. Allar eru hæfnisnefndirnar ábyrgðarlausar en skilja ráðherrana eftir í þeirri klemmu að hlýða annað hvort fyrirskipan ábyrgðarlausra embættismannanefnda sem eiga ekki að hafa vald þar um, nú eða gera það ekki og uppskera pólitískar árásir, kærur og málshöfðanir. Það er uppskrift að vondri stjórnsýslu.
Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.