*

mánudagur, 1. mars 2021
Örn Arnarson
14. september 2020 07:49

Skítapleisið Boston og hagsmunir Amgen

Kári hefur á undanförnum árum afrekað að skrifa öllum Íslendingum – að Halla og Ladda undanskildum – harðorð bréf.

Kári Stefánsson, Fanney Birna Jónsdóttir og Jón Ívar Einarsson. (Skjáskot úr Silfrinu á RÚV)

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur á undanförnum árum afrekað að skrifa öllum Íslendingum – að Halla og Ladda undanskildum – harðorð bréf sem birst hafa í prentmiðlum. Nú síðast varð Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard háskóla í Bandaríkjunum, fyrir barðinu á forstjóranum.

Jón Ívar hafði birt prýðilega grein í Morgunblaðinu þar sem hann velti með hófstilltum hætti upp spurningum um hvort sóttvarnaaðgerðir íslenskra stjórnvalda hafi verið harkalegri en efni standa til. Nefndi hann að taka ætti til skoðunar hvort heimkomusmitgátt væri gagnlegri en sóttkví í ljósi tölfræði um dánartíðni vegna kórónuveirunnar. Þetta eru fyllilega réttmætar spurningar og í raun nauðsynlegt að umræða um þær fari fram í ljósi þeirra gríðarlegu efnahagslegu afleiðinga sem harðar sóttvarnaaðgerðir hafa. Framlag Kára til þeirrar umræðu fólst í því að kenna Jón Ívar við þekktan loddara úr íslenskum bókmenntaarfi og benda á þá augljósu staðreynd að Boston, borgin sem hýsir Harvard-háskóla, sé skítapleis.

Það sama var uppi á teningnum þegar Kári og Jón Ívar leiddu saman hesta sína í Silfrinu sem hóf göngu sína á ný á Ríkisútvarpinu fyrir rúmri viku. Það viðtal vakti upp áleitnar spurningar um hvað skýrir vægi Kára Stefánssonar í þessari umræðu og þátt hans í ákvörðunartöku stjórnvalda um sóttvarnaaðgerðir vegna heimsfaraldursins. Sem kunnugt er hefur Kári mælt fyrir hörðum sóttvarnaaðgerðum og stillt upp tveimur valkostum í þeim efnum: Annaðhvort getur fólk kosið að senda börn sín í skóla og vonast til að geta tryggt sér miða á jólatónleika Baggalúts í desember eða þá að gefa ferðaþjónustunni vonarglætu að lifa þessar efnahagslegu hamfarir af. Ljóst er að málið er ekki svona einfalt og brýn nauðsyn er að fjölmiðlar skapi farveg fyrir frjóa umræðu um þessi mál og að sama skapi veiti stjórnmálamönnum aðhald og láti þá rökstyðja með skýrari hætti hvað liggi að baki ákvörðunum um hertari sóttvarnaaðgerðir.

                                                        ***

Í þessu samhengi má einnig velta fyrir sér af hverju íslenskir fjölmiðlar hafa svo sterka tilhneigingu til að persónugera áherslur Íslenskrar erfðagreiningar í sóttvarnamálum við Kára sjálfan. Kári er starfsmaður félagsins sem er í eigu Amgen sem er eitt stærsta líftæknifyrirtæki heims og er skráð á bandarískan hlutabréfamarkað. Eðli málsins samkvæmt hlýtur þetta félag telja sig hafa einhverja hagsmuni af því hvernig íslensk stjórnvöld haga sínum sóttvarnaaðgerðum og gera verður kröfu til fjölmiðla að þeir fjalli um málefni Íslenskrar erfðagreiningar í því ljósi.

                                                        ***

Meira um sóttvarnir. Morgunblaðið á hrós skilið fyrir greinargóðan samanburð á mismunandi aðgerðum stjórnvalda um heim allan vegna heimsfaraldursins á mánudag. Af þeirri umfjöllun má ráða að aðgerðir íslenskra stjórnvalda eru ekki sérstaklega harðar í samanburði við aðgerðir annarra ríkja. Myndræn framsetning á umfjöllunarefninu er til fyrirmyndar og er góð áminning að ekki þarf mikinn texta til að útskýra flókna hluti fyrir lesendum.

                                                        ***

Og enn meira af sóttvörnum og ef til vill almennu hreinlæti: Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar sem er eitt stærsta stéttarfélag landsins, hvatti í síðustu viku félagsmenn sína til að undirrita viljayfirlýsingu um þátttöku í fyrirhuguðu hlutabréfaútboði Icelandair með tíðablóði sínu. Vafalaust bíða margir spenntir eftir að blaðamaður beri upp spurningu hvort þessi hvatning samræmist sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda á næsta blaðamannafundi Almannavarna og Landlæknis vegna veirufaraldursins.

