*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Óðinn
6. október 2021 07:04

Skíttap stjórnarandstöðu, eigin sök og annarra

Óðinn fjallar um hvar vinstriflokkarnir fóru útaf sporinu í kosningabaráttunni.

Það eru sumir súrir í kjölfar úrslita alþingiskosninganna um síðustu helgi. Vonbrigðin eru ekki síst vegna stórkostlegra niðurstaðna úr skoðanakönnunum í vikunni fyrir kosningar. En þær niðurstöður skipta auðvitað engu máli.

* * *

Það er ljóst að fylgið tók breytingum á lokasprettinum. Sumir hafa viljað kenna Viðskiptablaðinu og fleiri fjölmiðlum um þær breytingar. Óðinn er þeirrar skoðunar að ástæðurnar séu ef til vill nærtækari.

Sprengja í eigin andlit

Byrjum á Viðreisn. Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi, var harðorður í garð Ásgeirs Jónssonar Seðlabankastjóra í viðtali við Ríkisútvarpið á kosningakvöldið. 

Ásgeir sagði á fundi Félags löggiltra endurskoðenda (FLE)  að hugmyndir um að festa íslensku krónuna við evruna væru „að einhverju leyti vanhugsaðar" og kunni að leiða til hærri stýrivaxta. 

Í samtali við Ríkisútvarpið sagði Guðbrandur:

„Mér fannst þetta mjög óábyrgt að fá þetta viðtal í loftið rétt fyrir kosningar. Þetta er embættismaður að tjá sig á mjög neikvæðan hátt fyrir stefnuskrá eins flokks og mér finnst það eiginlega bara forkastanlegt að þetta hafi átt sér stað."

„Mér finnst þetta mjög sérstakt og ég veit ekki hvort Seðlabankastjóri hafi ætlað sér að þetta færi í loftið við þessar aðstæður. Mér er sagt að þessi upptaka af honum hafi átt sér stað fyrir tveimur eða þremur vikum en svo er hún birt bara núna rétt fyrir kosningar þannig að menn gátu ekki farið í einhverjar varnir útaf þessu."

Þarna tekst Guðbrandi að fara með hverja rangfærsluna á fætur annarri auk þess að misskilja hlutverk Seðlabankans í öllum aðalatriðum.

* * *

Þetta var ekki viðtal heldur tilvitnun í ummæli seðlabankastjóra frá Reikningsskiladegi FLE, eins og kemur skýrt fram í frétt Viðskiptablaðsins sem og í endursögn Morgunblaðsins. Seðlabankastjóri var spurður um þann möguleika að festa krónu við evru á lokuðum fundi endurskoðenda. Það þarf frjótt ímyndunarafl til að halda að með þessu hafi seðlabankastjóri ætlað sér að hafa einhver áhrif á kosningar til Alþingis. Ef svo hefði verið, hefði þá ekki verið nær fyrir seðlabankastjórann að kalla fjölmiðla til sín á fund og segja þessa skoðun?

* * *

Það er skoðun oddvita Viðreisnar í Suðurkjördæmi að seðlabankastjóri megi ekki tjá sig um nokkuð sem er á stefnuskrám stjórnmálaflokka. Hvernig gæti slíkt gengið upp? Hvenær missir bankastjórinn málfrelsið og hvenær fær hann það aftur? Veit oddviti Viðreisnar virkilega ekki að Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun að lögum - þó svo að fyrrverandi flokksystir hans úr Samfylkingunni hafi reynt eyðileggja það sjálfstæði í kjölfar hrunsins?

* * *

Það er rangt að ummælin hafi átt sér stað 2-3 vikum fyrir kjördag. Þau áttu sér stað á fundi átta dögum fyrir kjördag. Blaðamaður Viðskiptablaðsins fékk upptöku af fundinum á fimmtudeginum á eftir og gerði frétt upp úr fundinum þá. Algjör tilviljun réði því að upptakan barst honum. Að þetta hafi verið eitthvert samsæri Ásgeirs Jónssonar og Viðskiptablaðsins er hugarburður. Hefði blaðamaðurinn fengið upptökuna fyrr hefði fréttin birst fyrr og án nokkurs vafa haft meiri áhrif á úrslit kosninganna.

* * *

Hið rétta er að Viðreisn reyndi að slá ryki í augu kjósenda með einstaklega óábyrgum og ófyrirleitnum hætti. Stjórnmálaflokkurinn birti fjögurra blaðsíðna kápuauglýsingu í Fréttablaðinu degi fyrir kosningar. Þar var vísitölufjölskyldunni lofaðar 864 þúsund krónum meira í ráðstöfunartekjur á ári. Án nokkurs fyrirvara og án nokkurra útskýra á áhættunni sem fylgi þessari leið.

Ekki var minnst á að tenging krónu við evru er gríðarlega áhættusöm leið eins og Ásgeir Jónsson benti á. Allur gjaldeyrisvaraforðinn, sem hefur verið síðustu misserin í kringum 800-900 milljarðar króna, væri að veði. Og þrátt fyrir mesta gjaldeyrisvaraforða í sögu þjóðarinnar þá er óvíst að hann myndi duga til að halda genginu stöðugu. Til þess að geta það þyrftu vextir hugsanlega að vera hærri, ekki lægri eins og Viðreisn hélt fram, en ella.

* * *

Þetta kosningaloforð Viðreisnar var sannkölluð sprengja. En blessunarlega sprakk hún framan í frambjóðendur flokksins en ekki í íslenskan almenning. Það voru því ekki fjölmiðlarnir, Viðskiptablaðið og Morgunblaðið, sem eyðilögðu þetta stefnumál Viðreisnar. Það var ónýtt frá fyrsta degi og afar útilokað að myndi valda flokknum skaða. En vissulega mátti ekki tæpar standa.

„Skíttap" Samfylkingar

Samfylkingin tapaði 2,2% frá kosningunum fyrir fjórum árum og fékk 9,9% fylgi. Flokkurinn hefur mest fengið 31% fylgi í alþingiskosningum en úrslitin nú eru þau önnur verstu frá stofnun.

Einhverjir, og þá eingöngu stuðningsmenn Samfylkingarinnar, töldu afar ómálefnalegt og ósanngjarnt að Viðskiptablaðið skyldi leyfa sér spyrja oddvita flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu um kauprétti sem hann á í banka einum úti í bæ. Þetta var ekki spurning um fortíðina heldur nútíðina - því upplýsingar blaðsins eru þær að þingmaðurinn verðandi ætti þennan rétt enn, í það minnsta að hluta.

* * *

Í stað þess að svara þessu, eins og formaður flokksins hélt fram að yrði gert, fór þingmaðurinn verðandi í óvænt þagnarbindindi um málið eftir að hafa tíst í löngu máli um allt annað en það sem um var spurt.

Óðinn hefur sagt áður að hann samgleðjist Kristrúnu Frostadóttur að vera orðin efnamaður, eða efnakona - fyrir þau sem ekki skilja íslenskt mál. En nú rétt eins og fyrr þá hefur Óðinn efasemdir um að margir samflokksmanna Kristrúnar gleðjist með henni líkt og Óðinn. Hvort það eitt hefur áhrif á fylgi Samfylkingarinnar skal ósagt látið. En það er ekki nokkur vafi á því að svarleysi Kristrúnar hefur haft áhrif. Samfylkingin tapaði því án nokkurs vafa á málinu síðustu vikuna fyrir kosningarnar.

* * *

Hins vegar má ekki gleyma þætti Loga Más Einarssonar, verðandi fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar. Sjaldan hefur sést lélegri formaður í kosningum til Alþingis - nema ef vera skyldi Oddný Guðbjörg Harðardóttir. Um leið og Logi lét sig hverfa úr kosningaslagnum þá reis fylgið en seig svo aftur síðustu vikuna þegar Logi neyddist til að taka þátt í kappræðum formanna flokkanna.

Það voru því orð að sönnu þegar fyrrverandi formaðurinn Össur Skarphéðinsson sagði að stjórnarandstaðan - og þar með Samfylkingin - hafi skíttapað kosningunum.

„Lítill ævisparnaður" Gunnars Smára

Að síðustu er rétt að minnast á flokkinn þar sem bæði stofnandinn og hugmyndafræðin hefur orðið gjaldþrota aftur og aftur. Með svo miklum látum að Óðinn hélt að lágmarks sögukennsla í grunnskólum myndi gera það verkum að ekki nokkur einasti lifandi maður myndi styðja slíkan mann og slíkar hugmyndir.

* * *

Óðni fannst ástæða til að fjalla um gríðarlega hlutabréfaeign Gunnars Smára á árunum fyrir hrun og stuðning hans við frjálshyggju. Ekki síst eftir að viðtal við hann í Dagmálum Morgunblaðsins þar sem hann hélt því fram að rúmlega 700 milljóna hlutabréfaeignin (á núvirði) hafi verið lítill ævisparnaður. Hlutabréfaeignin var vissulega mest í Dagsbrún, þar sem Gunnar Smári var forstjóri. En fjármunir hans lágu einnig í mörgum öðrum félögum; Kaupþingi, Landsbankanum, Exista, Eimskipafélaginu og Bakkavör.

Gunnar Smári hefði aldrei skíttapað þessum kosningum ef hann hefði ekki sagt ósatt og sagt þetta „lítinn ævisparnað" - þegar allir sjá að hlutabréfaeignin var gríðarleg - þá flúðu kjósendur. Það kýs enginn lygara.

* * *

Óðinn taldi Gunnar Smára snjallan málafærslumann þótt hann vissi að hann væri afleitur rekstrarmaður og eigi alls ekki að fara með annarra manna fé - hvorki auðmanna né almennings.

Ef Gunnar Smári hefði einfaldlega sagt satt, talað um þátt sinn í útrásinni og viðskipafléttunum, ferðirnar með einkaþotunum, misheppnuð viðskiptaævintýrin og gríðarlegu hlutafjáreignina þá væri hann ekki álitinn lygari. Ef hann hefði einfaldlega sagt að hann hafi séð kapítalismann af eigin raun og hann væri hræðilegur þá hefði hann komist upp með viðskiptaævintýrin. En það er víst of seint að benda blessuðum manninum á þetta núna þegar hann er búinn að klúðra kosningunum.

Það er ólíklegt annað en Gunnar Smári snúi aftur. Þá munu Óðinn og aðrir sem þekkja söguna taka til varna. Því engin hugmyndafræði hefur drepið fleiri í mannkynssögunni en sósíalisminn.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.