                                                        ***

Fyrir nokkrum vikum tilkynnti VÍS um að það ætlaði í samkeppni við rakningarapp Almannavarna. Um er að ræða svokallaðan Ökuvísi en hann gerir tryggingafélaginu kleift að fylgjast með akstri viðskiptavina sinna. Þær upplýsingar gera svo sérfræðingum félagsins mögulegt að ákvarða iðgjöld bifreiðatrygginga með nákvæmari hætti en áður. Vakti þetta töluverða athygli í fjölmiðlum enda vekur þetta upp mörg álitamál í tengslum við persónuvernd. Athygli vekur að fjölmiðlar hafa ekki fylgt þessu máli eftir en mjög fróðlegt væri að vita hvaða viðtökur Ökuvísirinn hefur fengið hjá viðskiptavinum félagsins.

                                                        ***

Stjórnmálaflokkurinn Viðreisn kynnti í síðustu viku tillögur sínar í efnahagsmálum vegna þess efnahagsástands sem hefur skapast vegna kórónuveirufaraldursins. Í stuttu máli snúa þær alfarið að aukningu ríkisútgjalda. Aðrir stjórnmálaflokkar hafa kveðið sama stef að undanförnu – öll viðbrögð snúast um yfirboð og aukningu ríkisútgjalda. Ekki hefur borið á umfjöllun fjölmiðla hvort slík stefnumál séu sjálfbær til lengri tíma litið og stjórnmálamenn hafa ekki verið látnir svara spurningum hvort endalaust sé hægt að auka útgjöld ríkissjóðs án þess að skera niður.

                                                        ***

Ríkisstjórnin er að mörgu leyti undir sömu sök seld í þessum efnum. Þannig var stjórnarfrumvarp um svokölluð hlutdeildarlán samþykkt í síðustu viku. Lögunum er ætlað að auka svigrúm þeirra sem hafa ekki áður keypt sér fasteign til að festa kaup á ákveðnum tegundum nýbygginga með ríkisstyrk. Augljóst er að lögin eru mikill hvalreki fyrir byggingaverktaka en að sama skapi vakna upp spurningar um hvort þau leysa einhvern vanda sem er til staðar. Vextir eru í sögulegu lágmarki og þrátt fyrir samdrátt síðustu tvo ársfjórðunga er mikill kraftur í viðskiptum á íbúðalánamarkaði. Auk þess sýna hagtölur að undanfarin misseri hefur hlutfall fyrstu kaupenda á fasteignamarkaði aldrei verið jafn hátt.

                                                        ***

Það virðist vera órjúfanlegur fylgifiskur efnahagssamdráttar hér á landi að hópur manna sannfærist um að lán til viðskiptavina banka séu ólögleg. Nú hafa Neytendasamtökin látið vinna fyrir sig lögfræðiálit þar sem færð eru rök fyrir því að fasteignalán með breytilegum vöxtum séu ólögleg. Sem kunnugt er þá hafa slík lán notið mikilla vinsælda og fjölmargir notað tækifærið sem lágvaxtaumhverfið hefur skapað og endurfjármagnað fasteignalán sín. Eins og fram kemur á heimasíðu samtakanna kunna þessi lán að vera ólögleg vegna þess að viðskiptavinir fjármálafyrirtækja skilja ekki hvernig vaxtakjörin eru ákvörðuð hverju sinni.

Þrátt fyrir málið hafi fengið töluverða umfjöllun í fjölmiðlum hafa ekki fengist skýr svör við því á hvaða vegferð Neytendasamtökin eru. Af hverju kvarta samtökin undan lánum viðskiptabankanna en ekki til að mynda lífeyrissjóðanna sem einnig veita fasteignalán á breytilegum vöxtum? Er einhver eðlismunur á þessum lánum?

                                                        ***

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hefur farið fyrir þessu máli. Tvö ár eru liðin frá því að hann var kjörinn formaður samtakanna og hefur hann verið duglegur við að gagnrýna fjármálafyrirtæki á ferli sínum. Þar sem ákveðnir fjölmiðlar telja það vera skyldu sína að upplýsa lesendur sína á hverjum degi hvaða skoðun Gunnar Smári Egilsson hefur á hinu og þessu vekur það undrun að þeir hafi ekki rifjað upp varnaðarorð hans við kjöri Breka á sínum tíma. Eins og Karl Th. Birgisson fjölmiðlamaður bendir á á Facebook-síðu sinni þá sagði Gunnar í aðdraganda formannskjörs í Neytendasamtökunum Breka vera óskaframbjóðanda auðvaldsins og arðræningja og í alveg sérstöku dálæti hjá starfsmönnum viðskiptabankanna.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.